Kvæði af dyggðum dúfunnar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af dyggðum dúfunnar

Fyrsta ljóðlína:Hjónin skulu af dúfu dyggð
bls.355
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aBaBO *
Viðm.ártal:≈ 1600

Skýringar

Viðlag, 3 línur framan við
Síðasta lína er viðlag
Dúfan ljúf og einföld er,
ekki hefur til meina,
lærum af henni ástarþelið hreina.
1.
Hjónin skulu af dúfu dyggð
dæmin bestu læra,
una sér vel með öngri styggð,
ástina hvörn dag næra;
lærum af henni ástarþelið hreina.
2.
Dúfan hefur ei gallið góð,
hún gefur þau fyrstu dæmi.
Hjónin forðist heiftarmóð
af hjartans elsku næmi;
lærum af henni ástarþelið hreina.
3.
Önnur dæmi af dúfu styn
dragi sér ástin klára.
Á hjartans bænum hafi þau skyn,
huggar með iðran sára;
lærum af henni ástarþelið hreina.
4.
Með nefinu gjörir ei nökkurt mein
eða nöglum sínum dúfa.
Svo skulu vanda hjónin hrein
að halda sambúð ljúfa;
lærum af henni ástarþelið hreina.
5.
Kennir dúfan kornin hrein,
klárt vill jafnan tína.
Dragi svo hjón í hvörri grein
hreint fyrir arfa sína;
lærum af henni ástarþelið hreina.
6.
Fagnar vatni fuglinn sár,
fer svo einninn dúfan.
Huggist líka hjónin klár
við herrans orðið ljúfa;
lærum af henni ástarþelið hreina.
7.
Hryggðarvatn sá helgi kross,
hjónin gleðja ætti.
Hann er gefinn til hjálpar oss,
hvör sem að því gætti;
lærum af henni ástarþelið hreina.
8.
Að flokki leitar fuglinn beint,
flýr svo hættur allar.
Við grannana tefli hjónin hreint
og hati svo flærðar galla;
lærum af henni ástarþelið hreina.
9.
Hvatrar dúfu eðlið eitt
ungana mjúkt að græða,
svo skal föðursins hjartað heitt
með heiðri börnin fræða;
lærum af henni ástarþelið hreina.
10.
Fæðir dúfan ungana enn
aðra jafnt sem sína.
Góðar konur og mildir menn
miskunn öllum sýna;
lærum af henni ástarþelið hreina.
11.
Heldur dúfan hreina tryggð,
harmar þá þau skilja.
Það gjörir og flestum hjónum hryggð
sem höfðu mjúkan vilja;
það angrar þeirra ástarþelið hreina.
Allt er kalt í heimi hér,
hvað sem til skal greina;
utan það sæta ástarþelið hreina.