Grýluþula | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Grýluþula

Fyrsta ljóðlína:Það er hjákátleg / hýbýla skikkan
bls.122–134
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1725
Flokkur:Grýlukvæði

Skýringar

(Grýludrápu hefur Ólafur skráð eftir Hrs. Rasks 46a, 13–17 bls. með hendi Rasks sjálfs. Aftan við kvæðið eru svolitlar orðskýringar á dönsku). Ekki hefur þulan hér verið borin saman við handrit Rasks heldur eingöngu skrifuð eftir hinni prentuðu útgáfu. Svo virðist sem í síðasta hluta vanti í einstaka erindi.
1.
Það er hjákátleg
hýbýla skikkan
þar fólk allt þegir
sem fiskur í vatni
eins og þeim væri
ekkert mál gefið
eða þeim stæði
steinn í kverkum.
2.
Skár lítur hitt út
að skrafa spaklega
og stytta sér dægur
með steflegri skemmtan
sem gaman kann
og gleði auka
en sé þó hneykslislaust
hverjum manni.
3.
Langt er skammdegi
en skemmtan mjög lítil.
Það er nauðsynlegt
að nýta hvað fást kann.
Grunnsópað hefi eg
gjörvallar hirslur
og fann þetta síðast
sem fylgir hér eftir.
4.
Það er máltæki
meir en alkunnugt:
Fýsir oft eyrun
illt að heyra
en svo verður hverja
sögu að greina
sem í öndverðu
er hún tilgengin.
5.
Heyrið þér, börn mín,
sem hrinur og ærsli,
með hvimleiðum keipum,
hafið á kvöldin,
kannske hér megi
koma í leikinn
einhver sem getur
af ykkur dregið.
6.
Veit eg þið hafið
heyrt fyrri getið
grálundaðrar
Grýlu kerlingar
því svo er hún nafnfræg
í sveitum þessum
að vona eg flestir
við hana kannist.
7.
Tveir hafa áður
æruverðir klerkar,
hagorðir báðir,
í héraði þessu,
útmálað hennar
ófríða sköpun
og lýst henni svo
með lit og auðkenni.
8.
Þarfleysu held eg
þar við að bæta
né ítreka það
sem öllum er kunnugt.
Verða mér líka
vís svör fundin
að skammt mun eg feta
í fótspor þeirra.
9.
Nú er hún orðin
níu hundruð ára
gömul að aldri
og grá af hærum;
þó er hún matheil
og málhress líka,
furðu fótvökur,
full af trölldómi.
10.
Eftir þá síðstu
umför hún gjörði
á Útmannasveit
endilangri,
labbaði hún yfir
Lagarfljót norður
og reisti sér bústað
í Rangárhnúki.
11.
Síðan hefir hún
setið að nægtum
og búið við föng þau
sem bændur tigluðu.
Nú er upp sóað
ölmusu þeirri,
lystir því kerling
að leita sér bjargar.
12.
Það er almæli,
eftir sem heyrist,
að lítið um batni
lunderni hennar,
því gjörst hefir hún
svo grimm við ellina
að hún þyrmir nú
engum vætta.
13.
Rauk hún héðan
í reiðisvip miklum,
keifaði að Rangá
og kvaddi Orm þannig:
„Heill sértu nágranni;
nú er eg hér komin.
Hvar er beining mín?
Burt vil eg héðan.“
14.
„Farðu til hunda,
herjans kerling,
ekki er eg skyldur
að skaffa þér vistir.
Mér er fullstéttað
með hana Gunnu
þótt ekki aukist þar
ofan á meira.“
15.
Rumdi í Grýlu,
hún reigðist við nokkuð:
„Þú ert ei, Ormur,
ofur gestrisinn:
Ei var mér fésöm
ferð á bæ þennan.
Sanna það skaltu
ef sjáumst í einrúmi.“
16.
Drattaði hún út að
Dögunargerði,
hitti Guðrúnu
og heilsar þurrlega:
„Þú ert nóg, kona mín,
af krökkum auðug,
fáðu mér eitthvað,
og flýttu þér að því.“
17.
„Grýla mín,“ sagði hún,
„gefðu mig kvitta,
eg er einmana
og úrræðalítil.
Það er ei gustuk
að gjöra mér angur.
Þarna er lambspeyi,
eg læt þér hann eftir.“
18.
„Það er raunsannast,“
þá sagði Grýla,
„ei mun gagn vera
að angra þig, skepnan.
