Afmæliskveðja | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Afmæliskveðja

Fyrsta ljóðlína:Nú ár hafa liðið í aldanna skaut
Höfundur:Bjarni Lyngholt
bls.19
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaaB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1893
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

„Til frú Mörtu Jónsdóttur á Seljalandi [þegar hún var 25 ára. Á gamlársdag 1893.])“
1.
„Nú ár hafa liðið í aldanna skaut“
og áranna fjöldi er hulinn,
en ýms er þó minning á ævinnar braut –
frá umliðna tímanum – gleði og þraut,
sem ei verður afmáð né dulin.
2.
Já, margs er nú, Marta, að minnast i kvöld
og mikil og háleit er stundin.
Þú fullkomnað hefur nú fjórðung af öld;
sem fæst ei til baka, því daganna fjöld
er talin og takmörkum bundin.
3.
Þú horfir til baka, en horfið er allt
með hverfandi tímanna straumi.
Þú lítur til baka, en liðið er allt –
þig langar það kaupa, en það er ei falt;
þú lítur það líkt og í draumi.
4.
En eftir er tími því eftir er líf,
sem örlaga rúnirnar þýðir.
Hann færir þér gleði? Hann færir þér kíf?
Hann færir þér dauða? – Hann færir þér líf?
– Hann færir þér friðland um síðir.
5.
Vér óskum þér blessunar, ókomin ár
vér óskum þér hamingju, Marta!
Vér óskum þú eigir mörg ólifuð ár;
Vér óskum þér samhuga: Gleðilegt ár.
Vér árnum þér heilla af hjarta.