Laugardalur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Laugardalur

Fyrsta ljóðlína:Vér riðum und kvöldsól í Laugardals lönd
bls.53
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Vér riðum und kvöldsól í Laugardals lönd,
hún ljómaði’ af rauðbrúnu felli
um engjanna grasflæmi geysi vítt þönd,
um glampandi silfurskær vatnanna bönd
og bláfell við blómgaða velli.
Á logbjörtu kvöldi við lóunnar söng
vér liðum á vegbrautum fríðum
í lífgandi skógblæ um laufrunna göng
með Laugardals algrænu hlíðum.
2.
Vér fórum með byggðum, þar fólk var við slátt,
og fellt lá þar kafgras í slægjum;
um fjallbrekkur hópaðist kvíaféð kátt,
í kvöldlogni þyrluðust bláreykir hátt,
og bjarkilminn lagði frá bæjum;
og hinsta lék sólbros á sveitalífs ró,
er sjónina þýðlega dvaldi,
en áfram var haldið, því eftir var nóg,
uns aftur oss skógurinn faldi.
3.
Og fákum vér hleyptum og hófdynur gall
á hlemmibraut valllendis grundar,
að eyrum þá niðurinn álengdar svall,
sem ólgandi nálgaðist vatnsiðu fall,
það birtist oss brátt innan stundar,
þar fossaði Brúará freyðandi kvik
af faldhvítra straumbrúða dansi,
en skjótt bar oss yfrum í andspænis vik,
sem umgirðist bjarkrunna kransi.
4.
Og dagur var liðinn, vér bárumst um byggð,
af braut vorri máttum vér skoða,
er hauðurs ból öll voru heiðrökkri skyggð,
frá Heklu reis mánans hin bleikhvíta sigð
á bláhimni reifðum í roða.
Oss faðmaði svalandi sumarkyrrð heið,
vér svifum úr skóggeimi víðum,
af unaði fangnir frá indælli leið
með algrænum Laugardals hlíðum.
5.
Vér hurfum að náttstað, þar hvíldin bauðst vís,
að hvítmekkjum sveipuðu bóli,
þar óðul á Geysir, er örsjaldan gýs,
því aldraður djúpt niðri værðina kýs
sá hrörnaði hveranna sjóli;
þar reykur við reyk sig frá hauðrinu hóf.
Vér hrósuðum svefnhöfga blíðum,
og fagurt í draumblæjur dýrðin sig óf
frá dagför með Laugardals hlíðum.
6.
Svo kættist ég það sinn við Laugardals lönd,
er ljómuðu’ í sumardýrð skærri
hin glitrandi skóghlíð og grasflæmin þönd,
og glampandi, silfurskær vatnanna bönd,
og bláfellin blómvöllum nærri,
og hendi það síðan, að hugur minn snýr
að hásumar-stöðvum svo fríðum,
þá líður um hann eins og laufvindur hlýr
frá Laugardals angandi hlíðum.