Eg má vel lúta
að lambspeyja þínum
því stórlætið hefir mér
steypt aldregi.“
19.
Veik hún burt þaðan
að Vífilsstöðum,
heilsar Finnboga
og hóf ræðu þannig:
„Þú átt dætur tvær
dáfallegar;
leggðu mér aðra,
mig langar í ketið.“
20.
„Ertu mér svo væntin,“
ansar Finnbogi,
„að eg gefi barn mitt
í greipar þinar?
Fyrr skaltu, bifsuð,
barin til heljar;
hér er öxi mín.
Haf þig á burtu.“
21.
„Hvað skal þetta?,“
Helgríður sagði.
„Finnbogi, þú ert
firna djarfur.
Gættu að því, karl minn,
gegndu mér, segi eg,
ekki hræðist eg
axarkjak þetta.
22.
„Fái eg ei barn þitt
þá færðu mér hingað
fjóra geldsauði
feita og gamla“.
„Ettu þá,“ kvað hann,
„eg er vel sáttur,
því völt eru jafnan
völubeinin.“
23.
Heim kom hún Grýla
á Heykollsstaði.
„Sæll vertu,“ kvað hún,
„Siggi minn góður.
Gefðu mér barnkorn
að bíta úr hnefa;
stuttur er tíminn,
eg stend hér ei lengi.“
24.
„Hvað segir hún,
hrakið að tarna?
Fái þér barn sitt
fjandinn sjálfur.
Ertu forblinduð
og óskammfeilin?
Maklegast væri
þú misstir húðina.
25.
„Heyrið þið Sigga;
hann er góðvikinn,
þig má eg prísa
og þínar viðtektir.
Enginn hefir mér
ansað fyrr þannig;
bíð þú við kompán
og bjóð svo fleirum.“
26.
Hleypti hún brúnum
á hökustall miðjan
og óð að Sigurði
með öskri fáheyrðu.
Hann var skoskari
og skaust inn í dyrnar,
lokaði bænum
og lofaði drottinn.
27.
Öslaði hún þaðan
í illfengu skapi,
trað svo jörðina,
að tók henni í kálfa.
Stygglunduð kom hún
að Straumi um kvöldið.
Var þá dimmt orðið
um dagseturs leitið.
28.
Bað hún um gisting
en bóndi neitaði
og sagðist ei vilja
svoddan ónáðir.
„Eg hefi nóg
við öðru að snúast
þótt ekki hýsi eg
óvætti slíka.“
29.
Þá var kerlingu
þjóstur í geði
og sagði að von sú
væri að honum,
„en ekki hefðir þú
út við það farið
þótt eina nótt hýst hefðir
aldraða skepnu.
30.
Það er mál sannast
eg þurfi aldregi
að biðja þig húsa
þótt bæri mig að þér.
Hér mun eg gista
hvað sem þú segir
og aðsjón gjöra
í eignum þínum.
31.
Það er ei betra
þótt berist í hauga
af myglu kafloðnir
maurar þínir
en þeirra njóti
einhver þurfandi;
skal eg því sjálf mér
skammta kvöldverðinn.“
32.
Þá sagði Árni:
„Það má nú heyra
að aftur fer mér
undra mikið
að þú, skráman þín,
skalt mig kúga
og hafa með skyldu
hvað sem þig lystir.
33.
Mætt hefi eg fyrri
mönnum göfugri
og hluta mínum
haldið óskertum,
því skal mig aldrei
skömm sú henda
að þú hundgömul
hrekir mig þannig.“
34.
Tók hann í hönd sér
torfljá nýdengdan
og *kvað hún skyldi
koma ef þyrði.
En hún glotti við
og greip um skammorfið.
Fann þá Árni sér
aflfátt verða.
35.
„Ei vil eg, Grýla,
við glímum hér lengur,
eg á nautkrakka
nokkuð þriflegan.
Eigðu hann, kerling.“
Þá ansaði Grýla:
„Svo fór nú betur,
og sæll vertu, Árni.“
36.
Út fór hún þaðan
að Steinsvaði,
kallaði á gluggann
en Grími varð bilt við:
„Hvar er Hólmfríður?
Heyrðu mig, bóndi,
fær þú mér hana
í fangi þínu.“
37.
„Grýla mín,“ sagði
Grímur kjökrandi,
„Hólmfríður er mín
einkadóttir.
Allt skal þér heimilt
í útlausn hennar,
þá er eg barnlaus
ef bítur þú hana.“
38.
