Á afmælisdegi (1904) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Á afmælisdegi (1904)

Fyrsta ljóðlína:Situr storð í svölum blæ
bls.322
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBaaaBaB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1904
1.
Situr storð í svölum blæ,
sólin lægir geislastrauma.
Kvistir bera kufl úr snæ,
köldum ofinn fjallablæ.
Rökkurkyrrð um borg og bæ
bendir lífs á værðardrauma.
Situr storð í svölum blæ,
sólin lægir geislastrauma.
2.
Þó er glatt við þetta borð,
þrúgnalindir hýrar streyma.
Hugir stefna eins og orð
inn á tímans nægtaborð.
Margt á fagurt feðra storð,
frelsi og hreysti tindar geyma.
Því er glatt við þetta borð,
þrúgnalindir hýrar streyma.
3.
Hér er drukkinn hetjuskál,
hér sem gyrðist skjöld og sverði.
Maður ungur á sér mál
örlaganna að tæma skál.
Fæstum þykir ferðin þjál
– fengsælust þó hreystin verði.
Hér er drukkinn hetjuskál,
hér sem gyrðist skjöld og sverði.
4.
Þú ert viður vaxinn hér
vænstu meðal fjalla meiða.
Fagrar vonir fylkja sér
fast um þig og gylla hér
stigið hvert sem fram þú fer
framsóknar um völlinn breiða.
Þú ert viður vaxinn hér
vænstu meðal fjalla meiða.
5.
Menntagyðja krjúptu að knjám,
kynn þér lífsins huldu rúnir.
Planti gæfan gleði á brám,
geði, þol og styrk í knjám.
Hlúi að þér og þínum fjám
þrúðgar grundir, frjófgar brúnir.
Menntagyðja krjúptu að knjám,
kynn þér lífsins huldu rúnir.
6.
Kærleikur er gullvægt gjald
Gus úr pyngju rétt að mönnum.
Sjálfselskan er viðsjált vald
– virtu meira kærleiksgjald.
Fyr en rofnar tímans tjald
trygg þitt líf í sælurönnum.
Kærleikur er gullvægt gjald
Gus úr pyngju rétt að mönnum.
7.
Léttir til í lofti hátt,
logabröndum sveifla skýin.
Frelsishljóð úr allri átt
endurkveða um loftið blátt.
Við þig heilög haldi sátt
heilladís með gullnu tygin.
Léttir til í lofti hátt,
logabröndum sveifla skýin.
8.
Þér ég helga þessa skál,
þú minn besti ungi vinur!
Það er ekkert ástamál
unglings þó ég faðmi sál.
Stýrðu lífsins út á ál
æðrulaus þá báran dynur.
Þér ég helga þessa skál,
þú minn ungi, besti vinur!