Barnaspurningar um kirkjusiði og seremoníur ungdóminum til fróðleiks og öðrum einföldum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Barnaspurningar um kirkjusiði og seremoníur ungdóminum til fróðleiks og öðrum einföldum

Fyrsta ljóðlína:Margt er ónumið mönnum í ungdæmi
Bragarháttur:Fimmfótaromsa, sérstuðluð
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Fræðsluljóð

Skýringar

Víða er vikið frá hryndandinni í kvæðinu.
Formálinn
Margt er ónumið mönnum í ungdæmi;
því eru skólar settir að skerpa næmi.
Gagnmun ófróðum Guð tillagði þenna;
þeir eldri eiga ynglingum iðnþróttir kenna.
Sá lærði á vargjört lánardrottni sínum
sem lét hann komast að vísdómi vænum.
Sá ungi á næmi ferskt við Guð að virða
og í fjársjóð þeim flest gott hirða.
Að sinni skyldu sérhvör á að gæta
og ei ákveðið verk ógjört láta.
Því er það fróðum fordild og æra
sem flesta láta af sér fræðast og læra.
Ungum horfir helst til heiðurs og sóma
iðkun og aukning náms ekki forsóma.
Sá sem góðs leitar góðs fær að njóta;
margt kann óráðþæginn af sér brjóta.
Hér skal kirkjuvit koma til greina
ungra og *einfaldra úrlausnir reyna.
Þeir þurfa að kunna sig sem koma í hofgarða.
Mér *þykir um Guðshús þó meira varða.
Óþierugur við Guð í kirkju koma
mun kristnum virðast til mikils ósóma.
Heimska er að horfa á helg verktygi
en hvar til þau þéna vita þó eigi.
Að heyra á heilagt mál á helgum degi
til vansa verður þeim sem vitkast eigi.
Að horfa á helg tilföng hússins besta
en deili hafa engin á er dárlegt næsta.
Gjöri enginn spott að spursmálum þessum
sem eg hér fram set í samstæðum versum.
Sá, sem vel þiggur, vel bið eg njóti,
fari honum vit í vöxt enn fáfræði þrjóti.
Leiðrétti ef líta á lærðir vitringar;
þeygi eru fyri þá gjörðar þessar spurningar.
Hvör sem vitkast vill við vísdóm auki;
enginn verður fullnuma fyrr enn í guðsríki.
Lærandinn lærir hér so lengi sem lifir;
Guð gefi oss sinni til gott að hafa yfir.
1.
spurning
Hvað viltu kristinn maður til kirkju þinnar?
Að sækja þangað gagn sálar minnar.
2.
spurning
Hvað er sálargagn? seg mér af þessu?
Að helga hvíldardag og hlíða messu.
3.
spurning
Veistu hvað hvíldardagur hefur að þýða?
Vikusjöund væna og vígð er til tíða.
Ellegar að segja so í máli mjúku
það er helgur dagur í hvörri viku.
4.
spurning
Seg mér við hvörja hvíld hann er kenndur?
Guðs sjálfs (sem í Genesisbók stendur).
Heila sex daga Guð heiminn skapaði;
þann sjöunda hvíldist hann og í senn helgaði.
5.
spurning
Hvort varð Guð þreyttur þá hann heiminn gjörði?
Nei, því hann vann allt með almættis orði.
6.
spurning
Hvörninn hvíldist hann og þó án þreyti?
Hann lét af að skapa þó langtum meir gæti.
7.
spurning
Hvörninn helgaði Guð hvíldardag fyrsta?
Hann setti hann til víðfrægðar verkinu besta.
Hann var stiftaður helst mannsins vegna
sem vilja Guðs hefur vit á að gegna.
Á viku hvörri eiga menn verk Guðs að grunda,
sex daga á holdið en sál þann sjöunda.
Skal þá um leið hvör á skaparann minnast,
til heiðurs við hans verk í helgum stað finnast?
Því ber hann fagurt hvíldardags heiti
sjöunda að aflétta sex daga þreyti.
8.
spurning
Hélst lengi sköpunarskikkun sú góða?
