Rímur af Mirsa-vitran, 3. ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Mirsa-vitran 3

Rímur af Mirsa-vitran, 3. ríma

RÍMUR AF MIRSA-VITRAN
Fyrsta ljóðlína:Nausti úr hrekst minn Kjalars knör
bls.8. árg. bls. 64–69
Bragarháttur:Nýhent – hringhent
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1861
Flokkur:Rímur

Skýringar

Hólmfríður setti saman rímurnar um Mirsa-vitran þegar hún bjóst við að líf sitt væri á enda, tæplega sextug. Hún varð hins vegar allra kerlinga elst. Úlfar Bragason bjó rímurnar til birtingar í 8. árgangi Sónar og fjallar um þær þar í grein á bls. 47–52. Frumheimildir Úlfars eru handrit í einkaeinkaeign, annars vegar Halldórs Friðjónssonar, hins vegar Indriða Þórkelssonar.
1.
Nausti’ úr hrekst minn Kjalars knör,
hvernig tekst það reynslan skýrir;
hratt fram ekst hans ekki för
af því sextug kerling stýrir.
2.
Eins mun fara um Fjalars drykk,
finnst hann spar í hyggjusjóði;
öld mig bara ætlar gikk
ef eg Hjar[r]ands staupið ljóði.
3.
Óð því syng eg sjálfri mér
sinnis ringa’ ef mætti ama;
minn jafningi’ ef einhver er
eyða þvingun kann við sama.
4.
Skemmtin kvæði skapa ró,
skýr uppfræðing yndi veldur,
betri’ úrræði þurfum þó
þegar glæðist mótgangseldur.
5.
Margoft sker oss mótgangs þrá;
margt til ber um lífsins vegu.
Erum hér, ef að skal gá,
í musteri tígulegu.
6.
Eitt eg ræði altari
allra gæða helgidóminn,
vort líf glæðir vermandi
vísdóms hæða sólarljóminn.
7.
Eg það viður altarið
auðmjúkt niður beygi sinni,
öðlast lið og æðstan frið
er oss styður í hörmunginni.
8.
Ljóss til hæða’ ef hugur nær
hefjast, gæða ró svo fangi,
himnesk ræða huggað fær
hér á mæðu stirðum gangi.
9.
Reynslu halda rétt eg vil
rúnaspjalds er fræðing gefur,
það ósjaldan sjónarspil
sett alvaldur Guð oss hefur.
10.
Það eitt fann eg sæla sé,
sefar hann í þrauta standi
ef vor sanna umgengni er
á himnanna föðurlandi.
11.
Sú burt stuggar sól yndis
sorgarskugga’ og grafarkælu,
sá fer huggun síst á mis,
sviptur ugga, von um sælu.
12.
Fleira mætti færa hér
fram í slætti hörpu ljóða,
sann-ágætt er sýnist mér,
sem nú hætti eg að bjóða.
13.
Með óflúrað mærðar rugl
mun gullsnúru vilja Gefni,
horfinn lúr minn Herjans fugl
hjals af múr til sögu stefni.
14.
Mín nam rýrast mærðar grein,
Mirsa skýrir efnið kvæða,
þar sem hýr í húsi ein
hjónin dýru saman ræða.
15.
„Nú eg meina minnst til fann,
mér ósein upp ganga réði
yndis hreina sól með sann,
sem mér skein af föðurgleði.
16.
Sorgleg undur sá eg ný,
salsins hrundi loftið fína,
hjónin undir urðu því,
ævistundir hlutu dvína.
17.
Harma skýin heldur fjótt
hyggju býinn yfir sigu;
hvarma nýir skúrir skjótt
við skoðun drýjast hræðilegu.
18.
Eg þá viður altarið
andlit niður mitt nú beygði;
böls mér iðu ólagið
út á miðið sorgar fleygði.
19.
Grét hástöfum, lengi lá,
lyndið eg ei friðar þáði,
Himna jöfurs þar til þá
þjónninn göfuglegur tjáði:
20.
„Standa’ upp, góði maður, mátt
mikla flóðið stemmdu tára.“
Hlíða góðum gjörði’ eg brátt,
greitt upp stóð með angist sára.
21.
Sorgar meinin sefandi
sjónarsteina brá upp tjaldi;
letursgrein á lítandi
las þar hreinu svo á spjaldi:
22.
„Skynsemd manns er skammsýn þrátt,
skaðafanns kann síst á giska;
vitund hans þó skal uppskátt.
Skaparans sér best alviska.
23.
Föðurland þitt saurgar sig
synda blandi, menn þess gjalda;
hefnd því grandar hræðileg
hátt stígandi glæpir valda.
24.
Alvalds dóminn alvísan
allir róma víst og sanna;
börn sín frómu frelsti hann
frá því grómi hörmunganna.“
25.
Hvarma eg síðan blysum brá,
böls úr kvíða leystur dróma,
kristals fríðu hvelfing á
konung líða sá inn fróma.
26.
Nein ei skeði Niflung þrá,
nákvæmd með eg að nam hyggja;
vænum beði’ inn vitri á
værar réði hvíldir þiggja.
27.
Fagra sveina fékk eg séð,
er fældu meina óró sterka,
tólf þar einum öðling með
englar hreinir hans góðverka.
28.
Mætir dvöldu milding hjá
með vindspjöldum svefninn væran
gjörðu völdum þessir þá
þjóða öldung, flestum kæran.
29.
Konungs arfi að kom þar
ei til starfa góðra líkur,
andlits farfa blakkan bar,
beði’ að djarfur föður víkur.
30.
Ganginn þræðir fljótur frekt
firrtur gæða sýndist taugum
viðmóts æði viðbjóðslegt,
var sem glæður brynnu’ úr augum.
31.
Hann lét svartar höndurnar
hilmis bjarta kerið spenna,
banvæn-artað eitur snar
í óspart þar lætur renna.
32.
Svefn við bikar sjóli skýr
svölun mikið girnist varma,
tók sinn bikar, drekkur dýr,
dauðans strikar svo í arma.
33.
Buðlungs veldur bani því
að beisk eg felldi tár að vana.
Ein mér seldist sjón á ný
sinnis hrelldur leit á hana.
34.
Niflung lýða nýkrýndur
nú út ríða vann ótrauður;
heift með stríða herflokkur
hans vill níða fólk og hauður.
35.
Milding sá á móti var
megnið knáa bar í stríði,
orustu stjá til ánauðar
alla þjáir borgarlýði.
