Hulduljóð (fjórði hluti) Smali (fer að fé og kveður) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hulduljóð 4

Hulduljóð (fjórði hluti) Smali (fer að fé og kveður)

HULDULJÓÐ
Bálkur:Hulduljóð
Fyrsta ljóðlína:Það var hann Eggert Ólafsson
bls.123
Viðm.ártal:≈ 1850
1.
„Það var hann Eggert Ólafsson,
ungur og frár og viskusnjall,
stóð hann á hauðri studdur von,
stráunum skýldi vetrarfall;
meðan að sól úr heiði hló,
hjúkraði laukum, eyddi snjó,
kvað hann um fold og fagra mey
fagnaðarljóð er gleymast ei.
2.
Kvað hann um blóma hindarhjal
og hreiðurbúa lætin kvik,
vorglaða hjörð í vænum dal
og vatnareyðar sporðablik;
þó kvað hann mest um bóndabæ
er blessun eflir sí og æ,
af því að hjónin eru þar
öðrum og sér til glaðværðar.
3.
Það var hann Eggert Ólafsson,
allir lofa þann snilldarmann,
Ísland hefir ei eignast son,
öflgari stoð né betri’ en hann;
þegar hann sigldi sjóinn á
söknuður vætti marga brá;
nú er hann kominn á lífsins láð
og lifir þar sæll fyrir drottins náð.“