Allt þar til Jesús uppreis af dauða.
Þann mikla hvíldardag mæddur af pínu
hvíldist hann í greftrunarherbergi sínu.
En þann næsta dag með upprisu sinni
helgaði Kristur svo hafður sé í minni.
Rann þá upp spánnýr drottins dagur;
mestan bata tók mannkynsins hagur.
Og þá urðu dagaskipti dýrrar sjöundar
til heilags helgihalds heilags samfundar.
Síðan hefur kölluð verið sunnudagshelgi;
henni trú eg endurlausnaræran fylgi.
Helgir postular hann þar til völdu
með ráði heilags anda þá ritningar skildu.
Við sól er kenndur vegsemdar mestur
drottins dagur vor í dagatali fyrstur.
Á honum skópst hauður og himin með ljósi
drottins margfaldri dýrð trú eg hann hrósi.
Á honum réttlætis sól rann upp í heiði
þá lífið fékk sigur enn dauðinn deyði.
Því er hann og drottinsdagur kallaður;
sá, sem hann heldur vel, er heilagur maður.
Á sama vikudag sendist af hæðum
heilagur andi Guðs með himneskum gæðum.
9.
spurning
Hvað kallast að helga hvíldardaginn?
Að gjöra sem kenna Guðs kirkiulögin.
Helgar sá hvíldardag sem hefur í minni
öll sköpunarverk með endurlausninni.
Og heilags anda helgunar gæði
sem alla menn með orði Guðs endurfæðir.
Sá, sem með alúð orði Guðs hlýðir,
af heyrn öðlast trúna og hjálpræði um síðir.
Sá, lærir þrennan Guð að þekkja og dýrka,
hlið himins er honum heilög kirkja.
Hvör, sem ákallar í helgum söfnuði
nafn síns drottins, náð fær hjá Guði.
Hver, sem á helgum degi herrann prísar,
sannan Guðs Lazarum sig bevísar.
Sá, sem Guðs sakrament með sóma brúkar,
sinni þurfandi sál sætlega hjúkar.
10.
spurning
Kynntu mér hvað kirkja þýðir?
Það er heilagt hús sem helgan Guðs prýðir.
Kirkja heitir bænahús Krists dýrkinga
eða vígt herbergi að tala um Guð og syngja.
Kyrios í grísku máli kallast heilagur.
Guðs hús af Guði sjálfum glóseran dregur.
11.
spurning
Hvað merkir kór þar Krists er altari?
Í söngvígðum pasti syngjandi skari.
12.
spurning
Hvað er altari með sínum sóma?
Það er göfug stó Guðs helgidóma.
Á altari voru offur lögð áður til forna
og kveikt upp reykelsi kvöld og morgna.
En nú er það andlegt borð andlegrar fæðu
þar kennimenn tilreiða Kristí kvöldsnæðu.
13.
spurning
Því eru lífleg sett ljós á altari?
Svo helgidómsprýðin sé því háleitari.
Sú seremonía er svipur Guðs dýrðar
og dýrt heillamerki drottins hjarðar.
Sjálfur Guð býr í sínum helgidómi;
eilíft ljós er hans andlitis sómi.
Ljómandi Guð nefnist ljóssins faðir;
ljóssins börn eru hans lýðir kallaðir.
Jesús er líf og ljós lifandi manna
sem upp rann og ofan kom af hæðum himnanna.
Kerti er af tveim hlutum, kveik og tólki;
þar á logi ljós sem lýsir fólki.
Það klára kirkjuljós, Kristur blessaður,
einn með tveimur náttúrum er Guð og maður.
Minnir oss messuljós á manndáð skæra
að vöndum verkin góð sem vor er æra.
Kennir oss kirkjuljós kveikt á altari
að lukka vor, líf og trú leikur á skari.
14.
spurning
Hvað þýða klæði þau, hökull og serkur,
sem um messutíma íklæðist klerkur?
Mark og einkenni er messunnar skrúði;
sá honum klæðist er Kristí sendiboði
eins og Guðs engill sást á páskadegi
hvítklæddur í steinþrónni hægra megin.
