Nýársljóð II | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nýársljóð II

Fyrsta ljóðlína:Íslands lýður, upp til stríða
bls.74
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AbAbccDD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1890
1.
Íslands lýður, upp til stríða,
upp að vígja nýjan dag!
Burt með vél og væl og kvíða,
vesældóm og píslarhag!
Finnst þér þú sért ennþá ung
eða gömul, stirð og þung?
Finnst þér þú á þessum degi
þínum fagnir lukkuvegi?
2.
Eins og svíkur særinn gljúpi
sólu fáðan báruleik
meðan niðri í dimmu djúpi
dauðamerkin felast bleik:
eins þig glepur ár og síð
yfirborðið, rúm og tíð;
finnurðu ei um háls þinn helsi,
hyggur borgið öllu frelsi?
3.
Hlaðin kaunum hleypidóma,
hvernig máttu ganga laus?
Aldrei þjóðir drap úr dróma
drembið skraf og heimskuraus.
Þó að laus sé hönd og háls,
hugsa ei að önd sé frjáls
eftir fjötur alls kyns nauða,
ólán þitt og svartadauða!
4.
Þar við bætist lygin leiða –
lygin klædd í sannleikshjúp;
hræsnin, sem vill lýðinn leiða
lífsins fram á voðadjúp.
Gamla heimskan heiminn flær,
hræðir, glepur, kitlar, slær.
Hvað skal lengi gulli gjalda
gamlar flíkur dauðra alda?
5.
„Þarna stendur þú mín kirkja“
þjóðmæringur* forðum kvað;
hvorugt orkar hitt að styrkja,
hinir verða að gjöra það. –
Lítum vér á vora storð,
velja mættum svipuð orð.
Burt með trú í tjóðurhafti!
Trúin býr í dáð og krafti.
6.
Trúðu frjáls á Guð hins góða,
Guð er innst í þinni sál.
Guð er ljós og lyfting þjóða;
lær hans eilíf Hávamál.
Hugsa fyrst um hvað þú ert,
heilagt tal er minna vert;
rís á ný og rek á flótta
rökkurdrauma þrældómsótta!


Athugagreinar

*þ.e. Jón Loftsson í Odda.