Brávallarímur – fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Brávallarímur 1a

Brávallarímur – fyrsta ríma

BRÁVALLARÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Tvíblinds hallar turna frí
bls.bls. 1–8
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Bragarháttur:Ferskeytt – víxlhent (frumhendingalag)
Viðm.ártal:≈ 1750
Tímasetning:1760
Flokkur:Rímur

Skýringar

Fyrsta ríma er öll kveðin undir ferskeyttum hætti óbreyttum nema hvað síðasta vísan er ferskeytt víxlhend (frumhendingalag).
1.
Tvíblinds hallar turna frí
taka meyjar dansa,
þessar hjartans augum í
allar stundir glansa.
2.
Við mig sögðu: „Sit þú hér“,
sunnur rjóðar veiga,
„allar skulum unna þér
Ása mjöðinn teyga“.
3.
Glaður næsta gegndi því,
gæðin vildi reyna;
þá var eins og yrða eg frí
allra heimsins meina.
4.
Æðstu partar innri tveir
allir hressast tóku,
hjá þeim gladdist meir og meir,
minnis krafta jóku.
5.
Eg fékk þá list, er fýsti mig,
fríaðist angri löku,
er sú konstin undarlig,
orta eg hálfa stöku.
6.
Gat ei meira gjört að því,
goðunum þetta sögðu,
síðan hæga hvílu í
Herjans meyjar lögðu.
7.
Barmi dauða í brjóstið hné,
byrgði augun hraður.
Sem eg var nú sofande,
sjá, þar kom einn maður.
8.
Mikið vel leist mér á þann,
er máls upp greinum ryður.
Sagðist Bragi heita hann,
hróðrar versa smiður.
9.
Hríslaðist baðmur höku þar
hans um brjóstið stóra,
fagurt augna bragðið bar
búldu fæðir jóra.
10.
Breiðskeggjaður bauga þorn,
bur Rúnhöfða kenndur,
ágætt sængur innst við horn
yfir mig lagði hendur.
11.
„Þú skalt“, segir hann, „lagað lag
ljóða tíðum meta
og af þessum Braga brag
bundinn samið geta“.
12.
Gladdist þanki geðs um storð,
gætir hverfur randa,
þessi munu áhrínsorð
ævinlega standa.
13.
Þar fyrir mun eg Týrs öl Týr
týru Þundar bjóða
máls og draga vírhlekks vír
vírs í strengi ljóða.
14.
Eg tilskikkast af yður
orða jörðu róta.
Skoði þér gjöld sem Skáfiður
skenkti sér til bóta.
15.
Síðan dreg eg að sögunni mál,
salur kætist orða.
Upp skal setja Óðins skál
eðla runni korða.
* * *
16.
Hraustan Svía Hárs á kvon,
hvirfils Sifjar baðma,
um þann get, sem átti von,
Ívar kóng víðfaðma.
17.
Óðins gamla ættbaðmur,
á hjörs þingin stefndur,
Hálfdan snjalli Haralds bur
hans var faðir nefndur.
18.
Grímnirs hallar börinn báls,
bækur lesnar sanna,
margra beygði hara háls,
hatari manndyggðanna.
19.
Átti meiðma Jálkur jóð,
jöfurr Svía fróna,
Auður hét sú Gefni góð
glansa dúfu hjóna.
20.
Djúpauðga var dýrleg tjáð
Drepsvarps innu snáka
jöfra ættar listug láð
leyfð um verin fáka.
21.
Helgi nefnist hvassi einn
hilmir í Sjálandi,
Jólnirs sala týru teinn
tyrfings klót berandi.
22.
Hans var barmi Hrærekur,
Hangatýrs á gjólum
unda fofnir æ skekur
Yggjar skrýddur kjólum.
23.
Helgi Auðar blíður bað,
buðlung Sjálands torga,
Ívar greindi efni það
Emblu Gefnar sorga.
24.
Dóttir gylfa sú forsjál
svörin tekur herða:
„Sé eg þetta“, mælti hún, „mál
má fram borið verða“.
25.
Mælti gramur: „Menjur fyr
