Sigurður Guðmundsson málari | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sigurður Guðmundsson málari

Fyrsta ljóðlína:Að foldarbeð í friðargarð
bls.334–336
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBaBaB
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1874
Flokkur:Eftirmæli
1.
Að foldarbeð í friðargarð
vér fylgjum ástvin misstum
og syrgjum djúpt við seinfyllt skarð
í snilli, fræði, listum.
Sú stund, er kættist Ísland ungt,
sló einmitt þetta sárið;
hve teljum vér að þessu þungt
hið þúsundasta árið.
2.
Sjá hnúka blá með hrímfall nýtt,
sú haustmjöll til þess bendir:
Fjallkonan trygg, þú faldar hvítt,
og fornvin kveðju sendir.
Vor smáa þjóð hann þekkti vel,
hann þörfum hugði’ að bótum,
og lifði þér uns lostinn hel
hann leggst að þínum fótum.
3.
Í starfshring smáum stórt hann vann
með stöðugleik og snilli,
sín laun í verki fögru fann
og fárra vina hylli.
Hann elti ei lán né lánið hann,
og langt var þeirra milli,
en þoldi margoft böl og bann
og bar þó harm í stilli.
4.
Ef fá menn steina fyrir brauð
og fyrir rósir þyrna,
og hamli dáðum barðbýl nauð
kann hugur þrátt að stirðna.
Oft næðir sárt um svalbarð lífs,
ei síst á ströndum ísa,
og biturt nístir blærinn kífs
sem bannar meið að rísa.
5.
Á bjargi reynirunn eg sá
sitt rauðgrœnt limið hefja.
Úr klungur-urð hann óx í þrá
við allt, sem vildi kefja,
og síst þó fengi sólu mót
í sannri hœð að skarta,
í sannri dýpt hann seigði rót
við sinnar móður hjarta.
6.
Og slíkum reyni lík mér leist
hins látna vinar ævi;
þó gróður allur gœti’ ei veist,
hann greri að sínu hæfi,
og sinn með heiðri bar hann baðm
uns blikna laufin knáttu.
Svo tak þinn reyni fast í faðm,
mín fósturjörð! og gráttu.
7.
Því þína fremd hann framast mat
frá fyrstu lífsins árum,
og hvert þitt sár, sem græðst ei gat,
hann grét með innri tárum.
Þau huldust undir hrímgri ró
þar hjartans lindir vaka,
svo leynt og djúpt, en logheitt þó
sem laug und þínum klaka.
8.
Frá kulda lífs nú byrg þitt barn
í beði tryggrar dvalar,
breið á hann rótt þitt hvíta hjarn
und heiði blálofts-salar,
og haltu minning, móðurláð!
þess manns í hreinu gildi
sem hefði blóði feginn fáð
hvern flekk af þínum skildi.
9.
Í þinni sögu leynt og Ijóst
hann lifði daga stríða.
Við þinna hékk hann bjarga brjóst
gg barminn þinna hlíða.
Við blóm þín, dali, fell og fjöll
hann festi sína drauma,
við hraun og gil og hveravöll
og hörpur þinna strauma.
10.
Þá vorið aftur vitjar lands,
þú viðkvœmt dáins saknar,
er sóley grœr á sverði hans,
en sjálfur hann ei vaknar.
En þó hann vanti’ á vorsins hól
og vin sinn blóm ei finni
hann lifir þó und þinni sól
í þökk og kœru minni.