„Það má svo vera
eg þyrmi Hólmfríði,
þér fer veslingur
vel í andsvörum.“
Fékk hún hjá honum
fimm sauði gamla.
Feginn varð Grímur.
Hún fór svo burt þaðan.
39.
Áfram hélt Grýla
árla morguns
heim að Kirkjubæ.
Klerkur stóð úti.
„Sæll vertu prestur,
svöng er eg núna.
Þeir verða að biðja
sem þurftugir eru.“
40.
„Hvað er þér, kerling,
helst munntamast?
Það hefir lengi
leikið orð á þér
að þú sért kynleg
og kostavönd nokkuð;
ekki stoðar slíkt
umferðakindur.“
41.
„Ekki er eg, klerkur,
svo úrtöku matvönd
að mér þar fyrir
ámæla þurfi.
Svo gengur öld nú
yfir í landi
að fæstu er af brögnum
á betra veg snúið.
42.
Sú er mér beining
best í té látin
sem ætla eg flestum
óþægasta.
Það eru börn þau
sem belja og gráta
með dælsku og keipum
daga sem nætur.
43.
Sagt er mér, prestur,
að synir þínir
vanir séu
að venda upp hljóðum
með hrinum og ærslum
og hávaðagangi
svo móður þeirra
sé meira en nóg gefið.
44.
Lengi hefi eg þó
lagkæn verið
að hugga og þagga
hrinubörnin.
Fáðu mér Ólaf
eða þá báða,
þá skal mér nægja
og þakki hvort öðru.“
45.
„Djörf ertu, Grýla,
og dælsk úr hófi
að beiðast svo
eftir börnum mínum.
Ei mun eg láta
Ólaf né Halldór,
sé eg heilvita,
í hendur þínar.
46.
En svo þú farir
ei synjandi héðan
fæ eg þér klárhest
feitan til nestis.
Hann stendur í húsi
við stall þriflegur.
Skýfðu upp skrokk hans
en skila járnunum.“
47.
„Eigðu nú sjálfur
syni þína,
mér er hann Rauður
miklu hentugri.
Fáir hafa mig
fætt ríflegar.
Full ríð eg héðan
og farðu vel Brynki.“
48.
Út gekk hún Grýla
að Gunnhildargerði.
Teitur leit hátt upp
og hræddist sýn þessa.
„Ég vil strax hafa
Jón þinn,“ hún sagði.
„Fæ eg þar eflaust
feitan munnbita.“
49.
Glúpnaði Teitur
og gegndi svo henni:
„Ei má eg, hjarta mín,
af honum standa;
kjóstu þér heldur
kálf okkar Gunnu
sem ólum með þrautum
á öndverðum vetri.“
50.
Hún gleypti kálfinn
en kvaddi Teit eigi.
Með sér í hljóði
mælti hann þannig:
„Tarna er, hjarta mín,
heimskur óvættur.
Farðu til skrattans
í skínandi víti.“
51.
Nölti hún Grýla
að Næbjarnarstöðum.
Mættust þau Gvendur
á miðju hlaði.
Hönd fyrir augu
hélt hún og sagði:
„Komdu sæll, vinur,
vel líst mér á þig.
52.
Heyrðu mig“, kvað hún,
„hvað gengur að þér?
Ætlar þú aldrei
að eiga barnkróga?“
Hástöfum Gvendur
hló þá og sagði:
„Dreptu mig aldrei,
ólukku níðið.“
53.
„Gaman er að þér,
Gvendur kunningi.
Ei gjöri eg mér
alla menn jafna.
Frí skaltu vera
fyrir beiningum,
við munum seinna
sjást ef lifum.“
54.
Út gekk hún Grýla
að Geirastöðum.
Þá var þar hnigin
hurð í klofa.
Hún barði á dyr
en bóndi útgægðist;
starsýnt var honum
og stóð þegjandi.
55.
„Sæll vertu, Jón minn,“
sagði Eldgríður.
„Hefi eg þig aldrei
heimsótt fyrri;
láttu mig sjá hana
litlu Þórdísi
því það er mín skemmtan
að skoða börnin.“
56.
„Ei er mér þannig
af þér sagt, Grýla,
að hent muni börnum
í hendur þínar.
Hitt mun ráðlegra
að hafa þig að sér
með beiningarkorni,
og bíð þú á meðan.“
57.
