Í dag er glatt í döprum hjörtum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Í dag er glatt í döprum hjörtum

Fyrsta ljóðlína:Í dag er glatt í döprum hjörtum
Höfundur:Valdimar Briem
Bein slóð að efni
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AbAbCCdd
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1886
Fyrirvari:Kanna þarf í ritum höfundar hvort sálmurinn sé fleiri erindi en tekin eru upp í Sálmabók.
1.
Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
oss Drottins birta kringum skín.
2.
Oss öllum mikinn fögnuð flytur
sá friðarengill skær:
Sá Guð, er hæst á himni situr,
er hér á jörð oss nær.
Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.
3.
Guðs lýður, vertu’ ei lengur hræddur
og lát af harmi’ og sorg.
Í dag er Kristur Drottinn fæddur
í Davíðs helgu borg.
Hann fjötrum reifa fast er vafinn,
í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn.
Hann þína tötra tók á sig,
:,: að tign Guðs dýrðar skrýði þig.
4.
Á himni næturljósin ljóma
svo ljúft og stillt og rótt,
og unaðsraddir engla hljóma
þar uppi’ um helga nótt.
Ó, hvað mun dýrðin himins þýða,
og hvað mun syngja englaraustin blíða?
Um dýrð Guðs föður, frið á jörð
og föðurást á barnahjörð.
5.
Ó, dýrð sé þér í hæstum hæðum,
er hingað komst á jörð.
Á meðan lifir líf í æðum,
þig lofar öll þín hjörð.
Á meðan tungan má sig hræra,
á meðan hjartað nokkuð kann sig bæra,
hvert andartak, hvert æðarslag
Guðs engla syngi dýrðarlag.