36.
Öldin móð við odda pín
óðum tróð til helveganna,
fóstur góða fold svo mín
flóði’ í blóði óvinanna.
37.
Hinir þá við styrjar stjá
staðnum ná, og föðurbana
eik þeir háa hengdu upp á
Heljar sá í skaut réð flana.
38.
Sína fjandmenn festu dvöl
frú á Gandálfs, blóði roðna;
heitt mér blandast hryggðar öl
að horfa’ á land mitt fótum troðna.
39.
Gjörðist hjartað gagntekið
gráts við svarta rigning skýja,
angurs svart réð afhroðið
yfrið hart á bjóstið knýja.
40.
Þels um grunn ei geisla ber
gleðisunnu ljósið varma,
tárabrunnar tæmdust mér
títt því runnu lækir hvarma.
41.
Angurs bað ei af mér raun
er efldi skaðapressan þrönga
uns eg hraður vakna vann
við fagnaðar yndis söngva.
42.
Mig allt kringum heyrði’eg hinn
hófst óringi gleðihljómur,
unaðs klingir ómurinn
eins og syngi margra rómur.
43.
Lítt útmálast líkt og var
ljós hvað bálast yndis hlýja,
andarskálann uppljómar
eðlis sálar lífgun nýja.
44.
Ört án dvalar eg við brá
eins og svala flugi beinir
kristals salar hvelfing á
hvarma alast logar hreinir.
45.
Flöt eg þá mjög fagra sá,
fögur ná þar blómin gróa
tré mjög há og hunang á,
hvurt nam stráið ilma og glóa.
46.
Fríað skaða fjörstíðar
fólk aldrað og hópur barna
efldi glaðværð ástsemdar,
allt í baðar rósum þarna.
47.
Sanna íðil sælutíð
svipti kvíða lífið fróma,
dansar fríðir lífga lýð,
líka blíðir söngvar hljóma.
48.
Frítt án biðar fugla lið,
er fögrum viðar hoppar á greinum,
söngva styður strengja nið
og strauma kliður í lækjum hreinum.
49.
Mætan Tarik Tirsu með
tignar rarast skart nam prýða,
fékk eg þar með sanni séð
sælunnar í landi fríða.
50.
Ei þeim brjálast ástsemd enn
um þau strjálast ljós með friði,
í laufaskála sátu senn
sem bar prjál af mirtusviði.
51.
Hjarta manns allt glaðværð gaf
gleðistans þau engan fundu,
rósafans og fjólum af
fagra kransa sér nú bundu.
52.
Kringum hresstu hjónin blíð
hópur sest þar barna valinn,
léku best með blómin fríð
blóma festu um þeirra salinn.
53.
Heljargin þann gleypti frí
góða vininn minn Afdalla
sæluskini sá eg í
sveiptan inum dýrsta mjalla.
54.
Heiðurs glansa krýndur krans
konung lands míns föður blíða
sviptan vans með söng og dans
sá eg í kransi mætra lýða.
55.
Þekkti fróma fleiri eg
feigðardróma reynt er höfðu,
er á sóma sönnum veg
sig nú blóma krönsum vöfðu.
56.
Gladdi þjóðin sjáleg sig
sín við góðverk fyr iðjandi,
gleymdi móð er stríðs á stig
steypti óðum tárablandi.
57.
Vann mér undrun vakna hjá,
vina fundi eftir langar;
breiddi út mundir báðar þá,
blíðu stundir vildi fanga.
58.
Hvarf þá sælusjónin skær,
sem mig kælu firrti meina.
En indæla aftur kær
engils mælir raustin hreina:
59.
„Dyggðin fyrst sín fullu laun
fær þá gisting heims vill dvína,
metnir lyst að liðinni þraut
ljóss í vist fá menn að skína.
60.
Af skammsýni þó að þig
þróttinn dvíni’ og mæði tregi
djörfung sín hún dylji sig
drottins fína’ að lasta vegi.
61.
Manns án vafa er viskan treg,
villt um skrafar inn réttvísa,
haltu’ án tafar heim þinn veg,
hans ráðstafan skaltu prísa.“
62.
Engils þýða orðaglaum
eg frá síðan náði vakna
sat við fríða fljótsins straum
fylgdar blíða mannsins sakna.
63.
Geðs um þey hvort vitran veitt
var eða ei, mér gjörðist vafi,
eða’ um vegi ljóst fékk leitt
ljós úr megin visku hafi.
64.
Inn í skála skilnings mér
skært fann sálar rósemd ljóma,
fjörs og mála fagran veg
fögru strjáli yndisblóma.“
65.
Mirsa hættir frásögn fríð
flutt í þætti stirðum ljóða.
Þess skal gætt, eg greindum lýð
gjöri’ ei þvætting lengri bjóða.
66.
Eðalsteina brík um bað
braga grein svo efnis fína,
veit eg ein hún þiggur það
þó ei reyni fleirum sýna.
67.
Oft geðfróa magnar mér
– mikið þó ei skemmti öðrum –
ræðu þróa Þunds við ker
og þanka sljóu hreyfa fjöðrum.
68.
Dreifist prýði dyggða hljóms
dæmin fríð þá öðlast hrósið,
kenning blíða kristindóms
kveiki lýðum besta ljósið.
69.
Skemmtan vakist geti góð
greini’ eg saklaust það að róma,
engum baka mun nú móð
minn þó kvaki fuglinn Óma.
70.
Oft með ræðu óþarfri
ýmsir glæða skemmtun sína,
það ódæði segi’ eg sé
svekkir gæða skemmtan fína.
71.
Lífs við enda hugsun hér
hvar við lendir vont er stundum,
náð oss senda nota ber
náðarbending hverja grundum.
72.
Áfram skundað tíð fær títt
tímans bundin reglum fríu,
ártal: hundrað átján víst eitt þar
grundast með sextíu.
73.
Tímann lýð sá góður gaf
guðdóms blíðu ástar sinni,
leiði stríði leystum af
ljóssins fríðu í heimkynni.
74.
Jörð, sem fríð, ber fljóðið nafn
fræðasmíð er lasið samdi,
linna hlíða laus við safn
lífsins stríð oft geðið kramdi.
75.
Ágæt hljóttu óðar blað
enda skjótt er finna verður
mjöls er gróttu mörk um bað
Markúsdóttir nefnd Þórgerður.
76.
Rýr við ljóðin rýri móð
refla slóð í gæða friði.
Dýr sé þjóð og fýrug fljóð
falin góðum himnasmiði.