Strax kom hann aftur
að stundu liðinni
með súrgrautarbolla
og bruðning á fati.
„Settu þig niður,“
sagði húsbóndinn,
„á meðan þú etur
málsverð þennan.“
58.
Hjáleit [varð] þá Grýla
og hló í skríkjum:
„Þú ert höfðingi
heim að sækja.
Nær sástu borna
bruðning á fati
svo stásslegu kvendi,
og standi hún í þér.“
59.
Í húmi fór Grýla
að Húsey um kvöldið
og sagðist nauðþurftug
fyrir næturgreiða.
Guðmundur Jónsson
gegnir svo henni:
„Nóg er dags eftir
til næsta bæjar.“
60.
Þá sagði Grýla:
„Gefðu mér nokkuð,
því flestir þig kalla
fornbýlan, Gvendur.“
Færði hann henni
fimm ára hvalþjós,
ferna selhreifa
og fjórðung af tólgi.
61.
„Þökk fyrir, bóndi,
það var vel gefið
en hvað mun nafni þinn
nú frambeina?“
Gvendur Þorvaldsson
gall við og sagði:
„Þú ert velkomin
að vera í nótt, Grýla!
62.
Komdu inn veslingur
því kalt er úti
þótt ekki sé boðlegt
í bæ þennan.“
Þá varð hark mikið
svo hús titruðu
þegar hún Grýla
í göngum við sperrtist.
63.
Felmtri sló
yfir fólkið í bænum
og sögðu Guðmundi
ei sjálfrátt orðið
að hýsa þvílíka
heljar tröllskessu
sem öllum stæði
af ótti og hræðsla.
64.
Grýlu var matur
gefinn um kvöldið,
sauður *að kjötum
og selur fullorðinn,
hálftunnuketill
með heitar ábrystur.
Bóndi hélt fast að
og bað hana pata.
65.
En þegar kerling
var komin til sætis
sagði Guðmundur:
„Sástu ekki tófu?
Sá skollans vargur
skemmtir nú eigi;
hún ætlar gjöra
oss alla sauðlausa.“
66.
„Ekki er eg vön því,“
ansaði Grýla,
„að grennslast að löppum
hennar Lágfætlu.
Hyggið þið sjálfir
að hjörðu yðvarri
því fátt gef eg mig
um fjármissi ykkarn.“
67.
Árdegis fór hún
á burtu þaðan.
Gekk svo rakleiðis
að Galtastöðum.
Kom þar út Gvöndur
og krossar sig framan
er sá fyrir dyrum
drós hávaxna.
68.
Honum varð orðfátt
en Eldgríður sagði:
„Fá vil eg hjá þér
frúkost, Gvöndur!
Leggðu fram barn þitt
ef líf viltu þiggja
því mér bregður mjög
við morgunsultinn.“
69.
„Seint munu börn mín
seðja þitt hungur
því fleira er munntamt
en mannakjötið.
Hjá mér er, kerling,
hundtík afgömul!
Hún er mátuleg
í morgunskattinn.“
70.
„Tröll hafi þína
tík og þig sjálfan.
Aldrei heyrði eg
þau ódæmi töluð.“
Hljóp hún að Gvendi
en hann tók til fóta.
Herti svo að sér
hvort sem best kunni.
71.
Sá varð skilnaður
um síðir þeirra
að Grýla mæddist
og gekk heim aftur,
illfygli, hljóp hún
inn í baðstofu
og hafði út með sér
Hugbjörgu þaðan.
72.
Ólafur brást við
eins og flugdreki,
hljóp eftir Grýlu
og hrópaði þannig:
„Taktu ei Hugbjörgu,
heillabarnið,
því annars grána
okkar viðskipti.“
73.
„Hættu,“ kvað Grýla,
„eg hræðist þig eigi.
Hugbjörgu skal eg nú
hafa í dagverð.“
Þá varð Ólafur
óðamála,
ræður á Grýlu
og reif í kjaft hennar.
74.
Reif hann svo kjaftinn
út undir eyru
að skein þar í jaxla
á Skorpinteglu.
Lét hún þá rakna
höndur af Björgu;
lögðust í faðmlög
Láfi og Grýla.
75.
Sá var aðgangur
undra mikill,
svipti hvort öðru
og sóttust knálega.
Ólafur setti þá
undir kvið hennar
kné svo harðlega
að kerling viknaði.
76.
Kostaðist Grýla
og kvað við hástöfum;
hljóp svo æpandi
til Hrærekslækjar.