Einninn eru upptök þess í eldra testamenti;
tignarklæði bar sá í tjaldbúð þénti.
Árons prestsskrúði ærinn var blómi
að Guðs skipan þá hann gekk í helgidómi.
15.
spurning
Hvar fyri er klukkum hringt til messu?
Guð er frumkvöðull fyri verki þessu.
Á Sínaífjalli svo bar til forðum
áður en himna Guð hreyfði þar orðum.
Hvell básúnuhljóð hann lét þar klingja
þar af er siður sá til söngs að hringja.
Svo títt sem málmurinn fyri messu gellur
teiknast oss dómsdagshljómurinn hvellur.
16.
spurning
Seg mér hvað messan er í merking sinni?
Heilög þjónustugjörð í helgu inni.
17.
spurning
Hermdu mér hver er þar helst að þénari?
Sá sem er skrýddur fyri skæru altari.
18.
spurning
Hvað gjörir þjón sá þegar hann messar?
Hann afleysir, predikar, biður og blessar.
Í vatnsfonti skírir vitur söngvari,
deilir út brauð og vín við drottins altari.
19.
spurning
Er margt að gjöra í messuembættinu?
Sjö verk sem nú voru sögð öll í einu.
20.
spurning
Er margt sungið í messu veglegri?
Helgir söngvar fimmtán hvör öðrum fegri.
21.
spurning
Hvað heita söngvar þeir? Seg mér hið rétta!
Eg held vísdómsmennt að vita þetta.
Upphaf messu er fyrst inngöngusálmur;
gengið er til kirkju, gellur þá málmur.
Þar næst er friðarbón framflutt í messu;
Kyrie er upphaf á kórstemmi þessu.
Þá kemur englasöngur af presti hafinn
og dýrð sé Guði í upphæðum gefin.
Þá er messubæn í heyranda hljóði
eftir Gabríels orð sögð til söfnuði.
Þar næst postulamálpistill tónaður
og halelújavers sem himnana gleður.
Þar næst himnasöngs fylgjan fögur
og sekventían sem sætan seim dregur.
Þá er guðspjallsins gleðilegur rómur
og credo sem játar kristindómur.
Vers eftir predikun með són sætum
helgunar eðla orð undir sínum nótum;
sakramentissálmur óvandur
sunginn meðan útdeiling yfir stendur.
Þá er þakklætisbón byrjuð af presti,
síðan blessunarorð, sá sermoninn besti.
Útgöngusálmurinn endar helga messu;
himnesk er skemmtan að hlíða þessu.
Allir í söfnuði eiga þessa söngva
yfir hafa þar til úr kirkju ganga,
þeir með vörum lágt, sem vantar söngróma,
so kirkjan með kórnum samsyngi, amen.
22.
spurning
Er nú þetta alltíð sungið hið sama?
Nei, því að sitt mál heyrir hvörjum tíma.
Aðventu, jólin, að kyndilmessu,
langafasta og páskar ljá oss þá vissu.
Uppstigningardagur og hvítasunna,
þrenningarhátíð og þaðan til aðventunnar.
Tímar kirkjuársins með terminum þessum
so sér skipta og líka söngvar í messum.
23.
spurning
Flytjast margir sermónar fram í Guðs húsi?
Ég vil þá telja upp svo úr spurning leysi.
Fyrsti á sæti því sem fólk við skriftast,
þrír á predikunarstól og þeir so skiptast:
Áminning til bænar er þeirra hinn fyrsti,
guðspjallsútlegging annar sá næsti.
Almennileg bænagjörð er þriðja ræða
þá predikun endast, sú fólkið á að fræða.
Fimmta er áminning fyrir Guðs altari
áður en bergir innargönguskari;
sjötti við *kirkjudyr þá konur inn ganga
eftir sinn barnburð og útistöðu langa;
sjöundi við kórdyr þá saman skal hjón vígja;
áttundi þá afleyst er opinberlega;
níundi við fontinn þá fögur vatnsskírnin
hanteruð er og helguð Guði börnin.
24.
spurning
Að upphafi spyr eg ársins kirkjunnar?
Það er fyrsti sunnudagur jólaföstunnar.
