Eftir frændamissi (erfiljóð) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Eftir frændamissi (erfiljóð)

Fyrsta ljóðlína:Guð minn! hvar skal eg gleði finna
bls.312
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður+) ferkvætt: AAbb
Viðm.ártal:≈ 1800

Skýringar

Framan við kvæðið stendur:
„Skáldið kallar þessi ljóð „Plástur við tvíhöggvið sár“, og eru þau prentuð hér eptir einu handriti.„
Lag: Líknarfullur guð og góður.
1.
Guð minn! hvar skal eg gleði finna?
gegnum brimöldur harma minna
þrengir sér til þín sál mín særð,
svo verði loksins endurnærð.
2.
Undarlig er þín hegðun, herra!
harmana að vekja og af að þerra,
hvernig þú byrlar súrt og sætt
í sama drykk, nær að er gætt.
3.
Dapra lést syrgja dáinn bróður
degi síðar þá gjörðir móður,
það máttu sýnast skipti skjót
skin eftir regn og harmabót.
4.
Röðull, sem mér um raunastundir
rann upp, snarliga gekk þó undir;
báðir þeir dagar eru nú eins
orðnir mér bót til harmakveins.
5.
Undirnar veistu sárt mér svíða,
sverð þitt tvíbrýnt er að nam ríða,
sonar og bróður sviptis-mein
systir og móðir ber eg ein.
6.
Nú er öll þörf að hrelldri hjúkrir
og huggunarinnar sjóð uppljúkir,
sem fyrir móður þinni, þá
þig góði Jesú! deyja sá.
7.
Ræðanda lát þig hjartað heyra:
„huggast mitt barn og grát ei meira!
blóðtengdur þinn eg bróðir er
og betri en tíu synir þér.
8.
Út af beiskju, sem yfir grætur,
upp mun þér spretta kjarni mætur,
þann ei að smakka þú gast lært
þitt nema geð væri áður sært.
9.
Nákomna þér eg nam frá mæðum,
nú lifa glaðir þeir í hæðum,
ómaklig þeirra veröld var
og verkum lokið höfðu þar.
10.
Ó, lát þér sagt: að utan efa
aftur skal eg þér báða gefa,
en geyma bæði þá og þig
þar til öllsaman finnið mig.
11.
Liðinn barnunga lát þér segja:
að loks ei týnist þeir sem deyja;
skyldi ég alvís skapa mann
og skjótt að engu gjöra þann.
12.
Faðmur minn skal þitt vígi vera,
vil eg þig mér á höndum bera,
eins hvort þú lifir eða deyr
okkur fær neinn ei skilið meir.“
13.
Sálunni þessi svalar ræða,
sorgar-undirnar hætta að blæða,
ó, guð! mín hryggð er aftur stillt,
allt skal mér lynda sem þú villt.
14.
Drottinn gaf mér svo dýra vini;
drottinn vék frá mér bróður og syni;
dásamligt nafn þitt, drottinn! sé
dýrkað fyrir hvert hlutskipte.
15.
Ókvíðinn skal eg eftir bíða
ununarljóma þeirra tíða,
að þann eg hér fyrir brjósti bar
brjóst mitt forklárað umfaðmar.
16.
Tel eg mér það fyrir tign og sóma:
tilkjörna sál í hæð að ljóma
hér á jörðunni að hafa fætt
og hirð míns Jesú viður bætt.
17.
Tak nú, ó guð! við tárum mínum,
tel þau og geym í sjóði þínum,
fyrir sál mína bænir bein!
besti vörður er hönd þín ein.
18.
Eftir hjartkærum undanförnum
augum mænandi tregagjörnum
gleð eg mig við: að fá sem fyrst
að finna þá og Jesúm Krist.
19.
Reifaðu þínum ástarörmum,
eins hvort vér mætum sæld eða hörmum,
blessa þú alla mína og mig,
minn drottinn! því eg vona á þig.