Annað sinn drottinn eftir það | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Annað sinn drottinn eftir það

Fyrsta ljóðlína:Annað sinn drottinn eftir það
bls.1–6
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBoCoC
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Náttúrann öll og eðli manns etc.
1.
Annað sinn drottinn eftir það
aftur við Jónam sagði:
„Í Nínive, þann stóra stað,
strax skaltu fara að bragði,
orsending ber, sem býð eg þér
borgarmönnum þar inni.“
Hann ferðast þá sem fljótast má,
festir það boð í minni.
2.
Þriggja dagferða staður stór
stendur að Nínive væri;
eina dagleið so áfram fór
alvarlega sem bæri;
kallaði hratt, eg segi það satt,
so vill drottinn til haga:
Borg yðar há umturnast á
innan fjöritíu daga.
3.
Bráðliga trúðu borgarmenn
boðskap drottins þá fengu;
ungir og gamlir allir senn
íklæddir sekkjum gengu.
Kóngurinn þá, er soddan sá,
sinn búning af sér lagði,
í ösku sat og grátið gat,
gaf skikkun þessa og sagði:
4.
Ei skulu menn eða mállaus dýr
matar né fóðurs leita,
allt hvað hér innan borgar býr
biðji með iðran heita.
Afleggjum brátt á allan hátt
illsku og synd margfalda.
Má ske drottinn minnist vor enn
so megum lífi halda.
5.
En sem Guð drottinn alla sá
yfirbót Nínivemanna
miskunnar hrærðist herrann þá,
hann elskar trúna sanna.
Angra sig lét það áður hét
illsku þeirra að hefna;
þeim veitti grið, gaf líkn og frið
gæskunnar sinnar vegna.
6.
Jónas fékk séð sú fordjörfun,
sem fyrirspáð hann hafði,
yfir þá koma ekki mun;
ógæfan lengi tafði.
Honum það mest misþóknaðest;
mælti með hryggvu bragði:
„Ég vissi það þar kemur að
sem þankinn mér áður sagði.
7.
Þitt sinni, drottinn, þekkti bert,
því vildi eg undan flýja;
mönnunum jafnan mildur ert
sem mót þér syndir drýgja.
Iðrist þeir nú þá þyrmir þú
þótt látir hefnd til segja,
spádómsorð það *fyrst fann ei stað
fýsir mig nú að deyja.“
8.
Andsvar af drottni aftur fékk
að sinnar reiði gætti,
strax síðan burt úr staðnum gekk
sturlaður með þeim hætti.
Hreysiskorn þar því hitinn var
yfir höfði sér hann byggði
og vildi fá með sanni að sjá
hvað sinn spádómur dygði.
9.
Drottinn lét spretta ljósan lund,
langt sínar greinir breiddi;
sá rann þar upp á samri stund
sætt blómstur þó fram leiddi.
Við *þetta gras gladdist Jónas,
geðfróa sér það taldi.
Þá sólin hrein sárheitt að skein
sig í þess skugga faldi.
10.
Guð drottinn lét þá lundinn þann
lítinn orm stinga kunna;
upp visnaði með öllu hann,
ofan féll strax til grunna.
Austanvind greitt, sólskin sárheitt,
senda réð herrann mildi.
Jónas þreyttest og þjáðist mest,
þá sagðist deyja vildi.
11.
„Þykist þú, Jónas, reiðast rétt?“
ræddi Guð með þeim hætti.
„Þennan lund hafðir þú ei sett,
þín hönd hann ekki bætti.
Á einni nótt sá upprann skjótt,
aðra so snart visnaði.
Mjög soddan hér úr máta þér
mislíkaði sá skaði.
12.
Skylda eg ekki öllu meir
af venda bræði minni?
tólf sin‹n›um tíu þúsund þeir
þar eru í staðnum inni
sem engin skil skynjuðu til
að skipta um vinstri og hægri.
Nú sjá þú hér næsta mér er
náðin en reiðin þægri.“
13.
*Vísa mér, faðir, veg þinn á,
vík minni ferð til greiða,
óvinum mínu[m] frels mig frá;
fullvel kanntu þeim eyða.
Von mín er sú, bón traust og trú
að tjáir mér góðvild sanna.
Innleið þú mig um lífsins [sti]g
á land [li]fandi manna.


Athugagreinar


Lesbrigði:
7.7 fyrst] < Lbs 496 8vo; ÍB 105 4to; Vísnabókin 1748; Hallgrímskver 1765, 1770 og 1773; JS 237b 8vo. þvi JS 208 8vo, Lbs 1724 8vo. ei] i JS 237b 8vo.
9.5 þetta] < þettað (Hallgrímur sjálfur hefur aldrei orðmyndina ‘þettað’ í eiginhandarriti sínu að Passíusálmunum heldur ‘þetta’ og er þeirri mynd haldið hér). þettað JS 208 8vo. KE.
13.1–2 Vísa – greiða] Lbs 1724 8vo. Þessar línur hafa skorist af í JS 208 8vo, en 13. erindi sálmsins er aðeins að finna í þessum tveim handritum.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 1–6. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 208 8vo, bls. 199–203, og byggt á þeirri útgáfu hér).