Útreiðartúrinn | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (46)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Útreiðartúrinn

Fyrsta ljóðlína:Mér fyrir eyrum myndar klið
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Útreiðartúrinn eftir Ólaf Áka Vigfússon fjallar um ferð nokkurra góðborgara á Sauðárkróki til Hofsóss. Þessi uppskrift er rituð eftir handriti Friðbjarnar Jónssonar f. 1876 b. á Þrastarstöðum en loks á Akureyri. Hann dó þar árið 1970.
Útreiðartúrinn

Mér fyrir eyrum myndar klið
málugir þegar glópar spjalla
sönggyðjan blíða ljá mér lið
látum nú hörpustrengi gjalla.

Símritað var af Sauðárkrók
sagan og mun því lítið skeika
heims úr gárunga gjörðabók
gripið við fyrstu hentugleika.

Vetrarleiðin þó væri grimm
vestrænir stormar juku kvíða
úr embættismanna flokki fimm
fullhugar burt að heiman ríða.

Týhraustur meður tunnukropp
tignarlegur þá sýndist vera
kennum vér fremstan kaupmann Popp
knýandi vakran beislahéra.

Þarna fáum við fleiri séð
friðarkempur af sama tagi
þar var bóksali Blöndal með
brjóstveikur þó í meira lagi.

Hnakksætið viður þibbast þétt
þykir hjá líðum enginn dóni
Gíslason Kristján keyrði á sprett
kátur skriðefldu gjarðaljóni.

Einnig valdráður Vídalín
verð þar í flokki höfðingjanna
af honum geisli gáfna skín
gjörði sá prýða hópinn manna.

Skarða Lalli með skapið kátt
skírt er oss frá að víða rati
skottið þá gerði hringa hátt
hygginn og dyggur fylgdar snati.

Hérna yfir í Hofsárós
heimsókn að reyna kunningjanna
ætluðu virðir elda sjós
útbúnir plöggum skilríkjanna.

Ákvarða bragnar erindið
engan mun fýsa að heyra
skuldanna ólar eflaust við
austurlendinga hálsinn reira.

Dragferja þulins þar við beið
þeir mega gjarnan hafa næði
erindislok hvort urðu greið
ei verður greint í þessu kvæði.

Létthlaðin flýtur frosta skeið
fram á úthafið sagnar víða
þar til bragnar á bakaleið
bjuggu sig yfir Vötnin ríða.

Á vegi þessum er Víkuráll
virðar sig fyrir honum passa
hvimleiður mörgum þegi þjáll
á var opinn í báða rassa.

Bjarnarferja þá bila vann
brakaði hátt í tindum fjalla
hesturinn veltist hels við bann
á hrokasundi með Skarða Lalla.

Kristján Gíslason kepptist við
keðjuljónið með sporum knúði
yfir frostbólgið úlfa svið
undan hættunni snarast flúði.

Bráðlega kom á Krókinn hann
karlmannalið á réð heita
fljótast sem kunnu frægðarmenn
félögum sínum hjálp við vanda.

Hinum þrefaldast þrautafár
þessa hamingjan lítið styður
þeirra tilvalinn klyfjaklár
kollsteypast vann í djúpið niður.

Tröllaukinn þá og trítlar Popp
tæpt á vakarbarmi sleipum
í náði hestsins ennistopp
um sem að brausti í dauðans greipum.

Félögum Lalla leiðast vann
lífsins og dauðans taflið stríða
Vídalín báðu víst með sann
með voðaflýti á Krókinn ríða.

Kom þar lafmóður korðagrér
kastaði frá sér handagerðum
segjandi piltar hjarna hér
hætta stórkostleg er á ferðum.

Brugðu þá margir bragnar við
brotsjóar dauðans þar sem falla
nákaldir út í náttmyrkrið
nauðstaddir bræður hjálp á kalla.

Fremstur í flokki farar reið
fullhugi slyngur dáða trúði
graðhesti elfdum ekki beið
Eggert Jónsson frá Nautabúi.

Björgunarhring að baki sér
bundið þá hafði kappinn slyngi
fljótar en örin yfir fer
aumstöddum bjarga hels af þingi.

Fór það á eftir fjöldi manns
fjórar talíur höfðu á sleða
krókstjaka með og kaðlafans
kófsveittur áfram þessu streða.

Náttmyrkrið aldrei nær í hrós
nokkuð ef þarflegt á að gera
rafurmagns höfðu líka ljós
luktirnar náðu sumir bera.

Á öllum tímum að oft við gekkst
að þegar kreppir nauða snara
ávalt nokkuð til líknar leggst
laglega þegar á að fara.

Kófsveittur Blöndal kífs á braut
kvað við sem eltur skíðahvalur
framan og aftan hósta hlaut
helfrosinn drundi bjargasalur.

Eggert á hljóðið óðar rann
athugull vel og lyndisprúður
sama það gilda garpinn vann
sem grenjað væri í þokulúður.

Gneistar af hestsins fleygiferð
flugu líkt eins og skotið púður
dugandi fylgdi drengjamergð
drundi þá aftur Blöndals lúður.

Á skörinni standa þegnar þá
þreklegir sýndu hug óblauðan
klárinn og Lalla kappar sjá
kljást voru þar við opinn dauðann.

Loksins úr dauðans kulda kverk
klárinn og Lalla náðu draga
helga minning um hreystiverk
hlýtur að greina landsins saga.

Sárilla Lalli sá þá út
sárkaldri vatnabygju þveginn
sem loðhundur einni lykkjuhnút
lafmóður er af sundi dreginn.

Skjálfti Lalla þá skæður kleip
skrölta tennur í góma veri
Koníkspela Popp þá greip
og pytlustútnum að munni sneri.

Býsna handfljótir brangar þá
báru á sleðann votann Lalla
heimleiðis sækja svo sem má
sjúklinginn klæða ullarballa.

Bagnar í skyndi héldu heim
hitna þeim vann á spretti hlaupa
sinnugir gagnvart sjúkum þeim
sængurrúm náðu honum veita.

Sárþjáður bleikur Lalli lá
litla gat fengið værardúra
syndlausu Laugu seggir fá
sárþjáðum manni hjá að lúra.

Hvernig sem heppnast lindalín
lækning að veita sjúkum manni
svoddan mér fyrir sjónum skín
siðferðisreglur trúi ég banni.

Brestur mig efni blíðlynd mey
botninn úr sögu fer að detta
sjóferða lúið suðra fley
set ég á land við þagnarkletta.