Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu – fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu 1

Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu – fyrsta ríma

RÍMUR AF LYKLA-PÉTRI OG MAGELÓNU
Fyrsta ljóðlína:Áður forðum skáldin skýr
bls.145–155
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Rímur

Skýringar

Fyrsta ríma
ferskeytt
1.
Áður forðum skáldin skýr
skemmtun mjúka frömdu,
afreksmanna ævintýr
oft í ljóðum sömdu.

2.
Þjóðkveðendur þar til mest
þankann gjörðu að hneigja,
dikta um þá, sem dugðu best
darra él að heyja.

3.
Sá fékk lof hjá ljóðasmið,
sem laufann reiða kunni,
svinnir ýkjur settu við
af sjálfra hyggju brunni.

4.
Bardagasögur þýðri þjóð
þykir gaman að heyra,
einkum séu lystug ljóð
læst méð Kvásirs dreyra.

5.
Því mér lengi í þelinu bjó,
þess með öðrum freista,
vanefnunum þar til þó
þori eg ekki að treysta.

6.
Aldrei lœrði eg Eddu mennt
né önnur skálda frœði,
því mun ekki heimskum hent
að hugsa um djúpsett kvœði.

7.
Kveða skal ei um Bölverks bál
borið í hildar vindi,
óvant býð eg mœrðar mál
mœtri vella lindi.

8.
Aðrir skemmta skatna þjóð
með skreyttum háttum ljóða,
eg vil hringa slyngri slóð
slétt og einfalt bjóða.

9.
Nú mun eg Frosta flœðar húns
farminn látast prýða,
má vera Gefni grábaks túns
gaman þyki að hlýða.

10.
Mansöngs klastur mitt er stirt,
mun eg því við það skilja,
sætur fróðar sitji um kyrrt
ef sögunni hlýða vilja.
11.
Greifi nokkur giftu dýr
göfugu stýrði láði,
Jóhann nefndist herrann hýr,
huldur Kraka sáði.

12.
Mörgum veitti móins sker,
mildur af greipar sandi,
prúður stýrði plátu ver
Próvinsia landi.

13.
Honum var allt til heiðurs lagt,
hélt vel kristni góða,
á dýra treysti drottins makt
dreifir öldu glóða.

14.
Drottning hans var dyggða blóm,
dýrstum hlaðin mektum,
hýr í lyndi, fögur og fróm,
fædd af kónga slektum.

15.
Stundaði jafnan sóma safn
so með lofstír góðum,
í sögunni er ei sætu nafn
séð af járna bjóðum.

16.
Pétur nefni eg niflungs kund
nöðru prýddan bóli,
sá mun leika langa stund
lukkunnar völtu hjóli.

17.
Sá var vaxinn vel í skart
veitir unnar ljóma,
með hárið gult en hörund bjart,
heiður og allan blóma.

18.
Ungur á menntir lagði lund
lestir málmsins brennda,
skilning rétt á skot og sund
og skaft á lofti að henda.

19.
Hoskum unni hilmirs nið
hölda sveitin fríða,
borgarfólk og bóndalið,
sem bjuggu um landið víða.

20.
So fær mætur meistarinn kennt
máls í greinum sönnum,
hafði borið í hvörri mennt
helst af öllum mönnum.

21.
Eitt sinn réði að reika einn,
rétt so bókin tjáði,
öðlings niðja ungur sveinn
úti mæta náði.

22.
Sveinninn þegar með hefðar hót
heilsaði fleygir klæða,
kvaðst þá hafa við nadda njót
nokkuð fleira að ræða.

23.
„Fer það orð um borg og bý,
buðlungs arfinn ríki,
að hvörgi öllum heimi í
hittist yðar líki.

24.
Mjög fer víða um landið lof
ljóst af prýði þinni,
hygg eg það muni ei um of,
að þó nokkrir finni.

25.
Vilda eg yður verði birt,
veitir bjartra seima,
það er löngum lítils virt
að liggja jafnan heima.

26.
Hraustleik yðar hrósa menn,
heyri eg so margan greina,
þú hefur ekki þar til enn
þurft í mörgu að reyna.

27.
Fleira veit sá víða fer,
virðing má það bæta,
heldur en hinn, sem heima er
og hlýtur öngu að mæta.

28.
Því vil eg leggja það til ráðs,
ef þarflegt mætti heita,
að Fýrisvallar sviptir sáðs
so skuli frægðar leita.

