Alþingisrímur – ellefta ríma (Krossferðarríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 11

Alþingisrímur – ellefta ríma (Krossferðarríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Hlustaðu á mig björt á brá,
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Bragarháttur:Ferskeytt [ónafngreint afbrigði]
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Hlustaðu á mig björt á brá,
blóminn ungra fljóða;
Magnús prúða aftur á
efnið minnist ljóða.
2.
Eftir tveggja ára bil
úti reyndist friður;
frétti Valtýs ferða til
frækinn álma viður.
3.
Safnað Valtýr hafði her
hér á landi víða
og á Magnús ætlað sér
ógurlega að stríða.
4.
Honum voru margir með
mætir skjóma þundar;
berserkir með gráðugt geð
geystust til þess fundar.
5.
Magnús prúði’ og hirðmenn hans
hlupu’ um borgar-stíga;
hræddust flokkinn hreystimanns,
hjörtun tóku að síga.
6.
Magnús sér, að setu til
sízt mun boðið vera;
hann í snarpan hjörvabyl
herör upp lét skera.
7.
Þá, sem fyrr hann veg og völd
veitti’ af mildi sinni,
bað hann djarft með dör og skjöld
duga’ á krossferðinni.
8.
Lárus má þá minnast á,
mækja-Börinn slynga;
nú var gildur garpur sá
goði Snæfellinga.
9.
Forgyllt Magnús hafði hann
hérna fyrr um árið,
þegar vestra margan mann
mæddi Skúla-fárið.
10.
Þegar Skúli skjóta inn
Skurð í svarthol vildi,
líkna vildi honum hinn
af hugulsemi og mildi.
11.
Sendur Lárus vestur var
vígamóði fylltur;
móti Skúla brandinn bar,
barðist eins og trylltur.
12.
Komst í marga þunga þraut
þrekinn Baldur skíða;
Ísfirðingar álma-Gaut
ætluðu’ um nótt að hýða.
13.
Segir fornum sögum í,
sem að ýmsir trúa,
að Lárus hugðust heljarþý
úr hálsliðunum snúa.
14.
Lygi sjálfsagt er það allt
um þann kappa fríðan,
en eitt er víst, að höfuð hallt
hefur ’ann borið síðan.
15.
Landshöfðingja Lárus nú
liði sínu heitir;
á goðanum hafði tröllatrú
traustur lagabeitir.
16.
Lárus bændum bauð á fund,
búinn tignarskrúða.
Talar þá á þessa lund
þjóðar hetjan prúða:
17.
„Heyrið mál mitt, hlýðið mér,
hér í dag skal þinga:
Kveðju’ eg yður öllum ber
okkar landshöfðingja.
18.
Vitið þér, að Valtýr, sá
versti höfuðfjandi,
undir Danskinn ætlar ná
okkar föðurlandi?
19.
Kjósið mig að bregða brand,
beint á þing að ríða,
fyrir guð og fósturland
við fjanda þann að stríða.
20.
Heldur var mín fræknleg för
forðum daga vestur,
Skúli’ er mínum hné und hjör,
höfðingjanna mestur.
21.
Vel eg dugði’ er sóttu i senn
Sviðris kyntum eldi
sextíu’ að mér svolamenn
saman á einu kveldi.
22.
Í Höfn á knæpur kom eg oft
kátr og hress í bragði;
„bullur“ allar upp í loft
eg á gólfið lagði.
23.
Hef eg og með höfðingjum
heldur verið talinn,
og í nefnd í útlöndum
öðrum fremur valinn.
24.
Kenndi Hannes Hafstein mér
haglega’ í blöð að yrkja;
ljóð mín skulu hraustan her
hressa, magna og styrkja.
25.
Vilji eitthvert illfygli
ofan í mig fara,
þá skal ég í Þjóðólfi
því með stöku svara.
26.
Hreppstjórar mitt heyri tal —
heiður mun það vera —:
eins og mig ég yður skal
uppdubbaða gera.
27.
