Hjarðsveinninn * | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hjarðsveinninn *

Fyrsta ljóðlína:Lék á kvisti lóa
bls.48–49
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Þetta kvæði er líka í handrit á Héraðsskjalasafninu á Sauðárkróki, HSk 1313 4to. Þar er nokkur orðamunur í sumum erindunum.
1.
Lék á kvisti lóa
í laufgum fjalla sal,
þar saman sauðum hóa
sveinninn ungi skal;
hann að tærum bar þar bekk,*
hvar brjóstið unga þorsta þjáð
þæga* svölun fékk.
2.
Brosti á grænum bala
blaðafögur rós,
hana í sínum svala
sólar nærði ljós;
vaggaði laufi ljúfur blær;
jurtadrottning dýrri hjá
drengurinn hvíld sér fær.
3.
Hann hóf um fjólu fríða
fagran Lofnar* söng,
heyrði hreiminn víða
um hárra fjalla þröng;
bergmál leiddi tind af tind,
snjallt svo ungi sveinninn söng
um sæla blómstur mynd.
4.
Dís í ljósum lundi
lokkafögur bjó,
í greinum æ þar undi
ein í helgri ró;
tignarleg úr sessi sveif,
gulli varða hörpu hún
hreyfði valakleif.*
5.
Hún söng með ungum sveini
snjallt og hörpu sló,
skógar lukt í leyni,
lauguð handar snjó;*
tónafagran töfrasöng
endurkváðu háum hljóm
hamrabeltin löng.
6.
Sveinninn söngvamóði
í sætan höfga hneig,
broshýr blómstra móðir
brugðinn rósasveig
yfir færði ungar brár;
en söngur gullnu gígjunnar
glumdi raddarhár.
7.
Forlög sveinsins fríða
fjölvís gyðjan sló,
sem hann aldrei síðan
sjálfur kunni þó
gegnum draum að ráða rétt,
því enginn grundað örlög fær
árdags fyrir sett.*


Athugagreinar


1.5 bekkur = lækur.
1.7 þæga = (hér) þægilega, góða.
3.2 Lofn var ástargyðja í norrænni goðafræði.
4.7 kleif (land) vala (fálka) = hönd.
5.4 snjór handar = silfur (frekar en gull).
7.7 Átt mun við að örlög manna eru ákveðin snemma á ævinni, árdegis.