Alda | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alda

Fyrsta ljóðlína:Vertu hjá mér, Alda, meðan aftanskinið ljómar
bls.7–8
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) AbAb
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1933
Flokkur:Ástarljóð

Skýringar

Kvæðið var fyrst prentað í fjórðu ljóðabók Gísla, Heiman úr dölum 1933, en er hér prentað eins og það er í Á brotnandi bárum 1944, bls. 89–90. Skáldið hefur þar aðeins breytt stafsetningu og greinarmerkjasetningu frá fyrstu prentun, en annars nær hvergi vikið við orðalagi.
1.
Vertu hjá mér, Alda, meðan aftanskinið ljómar.
Við alein skulum finnast um hljóða sumarnótt.
Ástarþráin drottnar þó dagsins þagni hljómar,
mig dreymir vonarlandið mitt. Góða, komdu fljótt.
2.
Bælt er hérna grasið er síðast saman vórum.
Um sama stað í fjallinu aftanroðinn skín.
Í þessum blómarunni við ástareiða sórum,
nú óðum líður tíminn. Ó, komdu, Alda mín!
3.
Þú kemur ekki, Alda, það andar kalt um völlinn,
í einverunni sit ég með dána vonarglóð.
Á meðan þokan birtist og færist yfir fjöllin
í fjarlægð heyri eg drynjandi sjávarölduhljóð.
4.
Ég bíð hér ekki lengur, í sorgum heim skal halda.
Þú, hreini aftansvali, skalt strjúka um vanga mér.
Nú sé ég fyrst hve viðsjál og veikbyggð ertu, Alda!
Ég veit þú hefur brotnað við eitthvert hærra sker.
5.
Mig dreymir stundum atvik sem fyrr var gleymt og grafið,
nú geng ég ekki framar um ástartöfra lönd.
Ég berst við tímans öldur um óþekkt stormahafið
og ein mig flytur síðast að dauðans köldu strönd.