25.
spurning
Hvað er þá í fyrstu fram sett til mennta?
Þreföld herrans heilög aðventa.
26.
spurning
Hvað er á jóladag hellst lagt í minni?
Maríusonar fæðing af móður sinni.
Á áttadag af drottins umskurðarsári
og nafninu Jesú með nýja ári.
Opinberunarhátíð heitir þrettándi,
þá komu vitringar úr Austurlandi.
María á kyndilmessu kom í musteri,
Símeon fann Krist þar so sem hann á kjöri.
Á föstugangs sunnudag, so hljóðar kenning,
við skírn Kristí var heilög þrenning.
*Á boðunarhátíð Maríu birtir letur,
um Kristí getnað sá dagur getur.
Á skírdag er framsett sú kirkjuræða
hvörninn menn hold og blóð herrans snæða.
Á langa frjádag er lesin passía,
það er herrans píningar heil historía.
27.
spurning
Hvað er á páskadegi predikað lýðum?
Af sældar Kristí upprisusigri fríðum.
28.
spurning
Hvað er á uppstigningardag haft til kenningar?
Dýrðar upphafning drottins uppstigningar.
29.
spurning
Hvör er lærdómur á hvítasunnu kenndur?
Um helgan anda sem af hæðum var sendur.
30.
spurning
En á trínitatis tignardegi hreinum?
Þá er af Guði sagt þrennum og einum.
31.
spurning
Hver eru á Jónsmessu framsett fræði?
Um fæðing Jóhannes og föður hans lofkvæði.
32.
spurning
En á vitjunardag Maríu Guðs móður?
Hebrons samkoma og hennar dýr óður.
33.
spurning
Hvílík er á Mikaelismessu musterisræða?
Um englana og ungbarna eðlið góða.
34.
spurning
En á allra heilagramessudegi mætum?
Segist þá af útvaldra sældarhag sætum.
35.
spurning
Hvörninn er þér mögulegt að minnast prestskenning?
Ef eg predikunar athuga þrenning.
Fyrst læring þá, sem lætur upp hið sanna,
hvar á sig festir heilög trú manna.
Annað er áminning öllum til betrunar
sem varar við illu so verði ei til hindrunar.
Þriðja er huggun sæt í söng hvörs konar
sem glæðir upp geð manns til góðrar vonar.
36.
spurning
Áttu margt að gjöra þá til kirkju kemur?
Það er innifalið í atvikum þremur.
Fyrst kem eg í bænahús að biðja með öðrum
sáluhjálpar sjálfum mér og samkristnum bræðrum;
þar næst að hyggnast og hlíða kenningunni;
þriðja lagi að þakka Guði með rödd og munni.
Her að auki á eg á tilsettum tímum
að giöra mig líkan Guðs kirkjulimum,
fyrir Guði og prestinum grátandi skriftast
so eg megi hvervetna huggast og tyftast.
Her næst að vera í helgu samneyti
Guðs sonar holds og blóðs með gleði og þakklæti.
37.
spurning
Ekki er enn að öllu spurt, á vil eg hlýða.
Hvað mun skriftargangurin hafa að þýða?
Hann merkir játning hjarta og munns þrenna,
í fyrstu þar sorgfullir syndir viðurkenna.
Og kemur sú hjartasorg af hörðu lögmáli
sem syndaþekkingar sannur er skóli.
Trúarjátan þar næst í skriftargangi skeður
því syndkramda samvisku guðspjallið gleður.
Hlýðnisjátan þriðja heitir í skriftargangi
þar góðri lifnaðarbót Guði lofar mengi.
38.
spurning
Veistu hvað gott það er Guði að játa,
dýrmætt og heilsusamt djöfli *afneita?
Það má kalla trúlofun og tryggðarsáttmála
sem við Guð sinn í skírn gjörði hvör sála.
39.
spurning
Hvað er Guðs stórmerki sem hvör einn játar?
Öll skikkan sú sem hann vill vera láta.
Það eru öll hans lög og himnesk réttindi
sem bjóða hvað rétt er en banna rangindi.
