Að sumarmálum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Að sumarmálum

Fyrsta ljóðlína:Mér léttir fyrir brjósti, það lifnar hugur minn
bls.100–102
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Mér léttir fyrir brjósti, það lifnar hugur minn,
mig langar til að fara að „stíga sporið“.
Og eldinn, sem var falinn, ég endurvakinn finn
og afl í vöðvum. Það er blessað vorið.
2.
Ég man frá bernskudögum hvað mér fannst stundum bjart,
ég man að það var einkanlega á vorin,
en þá var líka skammdegið oft skuggalega svart –
og Skjalda gamla kannske ekki borin.
3.
Árin komu og liðu og oft með gleðibrag,
en æskan drakk það besta úr náttúrunni.
Rímur voru kveðnar og raulað stundum lag
í rökkrinu í gömlu baðstofunni.
4.
Og þá var líka nauðsyn að þreyta ýmsa raun
og þá var stundum hleypt á tæpu vaði.
Til bjargar urðu tíðum, þó blótað væri á laun,
bænirnar sem fylgdu manni úr hllaði.
5.
Á vegamótum oftsinnis andartak ég beið
og átti von á förunautum stundum.
En hélt svo jafnan einsamall áfram grýtta leið
og eftir þröngum, hættulegum sundum.
6.
Í anda hef ég farið um ókunn dýrðarlönd
og eftirsóttar gersemar þar fundið.
Nú legg ég bráðum einsamall, en öruggur, frá strönd
og út á hinsta, þrengsta og dýpsta sundið.
7.
Ég stansa og lít til baka við sorfinn fjörusand.
Ég sýp á vasaglasinu í laumi.
En fyrir handan álinn ég fyrirhitti land
sem fáir hafa litið nema í draumi.
8.
Og þó að margt sé hulið í þoku og skoðun tvenn,
hvort þar sé „grösug hlíð með berjalautum“,
eg litast um, ef þörf gerist, einu sinni enn.
Ég á þar von á tryggum förunautum.
9.
Ég finn það best að lokum að ég var aldrei einn
og oft var leiðin skreytt með fögrum rósum.
Og vegurinn, sem mér fannst ekki vera alveg beinn,
er varðaður með skærum götuljósum.
10.
Mér léttir fyrir brjósti, það lifnar hugur minn,
mig langar til að fara að „stíga sporið“.
Og eldinn, sem var falinn, ég endurvakinn finn
og afl í vöðvum. Það er blessað vorið.