Rímur af Flóres og Leó – fjórða ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Flóres og Leó 4

Rímur af Flóres og Leó – fjórða ríma

RÍMUR AF FLÓRES OG LEÓ
Fyrsta ljóðlína:Fjórða verður fals úr raddar jörðu
bls.44–59
Bragarháttur:Stuðlafall – baksneitt – frumframsneitt (fimmsneitt)
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Rímur
1.
Fjórða verður fals úr raddar jörðu
renna mœrðin stuðla stirð,
þó stefnlig sé í öngvu virð.
2.
Skáldin buldur í skemmtun minni halda,
sú er í landi orðin öld,
að annarra þyki menntin köld.

3.
Leirugan aur eg les ei skilnings dýrum,
í barna hóp eg heldur fer,
sem hégiljan öll skemmtun er.

4.
Þeim lánað er skyn og lukka í öllum greinum,
von er meir hjá visku sín
þeir virði lítils kvæðin mín.

5.
Góður maður af guði hefur þá prýði,
so er hans vald þig svipta auð
og senda þér aftur mótgangs nauð.

6.
Heiður er það að haga sér vel hjá lýðum
og vera glaður geðs um láð,
en gjöra þó ei að nokkrum háð.

7.
Að vera trúr og tryggur í allri œru,
sú mun reynast dyggðin dýr
um dagana heimsins ekki rýr.
8.
Þungan mótgang maðurinn þó að fengi,
þolugur skyldi geðs um göng
guð ákalla um dœgur löng.

9.
Kaldur skyldi ei krossinum móti buldra,
seg það heldur sjálfs þíns völd,
synda komin makleg gjöld.

10.
Kristur víst fær krankan mótgang leystan,
hans er náðin nákvæm næst
þá neyðin gengur allra hœst.

11.
Renn þú svinnur rétt til hugarins grunni,
heimur ei síður hatar þig mann
en herrann þann sem dauðann vann.

12.
Dæmi á sumum daglega sjást um heiminn:
Páll á háls var höggvinn í Róm,
hans ei þótti kenning fróm.

13.
Postula Kristí píningarnar hreystu,
guðs orð kenndu leynt og Ijóst
og liðu fyrir það margan þjóst.

14.
Stephanus var steingrýttur með pínu,
fyrir Herodiadis bernsku bón
baptista var höggvinn Jón.

15.
Daníel, Jónas, dýrir jöfursveinar,
þegar voru í þyngstu pín,
þá kom drottins hjálpin fín.

16.
Heilagar sálir höfðu mótgangs kælu,
héðan fóru úr hryggðar dal
í himnaríkis dýrðar sal.
17.
Þýður guð vor þangað virðist leiða
úr eymdum heimsins auman lýð,
úti mun þá gjörvallt stríð.

18.
Mansöng lengur mun eg ei stirðan banga,
leita skal í ljóða pung
og lesa nokkuð um börnin ung.

19.
Kvæða sáð um karlinn skal nú bíða,
sest eg undir sögunnar ljóð,
þar sofnað lá við brunninn fljóð.

20.
Dýrust kæra döpur af harmi sárum,
af apynju vissi hún ekki par,
sem annað frá henni barnið bar.

21.
Ört og snart sem apynjan var burtu,
að drottning læddist ljón eitt hart
og leit við eikina fljóðið bjart.

22.
Ungum þvinguð inna ljóns var á gangi,
ætlaði þeim að afla föng
því ómegðin var næsta ströng.

23.
Lúðrar gráðug ljóninnan að fljóði,
sefur víf, en sætu hlið
sveinbarn reifað liggur við.

24.
Læðist að og launtók barnið fríða,
ætlar að færa ungum jóð,
af því vaknar sorglegt fljóð.

25.
Ljónið sá nú listar kvinnan væna
og hugði það öðrum svein
unnið hafa dauðans mein.

26 „Ó, guð“, téði angruð kvinnan fríða,
„bæði hafa mín börn með neyð
bitran hlotið af ljóni deyð.

