Um Pílatí rangan dóm | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 28

Um Pílatí rangan dóm

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Pílatus sá að sönnu þar
bls.29r--v
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aabbccdd
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Nú bið eg Guð þú náðir mig
1.
Pílatus sá að sönnu þar,
sín ráð máttu ei gilda par.
Upphlaup sér búið hræddist hann,
hugði að stilla vanda þann;
fullnægja vildi fólksins bón,
fá skyldi Jesús dauðans tjón.
Sannleika öngvum sinnti meir,
so dæmdi allt sem beiddu þeir.

2.
Hendur í vatni þá nam þvo,
þar næst við Júða mælti svo:
Sjálfir um yður sjái þér.
Saklaus við réttlátt blóð eg er.
Allur almúginn upp á það
andsvarar greitt í þessum stað:
Hans blóð, þó nú hann kvelji kross,
komi yfir börnin vor og oss.

3.
Pílatus hafði prófað þar,
píslarsök drottins engin var;
fyrir og eftir eins réð hann
úrskurða Jesúm saklausan;
þó mót samvisku sinni þvert
sjálfur viljandi dæmdi bert.
Guð gefi að yfirvöldin vór
varist þau dæmin glæpa stór.

4.
Hvað margur nú í heiminum
hér fyrir lastar Pílatum,
sem þó elskar og iðkar mest
athæfið hans og dæmin verst.
Óttinn í dómi oft fær sess;
yfirherrarnir njóta þess.
Almúgans hrósun olli því,
illgjarnir skálkar hlaupa frí.

5.
Ábatavon og vinahót
verkin dylja þó séu ljót.
Líka kemur sú fordild fram,
sem forsvarað getur Barrabam.
Gefst þá raunin hvað gilda skal
gulltungan sú sem Achan stal.
Máske og þiggi mútur hinn
meir en Pílatus þetta sinn.

6.
Eg spyr hvað veldur, ódyggð flest
eykst nær daglega og fjölgar mest?
Umsjónarleysi er orðsök hæst,
eigin gagnsmunir þessu næst.
Miskunn, sem heitir skálkaskjól,
skyggnist eftir um fánýtt hól.
Óttinn lögin so þvingar þrátt,
þora þau ekki að líta hátt.

7.
Fyrir fólkinu þegar þar
þvoði Pílatus hendurnar,
fyr Guði sér þann gjörði grun,
gilda mundi sú afsökun.
Varastu, maður, heimsku hans
hér þó þú villir sjónir manns,
almáttug drottins augsýn skær
allt þitt hjarta rannsakað fær.

8.
Viltu þig þvo, þá þvo þú hreint
þel hjartans bæði ljóst og leynt.
Ein laug er þar til eðlisgóð:
iðrunartár og Jesú blóð.
Grát þína synd, en set þitt traust
á sonar Guðs pínu efalaust.
Lát af illu en elska gott.
Allan varastu hræsnisþvott.

9.
Blóðshefnd á sig og börn sín með
blindaður lýður hrópa réð.
Efldist so þessi óskin köld,
enn í dag bera þeir hennar gjöld.
Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert.
Formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.

10.
Drottinn Jesú, sem dæmdur vart,
dómari kemur þú aftur snart.
Dómsmenn láttu til dýrðar þér
dómana vanda rétt sem ber.
Þvo þú vor hjörtu og hendur með.
Hrein trú varðveiti rósamt geð.
Þitt blóð flekklaust sem flóði á kross,
frelsi það börnin vor og oss.


Athugagreinar

Amen

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 130–132)