Minni kvenna (á afmælisdegi konungs 1875) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Minni kvenna (á afmælisdegi konungs 1875)

Fyrsta ljóðlína:Fósturlandsins Freyja
bls.233
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt:AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Fósturlandsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár:
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár!
2.
Móðir. — Hjartahreina,
himindjúpa ást,
lífsins elskan eina,
aldrei sem að brást!
árdags engilroði,
ungbarns sólarbrá,
sannleiks sigurboði,
signing Drottins há!

3.
Meyja! mannsins lotning,
milda, svása dís!
dagsins himnadrottning
dýrðleg með þér rís.
Lífsins ljúfu hörpu
ljær þú guðamál,
sigur sverði snörpu,
sœtleik banaskál!
4.
Kona! mannsins króna,
kærleiks tign þín skín,
allir englar þjóna
undir merkjum þín;
þótt oss sólin þrjóti,
þróttur, fjör og ár:
grær á köldu grjóti,
góða dís! þitt tár.
5.
Þegar mannast maður,
miklast, snót! þín stétt,
harðra herra smjaður
helgan snýst í rétt:
Fríkkar þá á Fróni,
faðmast ás og dís,
leikur sér með Ijóni
lamb í Paradís.
6.
Fósturlandsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár:
vertu lands og lýða
ljós í þúsund ár!