27.
En því ná kann ekki úr ljónsins munni,
æ, hvað dýrstur drottinn minn
daglega brýt eg viljann þinn.“

28.
Beislar hest, á bak fór hún með hasti.
„Gæfi það guð“, kvað gullskorð tvist,
„geti eg ljóni náð sem fyrst.“

29.
Skjót með sút hún skundar dýrsins leita
meðan ljónið lagði á braut
langan þar til skóginn þraut.

30.
Ljóni týnir listar kvinnan væna,
það nam koma í þunga raun
og þjófnaðar fá sín makleg laun.

31.
Um förina dýrsins frá eg so til bæri
að ofan úr víðum veðra kór
vendir að ljóni einn dreki stór.

32.
Gammur um bóga grimmur ljónsins hremmir,
af því dýr fékk ærna skamm,
ungarnir hlutu mesta vamm.

33.
Fá kann eigi fugli ljón mót snúið,
gammur í loftið langt upp fló,
ljón og barn í klónum dró.

34.
Dýr þá klórur drekans kenndi sárar
í sínum hrammi sveininn bar,
sakaði ekki barnið par.

35.
Í grennd því landi lá ein ey fyrir höndum,
það var burt frá þeirri grund
þriggja mílna ferðasund.

36.
Hún var græn með grösugu vallar túni.
Á þetta settist fuglinn frón,
forlét aldrei barnið ljón.

37.
Kyndugt ljón þá kenndi í eynni grundir
barnið niður lagði á land
og leitar að vinna drekanum grand.

38.
Með þrútin umbrot þá tók illa að láta,
drekann ljónið barði og beit
og burt sig úr hans klónum sleit.

39.
Hörðugt keyrði hann ofan til jarðar.
þó ljóninnan vœri lúin og stirð
lét hún ei af sinni dirfð.

40.
Með vængjum ströngum varðist drekinn lengi.
Aldrei fékk þó á því föng
eina að festa á ljóni töng.

41.
Bitið gat ljón brögðum drekans móti,
í læri fugls það legginn braut,
litlu síðar hann dauða hlaut.

42.
Gráðugt síðan gamms nú holdið snæðir,
barni síðan burt gekk að,
beint með tungu sleikti það.

43.
Síðan leggst á láð hjá sveini fríðum,
lætur barn sér ljúft á kvið
og líka spenana munn þess við.
44.
Þegar magann sveinn tók ljóns að sjúga,
bauð sig ljónið betur í lag
og barninu sýndi mjúkan hag.

45.
Guð því jóði gaf af ljóni fæðu,
hans var því ei hjálpin trauð
so hungurs leið ei barnið nauð.

46.
Gjörir sér dýrið gröf í eynni klóra
og með barnið inni þar
átta daga og nætur var.

47.
Vefur ljúfan ljónið svein úr reifum,
í holunni reytir hár sér af
til hita barni þegar það svaf.

48.
Lengi svangur lá ei sveinninn ungi,
en þá ljóns var læðan svöng
lagði það út til drekans göng.

49.
Skeði það so skjótt af drottins ráði,
sigldu menn um síldar flóð,
seglin þver í vindur stóð.

50.
Af vindsins bending virðar héldu að landi
þar sem dapurt dyggða sprund
dýri týndi í samri stund.

51.
Tárug kæran málróm manna heyrir,
eftir rómnum auðgrund fer
allt til þess hún fólkið sér.

52.
Kæran spyr á knör[r]num hvörjir voru,
pílagrímabúning bar
bragna sveit, sem komin var þar.
53.
Dýr þá fyrir drottning gekk með tárum,
seimgrund mælti: „Segið mér
satt af því hvört ferðist þér.“

54 Pílarar svara prýddir kurt og æru:
„Í Jerúsalem vildum vér,
ef vindurinn stæði ei so þver.“

55.
Kenndi sprund af kristnu voru þeir landi,
fyrir það komnir á foldar strind,
þeir fengið höfðu bágan vind.

56.
Sínum hún þá segir af öllum raunum
og af barni því, sem burt tók ljón,
birtir þeim með tára són.

57.
„Mjög fjarlæg em manna réttum vegi,
af álygð þungri og illum róg
út var flutt á þennan skóg.