Það er líka Guðs náð í guðspjalls sannindum
sem neitar sig vilja nokkur deyi í syndum,
kallanar kristindóms kóngleg regla
og sakramentin bæði er soddan innsigla.
40.
spurning
Hvað kallar þú Satans verk og vilja?
Synd og glötun manns, so er það að skilja.
41.
spurning
Því óskar þú aflausnar af presti
þar hann er líka brotlegur og hefur sína lesti?
Það gjörir hans postulegt prestsembætti;
Jesús þá forðum í sinn stað setti.
Þá prestur afleysir með yfirlegging handa
talar hann ei sín orð heldur heilags anda.
Í Jesú nafni vil eg vera af syndum leystur
en ekki sjálfs þess sem framflytur lestur.
42.
spurning
Hvernin kann aflausn prests á þér að hrína?
Guðs andi gjörir það fyrir góða trú mína.
Kraftur Kristí blóðs kann mig að hreinsa
og alla trúaða af öllum sálarvansa.
Að gensvörum þínum geðjast vel heyrn minni.
Verði þér, vinur, eftir vænni trú þinni.
Epilogus
Hér næst vil eg í skilnað skila erendi
frelsarans sem til þín með friðarboð mig sendi:
Ef legáti kóngs að þér leita færi
og hans tignar náðugt bréf til þín bæri
og væri hans náðar majstatis mandat þar inni
að þú skyldir í barm stinga *bréfperlu sinni
og læra fyrir utan letur sem á stæði
og tíu ár blífa við bréfuð heilræði,
þá skyldi hann unna þér af ríki sínu
til æru þér og uppheldis ætterni þínu;
mundir þú í bréfsins innihaldi þig æfa
og legátann einnig í heiðri hafa.
Nú er Biblían bréf kóngsins hæsta,
hans náðar sendiboða haltu þína presta.
Mundu því, barnkorn, þá í Guðs hús gengur
herrans orð er þér himneskur fengur.
Athuga þú predikunar prestsins uppkvæði
og vittu hvar það samhljóðar við þín barnafræði.
Að guðspjalls innihaldi gá sem þú getur
og hvað marga punkta presturinn framsetur.
Festu í minni þínu fögur heilræði,
líkingar séu þér sem lifandi fræði.
Af huggunarummælum haf sálargleði;
sit þú undir predikun með góðu geði.
Láttu góð dæmi til góðs þig upphvetja
en illra vond afdrif frá illu þig letja.
Vertu ekki gálaus þá Guðs orði hlýðir
né fljótur á burt so ei blessunar bíðir.
Geym þú svo prests orð sem Guðs munnur segði
og athuga hans ráð góð sem engill Guðs legði.
Því öllum mönnum verður eftir trú sinni.
Gott er að gjöra vel og gott leggja í minni.
Kynntu þér utanbókar kórsönginn væna;
amen, segðu til allra kirkjubæna.
Hátíðir skaltu í hávirðing hafa,
glaður þá Guð þinn í Guðs húsi lofa.
Guð mun þér kirkjusókn svo góðu launa,
ending munt sæla fá allra þinna rauna.
Hreppa muntu veru í himnanna ríki
vina Guðs útvaldra verður þú líki.
Messuspurningaþulan sú þarna
kveð eg megi heita kirkjuvit barna.
– – –
Sendi eg stökurnar sóknarfólki mínu
og óska að iðki menn í húsi sínu.
Sá sem sig speglar í spurningum mínum
kunnandi verður í kristindómi sínum.
Friður Guðs sé með frómum lesara,
kórbræðrum mínum og kirkjunnar skara.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 58–61. Í útgáfunni eru Barnaspurningarnar teknar eftir JS 272 4to I, bl. 252v–259v, og er þeirri útgáfu fylgt hér)
Lesbrigði:
Formáli 18 einfaldra] < 471, H1770, 1773. einfalldara 272.
Formáli 20 þykir] < 471, H1770, 1773. þyke 272.
23.
spurning 11 kirkjudyr] < H 1770, 1773. kórdir 272, 471.
26.
spurning 11–12 (Þessar línur eru aðeins í H 1773 en vantar í 272, 471 og H1770)