Rímur af Flóres og Leó – þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Flóres og Leó 3

Rímur af Flóres og Leó – þriðja ríma

RÍMUR AF FLÓRES OG LEÓ
Fyrsta ljóðlína:Þriðja verður Sóns úr sal
bls.31–43
Bragarháttur:Samhent eða samhenda (alhent, ferstikla, stikla)
Viðm.ártal:≈ 1625
Flokkur:Rímur
1.
Þriðja verður Sóns úr sal
sendast örin góms af fal
þó renni mér úr raddar dal
raustin bág og fífla hjal.

2.
Áfram ber ei frœðin fort,
fœ eg því öngvan mansöng ort,
því tungu minni tals um port
tekur verða á ljóðum skort.

3.
Áður en sest við sagnar smíð
segja verð til gamans lýð
hvörsu falskleg fyrr og síð
flærð hefur verið um langa tíð.

4.
Finnst það með þeim flærðar smið,
sem falskleikann sig temur við,
eins og dúfa eru í sið,
öðrum látast leggja lið.

5.
Að yfirbragði og andlitsmynd
á þeim þykir besta hind,
því er von að verði blind
veik og einföld manna kind.
6.
Satan undan seggja þjóð
svika fyrstur veginn tróð
þá falskur tœldi feðgin góð
úr fegurðar sælu í vítis glóð.

7.
Jósef fann það flærðar par,
af frú þess ríka nauðung bar,
og fyrir hennar álygð þar
í dyblissu settur var.

8.
Mardocheus maður einn hét,
megnt var bruggað heljar net,
Assverus því Ester grét,
Aman sjálfan hengja lét.

9.
Absalon með öfundar sáð
Achitóphels þekktist ráð,
þá föður síns hafði frillur smáð
og flœrðsamlega hans ríkjum náð.

10.
Adónías einn var sá,
með undirferli girntist á
Abísag til ekta fá
og ætlaði Salomons ríki að ná.

11.
Dalila full með svika seið
Samson sterka kom í neyð,
hann því gisti dapran deyð,
drósin af honum hárið sneið.

12.
Því eru dæmin skýrð og skráð,
skuli menn forðast fals og háð,
enn í dag, ef að er gáð,
finnst undirferli og svikanna ráð.
13.
Þeir þiggja lukku lánið hœst
sem lýti synda hylja stœrst,
kápu bera méð gullið glœst
en gráum kufli skrýddir næst.

14.
Á gylltar fjaðrir glóar og skín,
geðlegir eru í manna sýn,
sig um vefja silki og lín,
svikin kunna að œtlun mín.

