Nýárssálmur I | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nýárssálmar 1880 1

Nýárssálmur I

NÝÁRSSÁLMAR 1880
Fyrsta ljóðlína:Upp, upp, þú sól. af svölum straumi
bls.211
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1880
Flokkur:Sálmar
1.
Upp, upp, þú sól. af svölum straumi
og signdu þennan nýja hring;
upp, upp, þú sál, af dvala-draumi
og dýrðarljóð af hjarta syng;
upp, upp af svefni, sérhvert strá,
að sólin Guðs þér lýsi há!
2.
Og fokstrá lífs um foldu kalda,
sem feykist laus um hjarn og grjót,
því glepjist þér af glaumi alda
og gleymið yðar sönnu rót?
Ó, treystið aldrei tímans sjó
en trúið ljóssins helgu ró.
3.
Hve fagrir eru fætur þínir,
þú friðarboði, máttug sól!
Þú stígur fram og kransi krýnir
hvert kuldastrá sem jörðin ól
og himinskarti hjörtu býrð,
hvert blóm er veröld full af dýrð.
4.
En þó er öllu æðri og hærri
sú andans mikla nýárs sól
sem birtist enn í skuggsjá skærri
og skrifar „Guð“ á tímans hjól.
Við hennar sprettur heilög spor
á hjarni tímans eilíft vor.
5.
Ei laufblað finnst í lífsins garði,
þú ljósa ljós, sem ei þú sér;
ei týnist korn af andans arði
og ekkert fokstrá hverfur þér.
Þig felur aldrei fold né sær;
hver fífill þinn um eilífð grær.
6.
Stíg hátt, stíg hátt á himinboga,
þú heilög sól, af tímans nótt
og láttu andans loga loga
svo lífið fái nýjan þrótt;
gjör alla menn að einni hjörð;
gjör Eden Guðs úr vorri jörð!