Aldamót | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Aldamót

Fyrsta ljóðlína:Lifið heilir. Himins friður
bls.73
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) ferkvætt AAAo
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) ferkvætt AAbAb
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900/1933

Skýringar

Fyrsta erindið er undir sér bragarhætti en hin öll saman undir fimmlínuhætti.
Lifið heilir. Himins friður
hjúfri eins og bládögg niður.
Friður sé með öllum yður!
Aldamóta kveð ég brag.

Enn þá grænkar gamla jörðin,
gægist víðir yfir börðin,
taða þróast túnum;
enn þá blikar bláa gjörðin,
bandið landa ströndum hjá.

Það er eins og endir rímu
eða skipti dags og grímu,
þá er tíminn blað við blað.
Ena vímu í vindblæ ýmu,
við skulum glíma upp á það.

Við höfum sjálfir skapað skipting,
skipta tugum efst í lyfting,
einingunum á bæði borð.
Hundrað ár við siglusvipting
seinast mæla stjórnarorð.

Nú er hátíð hundrað ára,
horfin er er hin síðsta bára
bak við máluð tímans tjöld,
geislaskipti gleði og tára
gengu um sviðið heila öld.

Kveðjum alla áratugi,
eining hverja á sínu flugi.
Kveðjum heilir heila öld.
Endurminning allra hugi
endurhrífa skal í kvöld.

Eg ætla’ ekkert upp að telja,
enda þótt sé margt að velja,
þrautarstorm og þægan byr.
Oft var mótt í milli élja;
margoft dúði skeiðin kyr.

Nýir tímar, annar efni.
Öldin nýja þvær um stefni.
Framtíð dansar öldum á,
smelli loku að smeðjusvefni
smábandsára kvöldum frá.

Vonarlagin ljóð hún syngur,
leikur hún við hvern sinn fingur,
þar eru kraftar kjúkum í.
fleiri en þessi héraðshringur
heyra sporin föst og ný.

– – –

Við mér blasir héraðshringur.
Heyrið hvernig „goði“ syngur!
Þorgeir unni þessum stað.
Utar Kinnarfjalla fingur
falla í hnefa sjónum að.

Þar er Fellið fyrir miðju,
faðmað þétt af skógarviðju,
Syðstabunga, Hulduhlíð;
þar er fossinn enn að iðju:
ullina þó hann fyr og síð.

Austanverðu upp með Fljóti
íslensk heiði blánar móti,
Bárðardalur innar er.
Sé ég víða gull í grjóti
Glóðalands í huga mér.

Og um öll vor héröð hýru
horfir Framtíð auga skýru,
jafnvel yfir allan heim.
Hundrað ára sora og sýru
sjá menn varla í augum þeim.

Og hún bendir oss að vaka
og með hendi vorri taka,
fólgið er í grasi gull.
Fossa þrumur þeygi saka.
Þrasakista er enn þá full.

Hár frá enni, upp með hendur!
er flæktar kaðalbendur.
Hafsins kista auðug er.
Dragðu auð á Íslands strendur
upp úr sjónum handa þér.

Taktu’ að byggja brýr og vegi,
blessaður klárinn þolir eigi
kaldasund og kvikuslit,
enda kindin þolir þeygi
þyrkings hold og maurabit.

Láttu’ hið rétta ráða lögum;
rósir spretti hér í högum,
heimalandi hugar þíns;
þá mun létt að lofa mögum
lesa minning föður síns.

Ó, ég sé í augum manna:
allir vilja’ hið góða og sanna,
trúa fegri framtíð á,
og þeir finna, ef þeir kanna,
aflið sitt, er styður þá.

Heill um allar heimsins strendur,
heill um allar sveitalendur,
gleði og heill í hundrað ár!
Hár frá enni, upp með hendur,
afl og hreysti í þúsund ár!