Ég bið að heilsa | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ég bið að heilsa

Fyrsta ljóðlína:Nú andar suðrið sæla vindum þýðum
Heimild:KG 31 b IV.
Bragarháttur:Sonnetta (Jónasarsonnetta)
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1844

Skýringar

Samið árið 1844. Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b IV ). Frumprentun í: Fjölnir 7. ár, 1844. Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Hér er farið eftir eiginhandarriti skáldsins:

Um breytingar á kvæðinu eftir að Jónas lét það frá sér, sjá:
Nú andar suðrið sæla vindum þíðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
þau flykkjast út að fögru landi Ísa-,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um haf og land í drottins ást og friði,
leiði þið, bárur! bát að fiskimiði,
blási þið vindar hlýtt á kinnum fríðum.

Söngvarinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegarleysu
í lágan dal, að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engill með húfu og grænan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.


Athugagreinar

Hér er til samanbuðar hin „viðurkennda“ gerð kvæðisins sem birtist upphaflega í
Fjölni 1844 og síðari útgáfur hafa stuðst meir eða minna við:

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.