Bjarni stóð úti
og bauð henni að sitja
en hún sagði sér
óglatt nokkuð.
77.
Þá sótti Bjarni
brennivínsflösku
og sagði hún skyldi
sig þar á hressa.
„Mér gefðu þetta
manna heppnastur.
Þig má af öllum einn
eg fyrirláta.“
78.
Enn sótti Bjarni
aftur Helgríði
geldsauðarkrof
og gildan mörfjórðung.
Þakkaði hún bónda
beining mjúklega
og lappaði síðan
að Litla-Bakka.
79.
Óbeðinn Þórður
út færði henni
af fínu vaðmáli
fullar tólf álnir
sér í nærfóður.
Svaraði Grýla:
„Það sé eg bóndi
að þú ert nærgætinn.
80.
Öll er eg skinnlaus
orðin á kríkum
því oft hefir pils mitt
af mér tekið.
Nú skulu lær mín
ei lengur sárna.
Hafðu sæll gefið
og *sértu í guðs friði.“
81.
Stiklaði hún fram
að Stóra-Bakka,
heilsaði Gissur,
en hann varð ókvæða.
„Leggðu fram, bóndi,
beining samstundis
því ei vil eg vera
vonbiðill hennar.“
82.
Yggldi sig Gissur
en Ásný svaraði:
„Gakktu út í skemmu
og gefðu henni nokkuð.“
Fjóra grunnunga
færði hann henni,
hálfan magál
og hákarlsstykki.
83.
Ekki fannst Grýlu
til útláta slíkra
og sagði vélega
væri tilráðið.
„Skyldi eg maklega
skrifta þér, Gissur,
ef þú ei nytir
Ásnýjar þinnar.“
84.
Heilsaði á Eirík
Hrokkinskinna:
„Viltu ei fá mig
fyrir barnfóstru.
Ei mun þér vera
það svo óráðlegt.“
En hann svaraði:
„Ei núna þarf eg.“
85.
„Hvað mun mér bætast
í Blöndugerði?
Hér kem eg, Jón minn,
að heimta ölmusu.
Ekki er þér missir
að einum barnkróga
því þar er annars von
sem einn er dreginn.“
86.
„Það er kátlega
að kerling lætur!
Ekki áttu, Grýla,
að gjöra að tarna.
Eg skal gefa þér
geðugt oststykki,
feitan mörbita
og bjúgnakringlu.“
87.
Bæði varð Grýla
brosleit og ybbin
og sagði hann mætti
sjálfur upp maula
sínar kvikindis-
krásir og leifar
því ei væri hún komin
upp á hans bita.
88.
Fram að Hvammseli
hljóp hún með skyndi
og sagði Jón mætti
játa af sér nokkru.
„Ei mun þér, karl minn,
annað stoða
en láta mig hafa
hvað sem eg girnist.“
89.
„Eg vil sanna það,“
sagði Jón aftur,
„hver hefir sent þig,
hvimleiðust Grýla?
Þú ert sannkölluð
seggja blóðdrekkur
og argast kvikindi
allra sveita.“
90.
„Það sé eg, karl minn,
að þú ert króktenntur;
vel kanntu að stíla
vitnisburði.“
Lagði hún í við hann
löðrung fallegan
svo lygndi Jón augum
og lá í ómegin.
91.
Þaðan fór Grýla
þvert um Lágheiði,
kemur til Bótar
og barði að dyrum,
biður sér orlofs
inn að ganga.
Einar fylgdi henni
inn í baðstofu.
92.
„Heil og sæl,“ kvað hún,
„húsfreyja vegleg,
vön ertu jafnan
að víkja þeim góðu,
sem þig heimsækja
hjálpar þurfandi.
Nú vil eg beiðast
næturgistingar.„
93.
Þá sagði Ingunn:
„Þér er til reiðu
greiði og gisting,
gakktu til sætis.“
Þar fékk hún Grýla
góðar viðtekjur,
og arkaði þaðan
árla morguns.
94.
Að Galtastöðum
gekk hún snemmindis
og bað Jón gefa sér
barnkorn til sláturs.
Kvað hann þar nei við
en kom út til hennar
með firnastórt kjöttrog
og flotskál djúpa..
95.
Brá sér upp Grýla
að Brennuseli,
kvaddi út Sigurð
og kallar svo til hans:
„Þú mátt, veslingur,
verða því feginn
að á þér létti
einum barnkróga.“
96.
