Um iðrun Péturs | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 12

Um iðrun Péturs

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Pétur þar sat í sal
bls.14r–15r
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður+) þrí- og tvíkvætt aBaB
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Kom andi heilagi
1.
Pétur þar sat í sal
hjá sveinum inni.
Tvennt hafði hanagal
heyrst að því sinni.

2.
Búinn var þrisvar þá
þvert hann að neita
sér Jesúm sælan frá.
Sorg má það heita.

3.
Drottinn vor veik sér við,
víst um það getur,
ljúfur með líknarsið
og leit á Pétur.

4.
Strax flaug í huga hans,
hvað þó síst varði,
lausnarans orð og ans
í aldingarði.

5.
Blygðaðist brátt við það
brjóst fullt af trega,
gekk út úr greindum stað
og grét beisklega.

6.
Sjá þú með sannri trú,
sál mín ástkæra,
hvað framar hefur þú
hér af að læra.

7.
Hátt galar haninn hér
í hvörs manns geði
drýgðar þá syndir sér
sem Pétur skeði.

8.
Sárlega samviskan
sekan áklagar,
innvortis auman mann
angrar og nagar.

9.
Fær hann sig frjálsan síst
þó finnist hrelldur
sem fugl við snúning snýst
sem snaran heldur.

10.
Víkja þó vilji hann
frá vonskuhætti
orka því ekki kann
af eigin mætti.

11.
Upp þó hér ætli brátt
aftur að standa
fellur hann þegar þrátt
í þyngri vanda.

12.
Lögmál Guðs hrópar hátt,
hanagal annað,
segir og sýnir þrátt
hvað sé þér bannað.

13.
Það þvingar, þrúgar með,
það slær og lemur,
sorgandi, syndugt geð
særir og kremur.

14.
Það verkar sorg og sút
þeim seka manni,
hjálpar þó öngum út
úr syndabanni.

15.
Holdið þar þrjóskast við
og þykir illa.
Eykst á þann syndasið
svik, hræsni og villa.

16.
Enn Jesú álit skýrt
anda Guðs þýðir.
Sá gjörir hægt og hýrt
hjartað um síðir.

17.
Lætur hann lögmál byrst
lemja og hræða.
Eftir það fer hann fyrst
að friða og græða.

18.
Orð Jesú eðla sætt
er hans verkfæri.
Helst fær það hugann kætt
þó hrelldur væri.

19.
Hann gefur hreina trú,
hann fallinn reisir,
hann veikan hressir nú,
hann bundinn leysir.

20.
Ekki er í sjálfs vald sett,
sem nokkrir meina,
yfirbót, iðrun rétt
og trúin hreina.

21 Hendi þig hrösun bráð,
sem helgan Pétur,
undir Guðs áttu náð
hvört iðrast getur.

22.
Heimska er versta víst
við það að dyljast,
þú megir þá þér líst
frá þrautum skiljast.

23.
Ef Jesús að þér snýr
með ástarhóti
líttu þá hjartahýr
honum á móti.

24.
Gráta skalt glæpi sárt
en Guði trúa,
elska hans orðið klárt,
frá illu snúa.

25.
Ónýt er iðrun tæp,
að því skalt hyggja,
ef þú í gjörðum glæp
girnist að liggja.

26.
Pétur þá formerkt fékk
fallhrösun slíka
úr syndasalnum gekk.
So gjörðu líka.

27.
Ó, Jesú, að mér snú
ásjónu þinni.
Sjá þú mig særðan nú
á sálu minni.

28.
Þegar eg hrasa hér,
hvað mjög oft sannast,
bentu í miskunn mér
so megi eg við kannast.

29.
Oft lít eg upp til þín
augum grátandi.
Líttu því ljúft til mín
so leysist vandi.


Athugagreinar

Amen

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 70–75)