Vorvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vorvísur

Fyrsta ljóðlína:Kæra vor, þú blessar enn í bæinn
bls.306
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1912

Skýringar

Undir heiti stendur: „súngnar í sumargildi stúdenta, 24. apríl 1912.“
Kæra vor, þú blessar enn í bæinn. 
Börnin taka kát í þína hönd. 
Þú tókst með þér sunnan yfir sæinn 
sólskinskvöld og blóm á fjall og strönd. 
Tíndu til hvern geisla sem þú getur, 
gefðu hverjum bros í augun sín. 
Hvernig ættu’ að vaka heilan vetur 
vonir okkar, nema bíða þín? 

Flýtt’ þér nú, að dreifa blómum dalinn, 
dragðu’ að efstu brún hin nýju tjöld, 
leiddu’ á bláa bogann yfir salinn 
bjarta morgna’ og roðafögur kvöld. 
Láttu glaða sönginn öllum óma, 
örva sumarhug og létta spor. 
Enginn veit við nýrrar Hörpu hljóma 
hverjir stíga dansinn næsta vor. 

Heilum vetri, þótt hann væri þungur, 
þeyta má á einni sumarnótt. 
Gáttu’ í leikinn—þá ertu’ enn þá ungur. 
Út í hornið kemstu nógu fljótt. 
Glaða vor, við þurfum blíða blæinn. 
Börnin vona, þegar sólin skín. 
Fífill kemur. Það er bros í bæinn: 
blessuð fagra sumargjöfin þín.