15.
Meiri eg ekki mansöng þyl,
því mennt er sljó um hyggju gil,
yður gjöri það víst í vil
að víkja aftur sögunnar til.
16.
Fjalars áður ferjan beið,
þar frúin ung með börnin reið,
reikandi í réttri neyð,
en riddarar héldu svarinn eið.
17.
Hugsar í skóginn harmamóð
að halda nú hið beinsta fljóð,
varð fyrir henni veganna slóð,
varla sú er brautin góð.
18.
Hún sá upp á háum klett
að honum var undir rjóður slétt,
í því brunnur einn var rétt
og aldintré með laufum sett.
19.
Eikin sú var undra stór,
upp vaxin hjá lindar kór,
lá úr brunninum lækur mjór,
lét hún þar af drekka jór.
20.
Brunninn þegar brúðurin sér,
með börn af hesti stígur hún hér,
beisl af jór tók, bíta hann fer,
býsna gras um rjóðrið er.
21.
Leit um kring sig lauka brú,
lifandi öngvan mann sér nú,
hrelld var jafnan hrundin trú,
hryggva glöddu börnin frú.
22.
Í blómstrið niður börnin smá
brunninum leggur kvinnan hjá,
hún fór að neyta fæðu þá
sem fengin var henni garði á.
23.
Eftir það af brunni blíð
bauga drekkur sorgfull hlíð,
börn nú sofa frúinnar fríð,
fyrir það hafði hún minna stríð.
24.
Lúið var orðið fagra fljóð
af ferðalagi og sárum móð,
sofna réði sætan góð,
sín lét hjá sér liggja jóð.
25.
En þegar sofnuð sætan var
sorgarmóð við brunninn þar
apynju eina að henni bar,
ei vissi hún af þessu par.
26.
Lymskan hennar lysting jók,
hún læddist nærri drottning klók,
barnið annað burtu tók
og beint því út í skóginn ók.
27.
Í rjóður lítið skrímslið skaust,
skepnan leysti barnið hraust,
á jörðu niður lagði laust,
lék fyrir því og kvað við raust.
28.
Apynjan nú gefur að gætr,
hvort gjörir ei hlæja sveinninn mætr,
þegar hún blístrar barnið grætr,
bar sig lítt og illa lætr.
29.
Af ráði guðs so rétt til bar,
að riddari einn í skógnum snar
hafði villst, og hann kom þar
sem hún yfir barni nöktu var.
30.
Þessi hafði þénara lið,
þeir voru skildir riddarann við,
áttu nálega öngvan frið
fyrir illsku varga ljótum sið.
31.
Út dró sverð þá apynju sér
og við hana riddarinn tér:
„Láttu barnið liggja hér,
eða lífið skaltu missa af mér.„
32.
Á hana þegar illskan sveif,
upp í móts við riddarann dreif,
ei hræddist hún odda veif,
úr hans stakki speldið reif.
33.
Komið gat hún á riddarann rið,
reikaði hann utan í hestsins hlið,
sig þó rétti sjálfur við,
síðan bauð henni öngvan frið.
34.
Dró út riddarinn darra seið,
djarflega móti skrímsli reið,
hægri af henni handlegg sneið,
hún varð ólm við sársins neyð.
35.
Upp í loft hún hefur sig hátt,
hugsar hann rífa sundur í smátt,
hesturinn þá með hörkumátt
hana sló á lendar brátt.
36.
Til jarðar niður rétt hún rauk,
riddarinn brátt af jórnum strauk,
hann hjó so til að höfuð af fauk,
hennar þanninn ævi lauk.
37.
Barnið tók, á hest sig hefr,
hamingjunni lofið gefr,
í sínum kyrtli sveininn vefr,
síst við þetta lengi tefr.
38.
Sem nú þetta seggurinn vann
sinn á veg með barnið rann,
morðingjum tíu mætti hann,
er mörgum veittu lífsins bann.
39.
Að riddaranum flykkjast fljótt,
falskir vilja hann drepa skjótt,
barnið fyrir bar hann sótt
og bað sinn guð í leyni hljótt.
40.
Sem morðingjanna meining sá
mistilteini hörðum brá,
segg drap einn en særði þrjá,
sérhvörs hlíf um völlinn lá.
41.
Ljót nú kalla lymsku þý:
„Láttu, riddari, barn með frí,
frá herra einum hefurðu því
hvinnskur stolið landi í.“
42.
Sagði þar við seggurinn: „Nei,
sannleik vil eg dylja ei,
en af einu illsku grey
eg hef það leyst með gríðar þey.
43.
Henni eg af höfuð sló
og handlegginn í sundur dró,
í kyrtli mínum um barn so bjó,
bið eg yður að skoða það þó.“
44.
Morðingjarnir meintu í stað,
mundi komið af herrum það,
riddaranum nú æddu að
og sinn reyndu benja nað.
45.
En so flykktust utan um þann
illsku strákar riddarann,
mæta barnið missti hann
og morðingjunum undan rann.
46.
Ljótir á barn með lymsku par
lögðu hlut í skógnum þar,
sveininn þann úr býtum bar
bert af þeim sem skástur var.
47.
Góð ráð bað nú gefa til sér
hvað gjöra skal við barnið hér,
vænleikur þess vitni ber
af veglegum það ættum er.
48.
Sumum þótti sæmdin mest
að selja barn á Ræfils hest,
kaupmenn kváðu betala best
og borga fyrir það gjaldið mest.
49.
Allir urðu á einu um það,
ungt tók barn sá ráðsins bað,
herðar á lét halurinn það
hratt og rennur skipunum að.
50.
En sem þeir það efndu ráð,
