Borðsálmur II | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Borðsálmur II

Fyrsta ljóðlína:Þakkið nú drottni þér
bls.125
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) þríkvætt aaBB
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar
Sá seinni†
Með sama tón: [Faðir á himnahæð etc]

1.
Þakkið nú drottni þér
því að hann góður er
hvör öllu, *sem holdsart hefur,
heilnæma fæðu gefur.

2.
Lyst hefur ei herrann sá
hestsins styrkleika á
né heldur á neins manns beinum
nokkra hans þóknan reynum.

3.
Drottni því þóknast best
þeir sem hann óttast mest,
hvörjir von hafa hreina
hans á miskunn alleina.

4.
Sé Guði sönnum dýrð
(hans syni og anda skýrð
sem var fyrir öld eilífa,
er og jafnan mun blífa).

5.
Faðir á himnum hæst,
(helgað sé nafn þitt stærst.
So trú vor og líf þér líki
lát hér koma þitt ríki.

6.
Verði þinn vilji hér
víst sem á himnum sker.
Nauðþurftar brauðið neyta
nú í dag virstu veita.

7.
Forlát oss illverk skeð,
allar skuldir þar með
sem vér vægð viljum veita
þeim við oss illa breyta.

8.
Í freistni leið oss ei inn
þó angri holds veikleikinn
heldur frels oss frá illu
ógn, synd, skömm, hræsni, villu.

9.
Því að ríkið þitt er,
þar með öll magtin hér
og dýrð án afláts framen
um aldir alda. Amen.)

10.
Drottinn, þér þökkum vér
þínar velgjörðir hér
fyrir Jesúm son þinn sæta
sá öll vor mein réð bæta.

11.
Þú ræður og *ríkir einn,
réttlátur drottinn hreinn,
um aldir alda, amen,
eilíf dýrð sé þér framen.
Amen.

Leiðréttingar:

1.3 sem holdsart] < JS 229 8vo, ÍB 585 8vo. holld er JS 272 4to I.
11.1 ríkir] < JS 229 8vo, ÍB 585 8vo (einnig leiðrétt svo ofanlínu með annarri hendi í JS 272 4to I). styrer JS 272 4to I.

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 143. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 272 4to I, bl. 114r og 113v–114r. Sálmurinn er hér birtur orðrétt eftir Ljóðmælum 4 og með sömu leiðréttingum)