Siggi varð ráðlaus
og svaranna þrotinn.
Magnús tók undir
og mælti til Grýlu:
„Þótt veikt sé í búri,
vittu það kerling,
að ei þurfum við með
aðstoðar þinnar.“
97.
Fór hún svo jafnnær
að Fremra-Seli.
Svo snart sem Guðmundur
sá hana álengdar
greip hann upp lambhrút
og gekk brosandi
og færði þann Grýlu
í fangi sínu.
98.
Gleypti hún hrútinn
og gekk svo kyngjandi
að Hallfreðarstöðum
í harðri frostnæðu.
Ekki brá Jón sér
við aðkomu hennar
en sagði hugprúður:
„Sæl veru, Grýla.
99.
Mikið hefir þeim
missýni orðið
er segja þig vera
svipilla skessu,
en mér virðist þú
mesta góðkvendi
og svo skyldu fleiri.„
Satt er að tarna.“
100.
Allt skyldi, Jón,
þér að óskum ganga
því engir hafa svo
unnt mér sannmælis.
Mér er það betra
en mikil auðæfi.
Farðu vel ætíð,
félagi góður.“
101.
„Nú kem eg hingað,
Högni kunningi.
Viltu ei fá mér
að fóstri hann Eirík.
Þótt lengi hafi eg
lagt af að dansa
þá kannski mér bregði
í barnæsku nokkuð.“
102.
„Vel mun þér fara
ef við lægi nokkuð
því oft er það gott
sem gamlir kveða
og trautt munda eg neita
tilboði þínu
væri það barn mitt
sem byðir þú fóstur.“
103.
Hann gaf henni í skilnað
gilda vætt fiska
og til ljósmatar
lýsiskvartil.
Kærlega þakkar
kerling ölmusu
og býr sig til ferða
að Brekku fagnandi.
104.
Odd fann Helgríður
og ávarpar þannig:
„Þú ert forríkur
af fólkinu unga.
Láttu nú sjá til
og leggðu af við mig
eina barnskepnu
undir gemlur.“
105.
Þá sagði Oddur:
„Það er sannmæli,
börn á eg nokkur
og ber það ei af mér.
Hitt skaltu vita,
þinn heljar óvættur,
seint mun þeim kastað
í kjaft þinn, Grýla.“
106.
Tók hann úr róti
til barnlausnar
skammrif og bægsli
og skenkti það Grýlu.
Bruddi hún allt upp,
bein, skráp og sinar,
svo enginn sást örmull
eftir af þessu.
107.
Keifaði hún ofan
að Kleppjárnsstöðum
og heilsar svo
upp á húsbóndann:
„Sælir hreppstjóri,
seldu mér barnkind,
þú saknar ekki
eins í, Þórður!“
108.
„Heyrðu,“ kvað Þórður,
hver hefir leyft þér
að flakka hér um
í Flata-Tungu?
Ertu svo væntin,
þín afgömul skrukka,
að munum vér þola þér
þau rangindi.
109.
Ofan á þetta
ertu svo dristug
að heimta með skyldu
hvað þig lystir.
Ei viltu nægjast
með almannafæðu
en skikkar foreldrum
að færa þér börn sín.
110.
Ei fer þú heldur
sem aðrir fátækir
boðleið rétta
bæja á milli.
Vertu strax burtu
viljirðu ei mæta
refsingu fyrir
rangindi þessi.“
111.
Þá kom í leikinn
Þóra og sagði:
„Ei áttu, Þórður,
að áreita þanninn
bæði fjörgamla
og fátæka skepnu.
Leggðu henni nokkuð
og láttu svo fara.“
112.
Kættist hún Grýla
og komst svo að orði:
„Þú mátt vel kallast
kvennval Þóra,
bæði góðhjörtuð
og gegn í tali..
Þinn skal eg heiður
á hvert land bera.“
113.
Þórður gaf henni
þrjá lambhrúta
og bað hana síðan
búast til ferðar.
„Upp til hans Skúla
arkaðu héðan
og fáðu hans leyfi
um Fellin að róla.“
114.
Eg vil nú ráða
ungum börnum
að hafa ei keipa,
hrinur og ærsli
svo þau ei grípi
hin gamla kerling
sem liggur í felum.
Eg lykta nú drápu.



Athugagreinar

34.3 sagði) > kvað (leiðrétt úr handriti).
64.3 af í handriti.
80.8 sérðu] > sértu (leiðrétt úr handriti).