apynju fundu dauða á láð,
þeir sjá nú riddarinn satt hefur tjáð
so hefði hann af henni barni náð.
51.
Ofan til strandar ekki að síðr
ungt með barn rann flokkurinn stríðr
í nokkra höfn þar fyrir lá fríður
frá Normandí rekka lýðr.
52.
Með barnið komu á bragna fund,
buðu til kaups í samri stund,
á gjaldið voru gjarnir í lund:
„Gefið oss fyrir það fjörutíu pund.„
53.
Kaupmenn gáfu greitt til ans:
„Vér gjörum það aldrei verðið hans,
húsum burt frá herramanns
hafið þér barni stolið til sanns.“
54.
Orð þau svifu þeim sárt í geð,
svaraði hvör þá öðrum með:
„Því ef hlýðið það skal téð,
þetta um hvörninn barn er skeð.
55.
Unnum vér það með öfl ótrauð
af einum riddara stríðs í nauð,
en hann af einni apynju gauð,
upp á skógnum liggur hún dauð.“
56.
„Ungt fyrir barnið“, kaupmann kvað,
„vér kunnum ei gefa slíkt sem bað,
tíu merkur takið í stað“,
en trássarar vildu ekki það.
57.
Einn pílari er þeim hjá,
utan úr Párísborg var sá,
Clemus heitir, karl bar fá
um koll og skeggið hárin grá.
58.
Hart nær Párís hans var bú,
hét Geirmani borgin sú,
hann átti son við ekta frú,
er sá Cládíus nefndur nú.
59.
Um vænleik barnsins var honum dátt,
vera segir af ættum hátt,
þrjátíu krónur betalar brátt,
bragna varð þá lyndið sátt.
60.
Köllsuðu hinir karl um plóg,
þeir kváðu hann nú ríkan nóg,
auðnum kæmi hann ekki í lóg,
oft þeir hjöluðu slíkan róg.
61.
Hjöluðu sumir: „Hals af lú
hvílubrögðin dofna nú,
ávítar þig ektafrú
ungt því keyptir barmð þú.“
62.
Sinnti hann lítt um seggja skraf.
Þeir sigldu þegar byrinn gaf,
landi frá þeir lögðu í haf,
lítt fyrir barni karlinn svaf.
63.
Nauðugur varð sem vanalegt er,
að veita því hvað skyldan ber,
illar snerkjur á honum sér
þá ofan um karlinn barnið fer.
64.
Lægðu þeir ekki lín við rá,
lægis dýrið strauk sem má,
fyrr en komu Frakkland á
og fram við Párís höfnum ná.
65.
Garpar báru góss í hrúgr,
gekk af skipinu allur múgr,
Clemus tók þá barnið bjúgr,
borgar til var vegur drjúgr.
66.
Honum réð auka harma mein
á herðum bera ungan svein,
og það líka í annari grein,
að ekki var til mjólkin nein.
67.
Talar hann þá með sjálfum sér:
„Hvað svívirðilegur gikkr eg er,
ungt á herðum barn eg ber,
en borgararnir hlæja að mér.
68.
Æ, hvað heimskan afskaplig,
aulaháttur og glanna stig
afgamlan þá ærði mig
eg ungan gjörði kaupa þig.“
69.
Útlát fjárins í honum brann,
öðru veifinu talaði hann:
„Guð hefur auðinn gefið mér þann,
eg gjörist ei fyrir það þurfamann.“
70.
Karl þá stundum kær so tér:
„Ef Cládíus son minn deyja fer,
óefað skal hann mig erfa hér,
einkanlega ef þóknast mér.“
71.
Af því hjali varð karls geð kátt,
kyssa lést hann barnið brátt,
yppti sér á axlir hátt
og ærilega lék við dátt.
72.
Labbaði karlinn lúinn og móðr,
lá á herðum sveinninn góðr,
oft var honum í nösum njóðr,
nokkrum sinnum gekk hann hljóðr.
73.
Posið að búa veitti honum verst
og vefja, fyrir því kveið hann mest,
kaupa varð því konu og hest,
karhnum var það ráðið best.
74.
Henni barn í hendur fékk,
hestinum fyrir karlinn gekk.
Í Geirmon fór og fagna rekk
fróm hans hjú og kvinnan þekk.
75.
Karlsins fríða bauga brú
að barninu unga spurði nú
og hvör móðir að var frú,
eða hvort væri það kvinnan sú.
76.
Clemus ansar kyrtla gátt,
karlinn hló þá yfrið hátt:
„Það hef eg fram hjá þér barn átt,
þess ei dyl þig, hlýða mátt.
77.
Hinum megin hafs eitt fljóð
hefur mér eignað þetta jóð,
dauðans hreppti dapran móð,
þá drengir lögðu á síldar slóð.
78.
Ef með dapri dauðans pín
deydd væri ekki silki Lín,
hana skyldi eg hingað til þín
haft hafa nú með barni sín.“
79.
Hugsa gjörði hringa Ná
hún þegar karlinn brosandi sá,
hann mundi eiga því fóstur að fá
fyrir einn herra landi á.
80.
Þar fyrir vill ei þorna brú
þvinga hann lengur í orðum nú,
unntust þau með æru og trú,
elskaði líka barnið frú.
81.
Skjótt þau létu skíra hann þar,
skærust trú í landi var,
ungur sveinninn óx upp snar
og þá Flóres nefndur var.
82.
Um vænleik barnsins var þeim best,
vitur þótti og snar um flest.
Flóres varði Frakkland best,
sem framar meir í sögunni sést.
83.
Geyst nú snautar góms af fal
Gillings nautar dverga mal.
Róma lautar rímu tal
rekið til þrautar standa skal.


Athugagreinar

Ríman er öll undir samhendum hætti óbreyttum nema seinasta vísan sem er samhent hringhend.