58.
Fyrir guðs dreyra flytjið mig“, segir kæra,
„á það land, sem drottinn dýr
dauðann þoldi líknar hýr.“

59.
Þá nú raun var þessa búin að greina,
skipmönnunum brá í brún,
bliknaði margra hvarma tún.

60.
Þar þeir heyra þessar nauðir sáru
höfðu á skipið hrund og jór
og héldu so á síldar kór.

61.
Ránar trjónan rann á skarfa túni
undir hið litla eyjar frón
sem í var fuglinn, barn og ljón.

62.
Stríður réð enn stormur á seglum nauða,
þeir urðu að liggja eynni með
og undir þar sem mest var hléð.

63.
Á land frá ströndu lýðir nokkrir vendu,
skemmtileg og græn var grund,
þar gengu þeir um langa stund.

64.
Þá bý frá eyjar bragnar hugðu að snúa
hræið fugls og holuna sjá,
henni í ljón og barnið lá.

65.
Hefur það ofan hramm á sveini ljúfum,
ljónið hraut, en sveinninn svaf,
sæng var dýrsins hári af.

66.
Flokknum rekka frábært hér við hnykkir,
ljón af gjálfri garpa upp hrökk
og grimmlega út úr holunni stökk.

67.
Hræðast blauðir og holunni burt frá skeiða,
þykjast firrtir fári og neyð
ef fengi þeir ekki af ljóni deyð.

68.
Það um móðir þeir í skipinu ræða,
þeir hefði eitt ljón á landi séð
liggja í holunni barni með.

69.
Dýri við stóru drepa oss lá með fári,
það reif í sundur kjaft og klær,
komunst undan nauðugt vær.

70 Mun það raun vér megum ei bjarga sveini,
uggir oss þegar unga á ljón,
eta þeir barn með heljar tjón.
71.
Dýr nú heyrir drottning sögn á stóru,
lofar hún guð og ljúf so tér:
„Það ljón hefur tekið barn frá mér.

72.
Bið eg að nú brátt mig flytji lýður
upp á þetta eyjar láð,
so aftur fengi eg barni náð.“

73.
Þeir nú svara á þann veg vífi skæru:
„Ef ljónið sæir, lauka Vör,
þig langaði ekki í þessa för.
74.
Í þýðu geði þú ber harðar nauðir,
ertu ung að aldri fljóð,
eignast kanntu fullmörg jóð.

75.
Hættum láttu harmi drottning létta,
betra er deyi barnið eitt
en brúðurin þér sé helja veitt.“

76.
Það nam ræða þiljan fofnirs láða:
„Væri eg á jörðu vesælt fljóð,
ef viljug dýri gef eg jóð.“

77.
Fyrir dýran drottin nú þá særir:
„Lofið á eyna upp mér þar,
ekki skaðar mig ljónið par.

78.
Látið mig njóta líknar kóngsins sæta,
burtu hverfur sorg og sút,
sveini næ eg úr holunni út.“

79.
Síðan réðu að segja ýtar fljóði:
„Þú upp skalt fara á eyna leið,
óefað færðu af ljóni deyð.

80.
Fyrst þú presti framtel þína löstu,
ötlum slíkt nú allra skást,
ekki mun það seinna fást.“
81.
Talar hún vel með tárugum hvarma sólum:
„Þá fer mín í sælu sál.“
Síðan hefur hún skriftarmál.

82.
Fljóðið niður féll á kné sín bæði,
segja grátin syndir réð
sanntrúuðu hjarta með.

83.
Syndaaflausn síðan greiðist kvendi,
létu þeir þá á landi sprund,
hún lýðinn beiddi dvelja um stund.

84.
Brátt var létt um bælið dýrs að hitta,
hún leit í holunni ljónið hratt
liggja og hafa þar barnið glatt.

85.
Hræðast réði hrundin dýrið óða,
féll nú drottning ljúf á láð
og líknar kónginn biður um náð.

86.
„Mínum linaðu, mildur drottinn, raunum,
ei lát mér né ungum svein
auka ljónið dauða mein.

