Óhræsið | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Óhræsið

Fyrsta ljóðlína:Ein er upp til fjalla
bls.22–23
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt AbAbCDCD
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1844
1.
Ein er upp tíl fjalla.,
yli húsa fjær,
út um hamra hjalla,
hvít með loðnar tær,
brýst í bjargarleysi,
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.
2.
Valur er á veiðum,
vargur í fugla hjörð,
veifar vængjum breiðum,
vofir yfir jörð;
otar augum skjótum
yfir hlíð, og lítur
kind, sem köldum fótum
krafsar snjó og bítur.
3.
Rjúpa ræður að lyngi
– raun er létt um sinn –
skýst í skafrenningi
skjót í krafsturinn,
tínir, mjöllu mærri,
mola, sem af borði
hrjóta kind hjá kærri,
kvakar þakkar-orði.
4.
Valur í vígahuga
varpar sér á teig,
eins og fiskifluga
fyrst úr löngum sveig
hnitar hringa marga;
hnífill er að bíta;
nú er bágt til bjarga
blessuð rjúpan hvíta!
5.
Elting ill er hafin
yfir skyggir él,
rjúpan vanda vafin
veit sér búið hel;
eins og álmur gjalli,
örskot veginn mæli,
fleygist hún úr fjalli
að fá sér eitthvert hæli.
6.
Mædd á manna besta
miskunn loks hún flaug,
inn um gluggann gesta
guðs í nafni smaug,
– úti garmar geltu,
gólið hrein í valnum –
kastar hún sér í keltu
konunnar í dalnum.
7.
Gæða-konan góða
grípur fegin við
dýri dauðamóða –
dregur háls úr lið;
plokkar, pils upp brýtur,
pott á hlóðir setur,
segir happ þeim hlýtur
og horaða rjúpu étur.


Athugagreinar

Samið árið 1844. Eiginhandarrit er ekki til.