Verðlagsskráin verður lág,
vondu minnka gjöldin,
ef þið viljið lið mér ljá,
lemja hjör á skjöldinn.
28.
Mitt skal öllum opið hús,
engum mungát banna;
ég skal vera faðir fús
föðurleysingjanna.
29.
Sveig úr ljósum lárviðum
landið skal mér flétta;
ég af yður ómögum
öllum fljótt skal létta.
30.
En munið og, að eg er sá,
sem að sér hæða’ ei lætur,
ef þið nú mér fallið frá
fleins við skæðar þrætur“. —
31.
Orðinn var hann ærið hás,
undir flatt hann lagði. —
Bárður stóð þar Snæfellsás,
stilltur glotti’ og þagði.
32.
Bændur góða gáfu von,
þá gladdi’ að fá í soðið. —
Herra Einar Hjörleifsson
hafði fram sig boðið. — —
33.
Lárus kusu karlarnir
knáir þó á móti;
prófast bláir berserkir
beittu hvössu spjóti.
34.
Hélt þar Lárus harðfengur
höfuðpaurinn velli,
en hann séra Sigurður
síðast trú’ eg félli.
35.
Meira að sinni’ ei segir frá
sverðabrjóti slyngum. —
Stýrði Hannes Hafsteinn þá
hraustur Ísfirðingum.
36.
Sá var fyrða fríðastur
fallega mjög sig bar hann,
kempa’ á velli, knálegur,
konunglegur var hann.
37.
Talaði’ í ljóðum, skemmtinn, skýr,
skáldaði mörgum braginn;
og við skál var ósköp hýr
oft er leið á daginn.
38.
Magnús bað hann leggja lið,
lífsins næði hafna;
Hannes bón hans varð nú við,
vildi liði safna.
39.
Skúli átti’ og Hannes hríð
harða þar og langa;
ýmsum þótti í þann tíð
ógna-styrjöld ganga.
40.
Sendi Hannes seiðkonur
saman her að smala;
kaldrifjaðar kveldriður
kepptu fram til dala.
41.
Hannes kom á Horn og lét
hátt sinn lúður gjalla,
og með röddu hárri hét
hann á galdrakalla: —
42.
„Surtur nú að sunnan fer,
sólu byrgir skæra;
í dauðans hættu okkar er
ættarjörðin kæra.
43.
Hingað brunar Heimdallur,
honum Valtýr ræður,
blár og digur berserkur,
bændum gestur skæður.
44.
Fram hann æðir emjandi,
eldi spýr úr kjafti,
lönd og sjóinn lemjandi
löngu axarskafti.
45.
Hefur fjöld af fallbyssum
fantrinn til að stríða;
hér mun ekki’ á Hornströndum
hollt í kyrrð að bíða.
46.
Skýrt hefr Magnús mér því frá,
muni ’ann þessa daga
landið okkar suðr í sjá
svikull ætla’ að draga.
47.
Haldið þið, piltar, Hornið í,
hér þarf fast að standa;
sendið mig í málma-gný
móti þessum fjanda.
48.
En ef þið hans eflið lið
eða fylgið honum,
danskir verðið þrælar þið
þá á galeiðonum.
49.
Sonum verður skipað skjótt
að skjóta feður sína;
þá mun dauðans næðings nótt
nísta ættjörð mína.
50.
Eg á „órótt ólgu blóð“,
eg skal standa’ og verjast
og með hug og hetjumóð
hermannlega berjast“. —
51.
Hornstrendingum heldur brá,
hvítnuðu þeir í framan.
„Kjósum Hannes Hafstein þá!“
hrópuðu allir saman.
52.
Gerðu’ að Skúla gerningar
galdramenn frá Ströndum;
enginn mennskur maður bar
megn við slíkum fjöndum.
53.
Samt við krossa’ og klukknahljóð
kempan studdist ríka,
og til sæmdar þingi’ og þjóð
á þingið komst hann líka.
54.
Lýðir hlýði ljóðasmíð;
landsins rjóðu dætur
hræðist blíðar blóðugt stríð,
bjóði’ oss góðar nætur.