87.
Drottinn veittu mér dásamlegur þetta.“
Síðan kvinnan hrópar hátt
í holuna inn til ljónsins brátt:

88.
„Eg særi þig, ljón, fyrir sáran Kristí dreyra,
að þú gjörir ei meinið mér,
mitt þó barnið taki af þér.“

89.
Þýðast fljóð sem þetta enn nú ræðir,
í hjartað ljóns kom hræðileg neyð,
holunni út úr sorgfullt skreið.

90.
Gröfina ofan í glöð fór kvinnan ljúfa,
bæli ljóns tók barnið af
og brátt því margan kossinn gaf.

91.
„Guði sé heiður“, gjörir nú drottning ræða,
„að eg hef mitt annað jóð
aftur sótt á heljar slóð.“

92.
Drottning brátt til bragna sér nú flýtti,
eftir frú ljón arkar hratt,
ei var því um barnið glatt.

93.
Skiparar sjá að kom með barnið kæra,
urðu í þeim augun stór,
eftir henni ljónið fór.

94.
Vífi ljúfu vildu ei skipið leyfa,
því þeir hugðust heljar kaf
hljóta mundu dýri af.

95.
Á báru dýrið bað hún sig að færa:
„Ef eg skal vera eftir hér,
ekki minnkar sorgin mér.“

96.
Fyrir dýrar frúinnar bænir kláru,
létu á skipið lauka Vör,
landi undan hröðuðu för.

97.
Hraðir síðan herða segl og reiða,
þá var um skipið þys og hljóð,
þeir þenktu að halda af ljónsins slóð.
98.
Greindu úr landi ljón að skipinu syndir
og sér hélt við öldu hund
ekki skemur en hálfa stund.

99.
Frá vill eigi firðum dýrið snúa,
úr landi syndir langt á sjó,
lýði marga hræðslan sló.

100.
Á háru jórinn bröltir upp dýrið stóra,
ógna hræðslan ýta skar,
aftarlega hjartað var.

101 Dýrið gjörir drengjum hræðslu stóra,
óvit hrepptu ýtar tveir,
ofan í skipið duttu þeir.

102.
Gáðu að lýðir hvað gjörir til ljónið skæða,
dregst þar að sem drottning stóð
döpur og hafði í fangi jóð.

103.
Auðmjúkt flaðrar upp á barnið góða,
hjá fljóðsins leggst það fótum niðr,
frúna vill ei skiljast viðr.

104.
Séð fékk lýður að sakar ei ljónið skæða,
sem rakki einn það rann hjá þjóð,
en rækti mest það unga jóð.

105.
Bað hana lýður að bevara dýrið skæða,
„ellegar barni og þér, fljóð,
út munum kasta á síldar slóð.“

106.
Dýrleg svarar drottning þeim með æru:
„Það mun gefa mér þrenning klár,
þegnum gjörir ei ljónið fár.“

107.
Auðgrund réð að annast dýrið stóra,
hún keypti í skipinu kostinn þar
með krónum þeim úr garði bar.

108.
Á vænum sveini var oft dýrsins trjóna,
þegar brúðurin byrgði sjón,
barnið unga sleikti ljón.

109.
Þó var ei frí hjá firðum gullhlaðs eyja,
einn var í skipinu af þeim nú,
til afmorsbragða girntist frú.

