Um Kristí kvöl í grasgarðinum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 2

Um Kristí kvöl í grasgarðinum

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Jesús gekk inn í grasgarð þann
bls.3r-4r
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) ferkvætt aabbcc
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Faðir vor, sem á himnum ert
1.
Jesús gekk inn í grasgarð þann,
Getsemane er nefndur hann.
Af olíuþrúgan sá auknafn bar.
Olíutréð rétta herrann var.
Olíum hjálpræðis allra fyrst
af hans lífi þar pressaðist.

2.
Í aldingarði fyrst Adam braut,
aftur Jesús það bæta hlaut.
Aldingarðseikin ávöxt gaf,
eymd, synd og dauði kom þar af.
Í aldingarði ljúft lífsins tréð
lífgunar frjóvgun veita réð.

3.
Júdas þekkti vel þennan stað,
þar hafði hann lengi um hugsað,
helst mundi pláss það hentugast,
herrann mætti þar forráðast
svo fæstir hefðu' að segja af því
og svik hans lægju' svo hylming í.

4.
Satan hefir og sama lag,
situr hann um mig nótt og dag,
hyggjandi' að glöggt hvar hægast er
í hættu og synd að koma mér.
En þó í þeim stað allra mest
sem á eg drottni að þjóna best.

5.
Heims börnin hafa list þá lært,
lygð og svikræði er þeim kært,
fótsporum djöfuls fylgjande,
falsráðin draga þó í hlé.
Frá hans og þeirra hrekkjastig
herrann Jesús bevari mig.

6.
Oft hafði Jesús í þann stað
áður gengið, því veit eg það.
Hefir sannlega herrann minn
hugsað um pínu' og dauða sinn,
fulltingis beðið föðurinn þar
svo fengi hann staðist píslirnar.

7.
Jurtragarður er herrans hér
helgra Guðs barna legstaðer.
Þegar þú gengur um þennan reit
þín sé til reiðu bænin heit.
Andláts þíns gæt og einninn þá
upprisudaginn minnstu á.

8.
Lærisveinana lausnarinn kær
lét suma bíða nokkuð fjær.
Þrjá tók þó með sér hjartahreinn;
hann girntist ekki að vera einn.
Sála mín, þar um þenkja skalt,
þér til lærdóms það skeði allt.

9.
Guðs kristni er grasgarður einn,
guðs sonar ertu lærisveinn.
Sittu hvar sem hann segir þér,
sönn hlýðni besta offur er.
Til krossins ef hann þig kallar þar
kom þú glaðvær án möglunar.

10.
Freisting þung ef þig fellur á
forðastu einn að vera þá.
Guðhræddra selskap girnstu mest,
gefa þeir jafnan ráðin best.
Huggun er manni mönnum að,
miskunn guðs hefur svo tilskikkað.

11.
Hjartanlega varð harmþrunginn
herrann Jesús í þetta sinn.
Holdið skalf við það feikna fár,
flutu í vatni augun klár.
Sagði grátandi: 'Sál mín er
svo allt til dauða hrygg í mér'.

12.
Hartnær steinsnari frá þeim fór,
féll strax til jarðar drottinn vór
flatur sitt blessað andlit á,
ógnarleg kvöl hann mæddi þá.
Hjartað barðist í brjósti heitt,
bæði var líf og sálin þreytt.

13.
Samviskan mig nú sjálfan slær,
sé ég það gjörla, Jesú kær.
Mín synd, mín synd, hún þjáði þig,
þetta allt leiðstu fyrir mig.
Aví! hvað hef eg aumur þræll
aukið þér mæðu, drottinn sæll.

14.
Mér virðist svo sem mín misgjörð
sé meiri' að þyngd en himinn og jörð
því Jesús það föðursins orðið er
sem allt með sínum krafti ber. (Ebr.1.)
Flatur hlaut þó að falla þar
þá fyrir mig bar hann syndirnar.

15.
Hjartans gleði og huggun traust
hér gefst þér, sál mín, efalaust.
Það gjald fyrir mína misgjörð
er meira vert en himinn og jörð.
Hans sorg, skjálfti og hjartans pín
hjá guði' er eilíf kvittun mín.

16.
Fram þegar Jesús fallinn var
fegurstu bæn hann gjörði þar:
'Abba, faðir ástkæri minn,
af mér tak þennan kaleikinn,
þó svo sem helst þú sjálfur vilt',
sagði herrann með geðið stillt.

17.
Úrræðin bestu' er auðmjúkt geð,
angrað hjarta og bænin með.
Hvenær sem þrengir hörmung að
hugsaðu, sál mín, vel um það.
Óþolinmæði' og möglun þver
meiri refsingar aflar sér.

18.
Óbljúgur skaltu aldrei neitt
útheimta sem þér girnist veitt
til holdsins muna hentugt þér.
Hugsa jafnan að drottinn sér
hvað lífi' og sál til liðs er nú
langtum betur en sjálfur þú.

19.
Eins líkaminn og sálin sé
sannauðmjúklegt í bæninne.
Á lítur drottinn innra hit[t].
Ei að síður skal holdið þitt
fyr Guð með blygðun ganga fram.
Gjörði svo forðum Abraham.

20.
Jesú, þín grátleg grasgarðs pín
gleður örþjáða sálu mín.
Þitt hjartans angur hjartað mitt
við hryggð og mæðu gjörði kvitt.
Því skal míns hjartans hjartaþel
heiðra þig, minn Emanúel. — Amen.


Athugagreinar

Amen

(JS 337 4to, bl. 3r–4v)

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 27–32)