Um Barrabas frelsi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 29

Um Barrabas frelsi

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Seldi Pílatus saklausan
bls.29v–30r
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og tvíkvætt aBaaB
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Sjá einnig: Passíusálmar 1996, bls. 132–135.
Því hefur verið haldið fram að Hallgrímur fylgi atkvæðaramma háttarins ekki nema lauslega í sálminum.

Með Lag: Eins og sitt barn, faðir [ástargjarn]
1.
Seldi Pílatus saklausan
son Guðs til krossins dauða.
Upphlaupsmaður, sá víg eitt vann,
þá frelsi fann
fékk líf, en missti nauða.

2.
Í myrkvastofu sá bundinn beið,
Barrabas frá eg hann heiti.
Má hér finnast ein merking greið
um mannkyns neyð,
mjög skýr að öllu leyti.

3.
Barrabas frá eg að föður og nið
flestir lærðir menn þýði.
Adam líkist þar eflaust við
og allt hans lið
sem á féll dauðans kvíði.

4.
Upphlaupsmaður hann orðinn var,
þá eplið í munn sér leiddi,
sjálfs Guðs boðorði sinnti ei par
og síðan þar
sig og allt mannkyn deyddi.

5.
Í djöfuls fjötrum fastur lá
fanginn til eilífs dauða.
Allir hans niðjar út í frá
með eymd og þrá
áttu von kvala og nauða.

6.
Hér þá Jesú var helið kalt
af heiðnu dæmt yfirvaldi
fékk Adam sjálfur frelsið snjallt
og fólk hans allt
sem fagnar því lausnargjaldi.

7.
Nú fyrst eg Adams niðji er,
nær mér gengur það dæmi.
Sál mín, set slíkt fyr sjónir þér,
og sjáðu hér
sannferðugt lærdómsnæmi.

8.
Ó, hvað oft hef eg aumur gert
uppreisn mót drottins anda,
daglega því hans boðorð bert
so braut eg þvert.
Mér bar þó í hlýðni að standa.

9.
Mun eg ekki við manndráp frí:
mína sál þrátt eg deyddi.
Ill dæmin gáfust af mér ný
og nauðir í
náungann þar með leiddi.

10.
Ófrægður er eg orðinn mest.
Allar skepnur það sanna.
Fáráðum ekkert forsvar sést,
fangelsið verst,
fyrir því hlýt eg að kanna.

11.
Í myrkvastofu eg bundinn bíð,
bölvan lögmáls mig hræðir;
dapurt nálægist dauðans stríð
og dómsins tíð;
daglega sorgin mæðir.

12.
Heyri eg nú þann hjálparróm,
að hafir þú, Jesú mildi,
fyrir mig liðið lífláts dóm;
þín líknin fróm
lausan mig kaupa vildi.

13.
Sú heilaga aflausn hryggð og sút
af hjarta mínu greiðir,
syndanna leysir hlekkja hnút
og hér með út
úr hörðu fangelsi leiðir.

14.
Hvað dauðasaknæmt sást á mér,
soddan miskunn eg þekki,
til dauða allt var dæmt á þér,
minn drottinn, hér;
dóminum kvíði eg því ekki.

15.
Líf mitt og sál þig lofar nú,
leyst frá dauðans fangelsi.
Eg lifi eða dey, það er mín trú
óbrigðul sú,
í þínu, Jesú, frelsi.

16.
Himneskri páskahátíð á
hef eg nú þess að bíða.
Myrkvastofunni frelstur frá
eg fagna þá
í flokki útvaldra lýða.

17.
So er nú Barrabas orðinn frí,
Adam og eg, hans niðji.
Hvör kristin sála heimi í
vorn herra því
heiðri, lofi, tilbiðji.


Athugagreinar

Amen.