Esjan og kvinnurnar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Esjan og kvinnurnar

Fyrsta ljóðlína:Esjan er engilfögur
bls.10–11
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915

Skýringar

Hér er birt fyrsta prentun ljóðsins úr Spaks manns spjörum og 1917. Ljóðið var svo aftur prentað í Hvítum hröfnum 1922. Þar er vikið til fyrstu ljóðlínu (engilfögur > yndisfögur) og svo er einnig í Eddu Þórbergs. Í Hvítum hröfnum er ljóðið sagt ort 1917 en það leiðréttir Þórbergur í Eddu sinni, þar sem hann rekur tilurð kvæðisins rækilega og vísar þar meðal annars til dagbókar sinnar þar sem fram kemur að kvæðið hafi verið ort „mánudaginn 27. september 1915 í herberginu á miðhæðinni á Norðurstíg 7.“ (Sjá Edda Þórbergs Þórðarsonar. Bókaútgáfan Heimskringla. Reykjavík 1941, bls. 82–85)
1.
Esjan er *engilfögur
utan úr Reykjavík:
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.
2.
En komirðu, karl minn, nærri,
kynleg er menjagná:
Hún lyktar af ljótum svita,
og lús skríður aftan á.
3.
Svona er nú fegurð fljóða. –
Fallvalt er yndi þitt. –
En samt giftist maður meyju,
og menn eru hræddir um sitt.


Athugagreinar

1.1 engilfögur > yndisfögur bæði í Hvítum hröfnum 1922 og í Eddu Þórbergs Þórðarsonar 1941.