Guðbjörg Hannesdóttir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðbjörg Hannesdóttir

Fyrsta ljóðlína:Þér er brugðið, mamma mín!
bls.267
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBBacDDc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1911

Skýringar

Undir titli stendur: „Móðir höfundarins.“
I.
Þér er brugðið, mamma mín!
Sofin hníga að svæflum hlýju
svona um árdag, klukkan tíu,
þegar sól úr sorta skín.
Ætíð var þér yndi að sjá
vöku-augum birtu-blíðum,
bjarmann hennar kvikna í hlíðum.
stundar-rofum öllum á.

Hvort var nóttin þér svo þung?
Var ei hyggjan héðan-fúsa
heima, á leiðum föður-húsa?
Þar sem dvaldir, alltaf ung.
Varstu ekki í vina-hönd
þegar nefndir mæta móður,
missta löngu, og horfinn bróður?
Dóstu inn í æsku-lönd?

II.
Enn skal glaðna glugginn þinn!
Tjaldið enn frá útsýn dregið
eins og fyr, og morgun-degið,
skin og birta boðin inn.
Myrkrið á hér ekkert sitt,
það sem byrgja þurfi að reyna.
Það er engu hér að leyna,
líkið skírt sem lífið þitt.

Hafa að vísu um vangann þinn,
þrautir sem þér vóru í verki
vilt, um fáein rauna-merki,
þó er samur svipurinn:
Öllum hörmum hærri ró –
oft var mínum ástum hljóðum
orðsins varnað — nema í ljóðum
helst er örðugt auð-sagt þó.

Nokkur silfur-héluð hár
þræða ljósra-lita skrúða
lokkana, enn svo þokka-prúða,
tákn um átta-tíu ár.
Bjarmar yfir ennið slétt
ennþá sama móður-mildin,
mannvits-þroskinn, hagleiks-snilldin.
Þar var ekkert æst né grett.

III.
Veðrið syrtir aftur að,
úti er komin hríðar-móða,
sem að hefði sólin góða
flogið með þig strax af stað.
Seinna þraut hún þá, en nú,
þegar grasa-göngu rinda
gengum heima, í fjallatinda,
áður saman, eg og þú.

Fyrirgefðu, ef þyngra en þá
drúpir nú í dögun kaldri
drengurinn þinn, á sextugs-aldri.
Löng er brekkan, liðið á.
Þá var líka, þér við hlið,
ungur fótur fær og léttur.
Fjalla-auðnin gaman-sprettur,
tilhlakk, hvað sem tæki við.

Leit eg af hnjúki himin-bönd
losna um heim – sem hugði tóman
heiða-blámann, dala-ljómann,
ljóss og fanna furðu-lönd,
forvöð hafsins, fjörðum seymt
upp á land, við ós og flæði
alla mína landafræði
nam eg þá, sem gat ei gleymt.

Yfir landauðn ljómi stóð,
eins og byggð – sem ævin síðan –,
ástin þín og veðurblíðan
gerði hraun að sléttri slóð,
breiddi yndi á auðn og sand.
Lærðist mér að unna, una,
á að trúa, vona, muna
fegurð ykkar, líf og land!

IV.
Lið þitt alt mér léztu í té,
hönd þín stýrði hendi minni
hnepptri um pennann, fyrsta sinni,
er eg þreytti um á og b.
Svo hef’ eg, á sama hátt,
flestu í, sem fæstir lá mér,
fremsta stafinn dregið hjá þér –
hitt er mitt, hve margt varð smátt.

Þó að væri oft, við allt,
Ófimlega og illa lokið,
ástar-hendi gastu strokið
listanna minna höfuð hallt,
þrátt mitt eina, er eitthvað dró –
myndir klappa á kollinn líka
kveðjunni döpru, er aðrir flíka
kvæðanna minna kulda-ró.


Ritað í krans:

Við þakkir, með kærleika-kransinn sinn bjarta,
Hér hvílir þitt útblædda móður-hjarta.