Ínkli og Yarikó | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ínkli og Yarikó

Fyrsta ljóðlína:Ábatans elska kná,
Þýðandi:Jón Þorláksson
bls.352–359
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt ababcdcd
Viðm.ártal:≈ 1800

Skýringar

Undir fyrirsögn stendur:
„Snúið úr Gellerts kvæðum (Inkle og Yariko í Fabeln und Erzählungen 1765, 8. I, 15–18). Prentað áður í „Gamni og alvöru“ I, 95–102. Eptir tveim handritum.“
1.
Ábatans elska kná
oss sú er kenndi fyrst:
hvernig lífgírug lá*
léttu tré fær gjörðist;
til að framselja á fjöl
fjör vort, hið kærsta hnoss,
óvissri dröfn í dvöl
dirfsku sú færir oss.
2.
Ábatans elska skír,
ímyndan plógs og tjóns,
auðsólginn Ínkla knýr
inní hol báruljóns.
Orku sá æskunnar
offraði karfabyggð.
Hans skyn að versla var,
var hans að reikna dyggð.
3.
Lokkar hann laufa umvent*
land fullt með jötnaróm
er vér æ fáum kennt
ágirnd og kristindóm:*
svo Ameríkam sér
seggur, en nærri strönd
gnoð stormur fyrirfer,
fær hann þó haldið önd.
4.
Fold hann með fjöri nær,
féll yfir Breta þó
landsmúgur yfrið ær
þá undan komust sjó.
Svalg hinna soltin dör,
samt sparast Ínkla líf,
honum varð flóttaför
og fagurlimi hlíf.
5.
Sprunginn af hlaupum hér
hartnær, með órótt geð,
engelskur undir sér
eitt niður varpar tréð;
allur af ótta brann,
óviss í hugarkvöl,
hvort sverð eða hungur hann
heims mundi firra dvöl.
6.
Skyndiligt skelfdum hans
skarkaði í eyrum hljóð:
Eitt þess ókunna lands
ungt skrapp úr runni fljóð.
Hún auga hröðu með
hal leit frá Norðurs-ey,
hverft varð, en hvað af réð?
að hverfa burt? ónei!
7.
Svo eru villivíf
vör ei né þýsk í sið.
Hún gest á horfði stíf,
hvítt, kringlótt andlitið.
Klæðnaður hans og hár,
hýrt tendruð sjónarljós,
allt var það unun klár
er hélt til baka drós.
8.
Ótamin yndishót
eins fengu vífs á hann,
að draga dul á rót
og dempa síst hún kann;
uppskátt lét augnaráð
innra hvað þreyði geð.
Augað fékk elsku tjáð
og elsku baðst þar með.
9.
Elskuvert ei sig laug
Indinnu vaxtarsnið.
Með látum mæltu þau,
með látum kynntust við.
Hún benti hendi að rekk,
hann skundar eftir fús;
aldinum fæddan fékk
og fylgdi í lítið hús.
10.
Hún sýnir honum lind,
heilnæma þorstabót.
Hún hlær, og hét það mynd
huggunar, angri mót;
sinn tíu sinnum gest
sá grannt og hár fitlar,
fannst hana furða mest
fallegu krullurnar.
11.
Sérhverjum morgni með
mærin Yarikó
komumanns kætti geð
kosti með nýjum þó.
Góðsemdar gjörði hún ljóst
með gögnum sérhvern dag
að sitt ósiðað brjóst
sæmdi trútt hjartalag.
12.
Skenk margan hún gaf hal
og húsið gjörði skreytt
með skinna mislitt val
og margs kyns fjöðrum breytt;
skart nýtt af skeljum þó,
er skrautligastar fann,
hún sér um herðar bjó
nær hitta vill sinn mann.
13.
Hún gest að fossi fram
færði nær húm að rak,
þar svæfa niður nam
og næturgalans kvak.
Nákvæmri aumkvun af
í sínum faðmi dátt
vífið sinn vin, þá svaf,
vaktaði hverja nátt.
14.
Mun norður hér í heim
hjarta svo göfugt fást?
orðfæri þýðust þeim
það sama kennir ást.
Þau talast tvö ei við,
tilbjuggu sjálf það hjal.
Hann skilur kæru klið,
kannast hún rekks við tal.
15.
Oft fræðir Ínkli víf
ættjarðar hans hvað sé
mjög indælt manni líf
og margs kyns dýrinde.
Fljóð hjá sér óskar ungt
að fengi í Lundún séð,
hún heyrði og þótti þungt
að það ei strax var skeð.
16.
„Þig“, kvað hann, „þar eg bý“,
– og þreifaði um sinn kjól –
„mörg klæði mislit í
meir verð en þetta skjól,
í höll, sem hálf er gler,
af hestum dregin fljótt,
framekið þar skal þér
í þeim stað næsta rótt.
17.
Stúlkan af gleði grét,
gætandi þrungnum svip
útá breitt ufsaflet
hvort ekkert sæi skip.
Auðnaðist innan skamms
það æskti drós að sjá;
vör orðin voga gamms
varð hrædd og fegin þá
18.
og leitar upp sinn gest.
Af ást og tryggð við hann
föðurland forgleymest;
fljóð við hans síðu rann
eins glatt á æga dröfn
og væri þetta far,
sem hún leit híma á höfn,
hús besta Lundúnar.
19.
Beina leið flytur fley
flughraður óskabyr
*Barbados- undir -ey,
þær óhamingjudyr,
hvar Ínkli skelfdur á
illfarir sínar leit
nær kaupmanns hyggjan há
hans vakta þanka beit.
20.
Auð frá Indíalands
að bera tóma mund
er fyrir ágirnd hans
ekki nein gleðistund:
„Svo hef eg grimman geim
gegn svamlað fyrir það
að snáfa snauður heim!“
sneyptur hann þetta kvað.
21.
Innan skamms Ínkli þó
ágirndar sefar gan
og bauð Yarikó
einum sem keypti man.
Harðýðgi hræðilig
hér kom í þakkar stað.
Í þrældóm selda sig
sá hún er líf bar að.
22.
Hún féll um háls á þrjót,
hún féll á kné og grét,
hún snökti, hrein – ei hót! –
hann brúði selda lét.
„Æ, mig þungaða að þjá!“
þannig hún klagaði.
Viknar hann við það? Já! –
„Hún verður dýrari
23.
um þrjú pund sterling stíf!“
strák-Breti kátur gó:
„Hér er, minn herra! víf
heitir Yarikkó.“
* * *
Ómennskur Ínkli! gauð
aldrei þinn líki var!
Þín smán uns öld er auð
alla tíð lesist þar!
24.
Manngæsku mestu raun,
mjúkustu kærleiks trú,
þrældóm í þökk og laun
þinn bófi geldur nú. –
Víf ungt, er vegna þín
veðsetti líf og grið,
hóf þig úr heli og sín
heimkynni skildi við,
25.
fylgðist þér með um mar
og myndarlag geðfelt
með besta hjarta bar,
burt fékkst af ágirnd selt.
Stær þig! neinn strákur ei
stelur þér nafnbót frá.
Með ódyggð mun aldrei
mögulegt þér að ná.


Athugagreinar

1.3 : sjór.
2.8 þ.e. skynsemi hans var: að versla; dyggð hans: að reikna.
3.1 laufi: sverð; laufa umvent: kristnað með sverði.
3.4 jötnarómur: gull.
19.3 „Barbados er ey í Mexíkuvík sem Engilsmenn eiga; þar tíðkaðist lengi mjög mansal.“