Athugagreinar

1.
knör Kjalars: skáldskapur
2.
drykkur Fjalars: skáldskapur
3.
staup Hjarranda: skáldskapur
13.
Gefn gullsnúru: kona
13.
fugl Herjans: skáldskapur
13.
múr hjals: raddfærin
17.
skúr hvarma: tár
25.
blys hvarma: augu
27.
öðlingur: konungur
28.
mildingur: konungur
29.
arfi: erfingi, sonur
31.
hilmir: konungur
32.
sjóli: konungur
37.
styr: ófriður
37.
skaut Heljar: dauði
38.
frú Gandálfs: jörð
40.
grunnur þels: hugarfylgsni
40.
lækur hvarma: tár
43.
andarskáli: hugur
44.
logi hvarma: augnaráð
53.
Heljargin: dauði
55.
feigðardrómi: dauði
63.
þeyr geðs: hugsun
64.
skáli skilnings: hugsun
66.
brík eðalsteina: kona
67.
ker Þunds: skáldskapur
67.
fjöður þanka: hugsun
69.
fugl Óma: skáldskapur
74.
fríð jörð: Hólmfríður
74.
safn linna hlíða: auðæfi
75.
mörk gróttu mjöls: kona
76.
slóð refla: kona
77.
fýrugur: fjörugur