110.
Svaraði kæran sorgfull þessum dára:
„Vil eg óska, vinur, af þér,
þú vansa öngvan sýnir mér.

111.
Þrauta læt eg lífið fyr með sútum
en keisara syndga mínum mót,
mér það væri skömmin ljót.“

112.
Þrjótur grútinn þá réð ansa sætu:
„Hvort sem þér er ljúft eða leitt
líka skal mig gilda eitt.“

113.
Höndum vondum heimskur þræll tók kvendi,
vildi nauðga veiga grund,
vífið talar með hrygga lund:

114.
„Bevara hinn hýri blessaður mína æru,
almáttugur guð“, auðgrund tér,
„eg gef mig í hendur þér.“

115.
Heyrir dýrið hennar sprenginn sára,
yfrið skjótt á fætur fór
og fleina lítur vondan Þór.
116.
Yfir um bófann báðum klónum þrífur,
hræðilega það heiftin sveif,
í hluti fjóra hann sundur reif.

117.
Rekkum klökkum rammlega hér við hnykkir,
en þó var það ýta snakk,
að alla hefði ljónið þakk.

118.
Lokin makleg laun þeim kváðu stráki,
þeir sögðu hann skyldi fanga fjúk
og fá sitt aldrei líf í búk.

119.
Vondan greindu hann vera í allri lundu,
köstuðu á karfa lind
kátir dauðri bófans mynd.

120.
Í friði þaðan af frúin var hin blíða.
Seggjum verður sigling bráð,
sunnudag einn gengu á láð.

121.
Brúði á láð og barnið fluttu lýðir,
kæran þakkar köppum för,
kostnaðar líka galt þeim pör.

122.
Færa þeir jórinn flæðar út af dýri,
ljónið eftir lauka Vör
landið upp á hraðaði för.

123.
Til Jerúsalem seggir sóktu dýrir,
með þeim selskap frúin fór,
í faðmi reiðir barn á jór.

124.
Að musteri hæstu mengrund reið hin besta,
pílarar gengu að gröfinni fyrst,
sem Gyðingar lögðu í herrann Krist.
125.
Jór af fögur fer í musterið kæra
og þar til sem altarið var,
upp á lagði hún barnið þar.

126.
Þá sinn fésjóð fögur upp drottning leysir,
pening vissan lagði í ljós
og lét þar eftir frómlynd drós.

127.
Fara gjörir fögur til bænar kæra,
hrundu niður um hringþöll tár,
hjartað vafði neyðin sár.

128 „Drottinn máttugur“, mælir hún sorgfull þetta,
„lof sé þér fyrir lánið þitt,
lifir enn annað barnið mitt.

129.
Skær bevara þú skaparinn það við fári,
hitt sé falið í hendur þér,
hvörninn sem nú gengur mér.

130.
Linaðu sannur líknar kóngur raunum,
bæði mig og barnkind mín
befala eg geymslu þín.

131.
Sanna miskunn sýndu kristnum mönnum,
einninn fel eg á almátt þinn
Octavianum herra minn.

132.
Fríður guð honum farsæld gefi á láði,
og hann líka öðlist frið,
af öllu hjarta þess eg bið.

133.
Lygin flá so lofðung grandi eigi,
mun eg ei“, kvað menja brú,
„um mína sjá hann daga nú.“
134.
Táraskúrar tíðum féllu um kæru.
Sem hún búin að biðja er,
með barnið upp á hestinn fer.

135.
Síðan reið að runnum borgarhliða,
þá sömu leið, sem frúin fróð,
för á eftir dýrið tróð.

136.
Þar sem dýrið drengir sáu hið stóra,
kom á margan kjöllur sár,
að köppum mundi aukast fár.

137.
Út á stræti einn kom henni á móti
herramaður með hæfilegt skraut,
heilsar hún fríðum málma Gaut.

138.
Hann sér kvinnan hóflát er að sönnu,
bauð henni kost með barn og ljón
og brúði fá einn trúan þjón.

139.
Þáði boðið þetta kvinnan fríða,
lengi var þar lauka slóð,
ljónið öngvum sýndi móð.

140.
Háum í var heiðri gullhlaðs eyja,
eins og herrans ekta frú
unnu flestir drottning nú.

141.
Til æru gjöra allir frúnni hýru.
Hér skal róms af raddar múr
Rögnirs hvíla dreggin súr.

142.
Gælan brjáluð gils af drjólar múla,
þulin rauluð deilu um dal,
dulin gauluð hvíla skal.