29.
Yðar valdi lýðurinn lands
lotning hyggur veita,
kominn er tími, bendir brands,
brúðar þér að leita.

30.
Sú er ein í austurbyggð
eikin hafnar ljóma,
kæran alla kvenmanns dyggð
kann með prýði og sóma.

31.
Faðir hennar sviptur sorg
seggjum verður skæður,
Neapólis nýtri borg
niflung þessi ræður.

32.
Nýtur veitir nöðru frón
njótur Sviðrix ljóma,
milding heitir Magilón,
mektargjarn á sóma.

33.
Heitið mætt af frómum fékk
fleygir pellsins græna,
meyjan skíra mörgum þekk,
Magelóna væna.

34.
Af siðugri vil eg silki nift
segja ætlun mína,
fegri enga dúka drift
dagur á nam skína.“

35.
Skýfir mælti skjóma þings,
skrýddur orma jöðrum:
„Yður þætti mér Hrundin hrings
hæfa framar öðrum.

36.
Hér fyrir yður held eg ráð
hreysti fremja þekka,
fríðri so þér fengjuð náð
Friggjar Gefni ekka.“

37.
Skjalda Týr við skjóma Þund
skraf lét þanninn dvína.
Þengils son frá þeirri stund
þenkti á burtför sína.

38.
Heimulega setti sér
sig til ferðar reiða,
þó vill frægur fleina grér
föður sinn orðlofs beiða.

39.
Listugur eitt sinn líta gat
lundur Kraka sáða,
í loftsal einum sjóli sat
hjá svinnri pellu þráða.

40.
Honum kom í hyggju grund
hugarins forna iðja,
og nú mundi óskastund
orðlofs strax að biðja.

41.
Fregn um lindi Friggjar vers
frekt í hug sér lagði,
gekk því hryggur hildir hers
hratt til þeirra og sagði:

42.
„Mér hefur, faðir, búið um brjóst
frá barndóms fyrsta aldri,
það sem nú skal látið ljóst
listugum fleina Baldri.

43.
Hefur því margur hrósað glatt,
að hrottann kynni eg brióta,
vita þó ei hvort segja það satt“,
sveigir talaði spjóta.

44.
„Hérvist mín er haldin lægð,
það heyri eg af margra rómi,
en að reika er mér frægð
og okkur báðum sómi.

45.
Mjög hefur sóast mér í vil
mikið af frænings grjóti,
en eg sjálfur orka til
einskis þar á móti.

46.
Ljúfi herra, leyf mér því
af landi burt að ríða,
helst býr mér það hyggju í
að hitta kappa fríða.“

47.
Eftir liðna litla stund,
þá létti hann sinni ræðu,
herrans ansar ljósa lund,
lofðung svipti mæðu.

48.
„Lærðu fyrst, minn ljúfi son,
lyndið ungt að stilla,
af því öngva veistu von
vilja þinn að fylla.

49.
Af er hlaupið æsku stig,
ellin safnar kífi,
engan soninn utan þig
eigum við á lífi.

50.
Gefi þá lukkan gleði skort,
sem guð ei verða láti,
herralaust er hauður vort,
haldið rauna máti.“

51.
Sjóli fyrir sínum nið
soddan vel út þýddi.
Drottning sat hjá döglings hlið,
döpur á þetta hlýddi.

52.
Síðan ansaði svinn og skær
seljan nöðru leira:
„Elsku ljúfi arfi kær,
orð mín skaltu heyra.

53.
Þeim sem víðan veraldar hring
vilja gjarnan kanna,
fyrir vænan Fofnis vinna bing
vináttu herramanna.

54.
Þessa ekki þarftu með,
Þundur Yggjar tjalda,
nóga vini og nægða féð
í náðum máttu halda.

55.
Eigan vor fær enga nauð,
ef þú vildir rækja,
fjærri sé þér framandi auð
með fári lífs að sækja.“

56.
Þegar sem heyrði þessi svör
þengils arfinn bráði,
dapur í bragði darra bör
dögling ansa náði:

57.
„Með öllu móti er mér skylt
yður hlýðni sýna,
þó mun ekki þelið stillt
um þessa burtför mína.

58.
Eg skal hætta óskum fyr,
ef það mögulegt væri,
þolir illa þankinn kyr
þegar eg sé mér færi.“

59.
Þagna réð við þessi orð
Þundur glæsis marar,
þar með viktug veiga skorð
vildi öngu svara.

60.
Göfugur loksins greiddi ans
greifinn hefðar mildi,
so sem hreytir handa fans
heyra gjarnan vildi.

61.
„Fyrst þú girnist frekt þar á,
við föðurland þitt skilja,
okkar skaltu orðlof fá
eftir þínum vilja.

62.
En ef verður auðið þér
aðrar þjóðir finna,
siðugur skaltu geira grér
gæta orða minna.

63.
Vondri heiðni vík þú frá
og vélastiga taugum,
hvað sem girnist hjartað á,
haf þú það fyrir augum.

64.
Fremdu gott en forðast háð,
frómum að þér snúir,
þeirra jafnan ræktu ráð,
sem reynst hafa öðrum trúir.

65.
Geymdu jafnan góðan frið,
gæfð og hógværð sanna,
sérdeilis þó sjá þig við
selskap vondra manna.

66.
Þú mátt velja í þessa ferð“,
þengill nam so skýra,
„skjóma, brynju, skjöld og sverð,
skrúðann Handings dýra.“

67.
Bjóst til ferðar bendir spjóts
burt, en létti kífi,
þá var hugur nadda njóts
hjá neapólsku vífi.

68.
Föður sinn kvaddi fleygir fals,
fús í burt nam ríða,
föður ráðum spillir spjalds
spaklega náði hlýða.

69.
Móðir hans, sem hermi eg frá,
hýr í visku láði,
af hreina gulli hringa þrjá
honum gefa náði.

70.
Síðan mengrund minntist við
meður kærleiks æði,
sætan bað fyrir sínum nið,
so þau hjónin bæði.

71.
Blíður skildi bendir hjörs
og bríkin dýrra seima.
Hér skal dverga frelsið fjörs
farminn kvæða geyma.