Abraham og Lot | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Abraham og Lot

Fyrsta ljóðlína:Fagurt var í fjalla blómgum hlíðum
Höfundur:Valdimar Briem
bls.20–22
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Fagurt var í fjalla blómgum hlíðum,
fagurt var um rennislétta grund,
fagurt var á frjóvum ökrum víðum,
fagurt var í kyrrum myrtuslund,
fagurt landið, fagurgrænt að skoða,
fagurt vatnið himinblátt og tært,
fagurt loftið, fágað sólarroða,
fagurt vorið gullinbjart og skært.
2.
Döggin féll í dali græna niður,
demantsknappar sátu rósum á.
Hátt í lofti heyrðist fagur kliður
hörpu vorsins yndislegri frá.
Þá var kvikt og kátt í hlíðum dala,
kvikar hjarðir undu þar á beit,
léku sér um börð og holt og bala,
blómin tindu þar um fagra sveit.
3.
Þessar hjarðir allar saman áttu
Abraham og Lot, hans frændi kær.
Fyrir komast flokkar varla máttu,
feikimiklar voru hjarðir þær;
glaðar þó og sáttar sér þær undu
saman þar í Hebrons fögru byggð;
eigi þær til þrengsla neinna fundu
þegar eigi mættu neinni styggð.
4.
Hirðar þeir, er hjarða gæta skyldu,
hvergi voru spakir eins og þær.
Hirðar Lots þá hinum bægja vildu,
hinir aftur þóttust standa nær.
Reis af þessu rimma milli sveina,
róman jókst og úti var um frið.
Abraham með ró þá vildi reyna
róstu stilla’ og frænda mælti við:
5.
„Friður er í fögrum himinsölum,
feta ljósin stillt sinn mælda reit;
friður er í fögrum jarðardölum,
fénaðurinn unir rótt á beit.
Jörð og himinn halda sér í stilli,
hafa jafnvel sjávaröldur frið.
Engin misklíð okkar sé þá milli,
elsku-frændi, bræður eruni við“.
6.
„Viljir þú til vinstri handar búa,
vil ég feginn hægri snúa til;
viljir þú til hægri handar snúa,
hinnar vinstri til ég fara vil.
Sundrung þarf ei nú að vera nokkur,
nóg er beitin fyrir okkar hjörð.
Sjá þú, landið opið stendur okkur,
allt í kring er frjó og grösug jörð“.
7.
Lot til austurs yfir landið fríða
augu hóf og sýn þar fagra leit:
pálmalunda, unaðs-akra víða,
yndislega fagran blómareit.
Sæludal ei séð hann hafði fegri,
sjálfur mjög af fegurð hrifinn varð.
Paradís sá enginn yndislegri
en þann fagra drottins aldingarð.
8.
Kaus hann land í austurátt hið fríða,
aldrei þóttist gjöra betra val.
Abraham með bróðurþelið blíða
bjó þar kyr í fögrum Hebronsdal.
Fávís Lot ei vissi hvað hann valdi
var ei lengi búið sér í hag.
Byggðin feig ei honum. kom að haldi,
Hebron aftur stendur enn í dag.