miðjungs raddar fiðlu
í Njörunnar nökkva byr
neituðu þremur biðlum.
26.
Margir veit eg mildingar
miðla báli hvera,
fleiri en Helgi hildingar
horskir manu vera“.
27.
Auður svarar niflung nú,
náði geðið stilla:
„Miklu skiptir það hvort þú
þenkir vel eður illa.
28.
Slíkt mun ríkt í þanka þér,
þar af ekki brjóta,
og so gjaforðs unna mér
aldrei góðs að njóta“.
29.
„Rétt þú segir“, ræsir vann
ræða en sagnir fjelga,
„aldrei skaltu eignast þann
öðling frægan Helga.
30.
Þó hann girnist fremur en flest,
fá skaltu því síður“.
Hrund við skilur hringa, sést
Helga á talið býður.
31.
„Fann eg“, segir hann, „mína mey,
málin tjáði yðar,
en hún sagði ætíð nei
aski ljóma Niðar.
32.
So er stolt hin fríða frú,
fylkir rétt eg segi,
sér fullkosta niflung nú
nokkur þykir eigi“.
33.
So búinn fór Helgi heim,
hirðir kveður pretta,
Hrærekur með handar eim
heyrir talað um þetta.
34.
Hræreki úr hugar átt
hljóp sú þanka rennsla
að hann skyldi biðja brátt
bjarkar gylltu spennsla.
35.
Sagði barma sinnislag
sitt, en mesta gengi
þann er gæfu hlyti hag,
Hýsing bauga fengi.
36.
Krafði hlýra kyrglams ver,
kættan syrpu anda,
Manar blossa biðja sér
bleikju sals til handa.
37.
Helgi síðan heiman fór,
hitti Svía stjóra,
gnoðar fagnar geisla Þór
Gríðar fæðir jóra.
38.
Fagurmæltur fleygir var
frænings rauða jörva
og til handa hlýra þar
Hnossar beiddi sörva.
39.
Þunglegana þessu tók
þengill og so tjáði:
„Þar sem djásna þiljan klók
þér afsegja náði,
40.
því mun vilja geisla Gná
Gýmis frillu bóla
óframari að öllu þá
eiga þennan sjóla?“
41.
Sendir týru sævaða
segir Helgi metinn
„þó skervallar skævaða
skunda eg oftar léti“.
42.
Flytja biður fylkir tal
Fenju Hænis gjalda,
moturs hittir Menju val
myrkur Gizurs skjalda.
43.
Hræreks beiðni hermdi nú
sem Helgi náði þylja.
„Mun ei ganga“, mælti frú,
„mínum eftir vilja“.
44.
Framar tungu þylur þrek
Þrumu gylltra veiga:
„Þórs á sprundi þann Hrærek
þenki eg síst að eiga“.
45.
„Hví mun vilja“, hjalaði Þór
höggvörðs þúfna reita,
„Ilman gulls í geði stór
gylfa hvörjum neita?“
46.
Moturs aftur mælti nift,
mátti kóngur skilja:
„Eg mun verða illa gift
eftir þínum vilja“.
47.
Þengill víkur þaðan nú,
þykkjur í brjósti fjelga,
um hugsandi auðar brú
aftur finnur Helga.
48.
„Eg hefi sett“, kvað Ívar, „hól
á brún gargans reita,
en nú reyni, er hún fól,
yður gjörði neita.
49.
Miklu síður kóng hún kýs,
köld í sinnu láði,
því af glópsku þankinn frýs,
það er best hún ráði“.
50.
Skilja talið skjöldungar
skaptir sinni fínu.
Hræreki so heitin var
Hrundin gamma dýnu.
51.
Síðan burt af Svía grund
Sjálands til órýri
Helgi flytur falda Hrund,
föðurs pretti skýrir.
52.
Móti sendir manna val
mundar selju vagna,
leidd í Hræreks hallar sal
hilmir veislu magnar.
53.
Bragnar drekka, byrjast jól,
buðlung eignast konu,
gekk í merki gæfu sól
gleðinnar fyrir honum.
54.
Þanka leynum þiggja kaup
þykir sæmdin búna.
Á Sáðreinum Yggjar staup
eitt eg tæmdi núna.


Athugagreinar