Ljóðeggjan | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljóðeggjan

Fyrsta ljóðlína:Syng þú ei með sorgartár
bls.196
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBBacDDc
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1882
1.
Syng þú ei með sorgartár
saknaðs-ljóð um horfna æsku:
þetta vor með veður-gæsku,
litla framkvæmd, fáar þrár.
Þessi fyrstu í frið og leik
fótspor stignu á lífsins vegum –
lofsæl æskan, er við tregum,
fögur er en völt og veik.
2.
Þá er hennar hrós um of,
hinna ef skyldum geta að engu
manndóms-ára mikilfengu,
sem þó eiga æðra lof.
Þó þau færi strit og stríð,
störfin örðug, vinnu langa,
sólbrennt enni, sveittan vanga:
þau eru samt vor sumartíð.
3.
Ekki er neinu efling hér
ævi löng í hvíld og friði –
það, að vinna, verða að liði
mannsins hæsta hlutverk er.
Ei má heimsins lof né last
letja þig í góðu verki.
Ljóss og sannleiks sigurmerki
líf þitt er að fylgja fast.
4.
Sinnar æsku ei sakna mun,
sá sem til þess marksins bjarta
keppir fram með heilu hjarta,
vinnur ei með vol og stun.
Hann veit lífsins innsta er
eðli það að vaka, stríða.
Og að framför lands og lýða
hvíli líka á sjálfum sér.
5.
Sumri þínu ef vel þú verð
verka til, sem manndáð sýna,
elli-haust þitt heiðri krýna
manndóms árin mikilsverð.
Laun þín verða fríð og fræg,
fegri auð og tignar-skrúða,
Hetja ljóssins hæru-prúða!
Lýðum gagnleg, góðum þæg.
6.
Fegra en æskan þín er þá
þetta sumar lífsins blóma,
ef með drenglund, dáð og sóma
vinnur þú, að vökva og sá.
Þá er líka lítils vert
lúinn þó þig beygja kunni,
móti ævi uppskerunni,
þegar verk þitt vel er gert.
7.
Grát ei tíð sem gengin er,
gleði og hreysti vinn þú meður.
Stuttir dagar, stopult veður
hindra nóg og hamla þér.
Upp, með hug og hjarta manns,
hirð ei hvort það nokkur lofar,
smjaðri og lasti lýðsins ofar:
leita sjálfur sannleikans.