Landslag | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Landslag

Fyrsta ljóðlína:Heyrið vella á heiðum hveri
Höfundur:Emil von Qvanten
Þýðandi:Grímur Thomsen
bls.63
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt AAbCCb
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1875

Skýringar

Þýðing og staðfæring á kvæði von Qvantens: Suomis sång (Hör hur härlig sången skallar).
Í útgáfu Snæbjarnar Jónssonar á ljóðmælum Gríms (1934) segir: „Prentað í fyrsta sinn í Söngvum og kvæðum, er söngfjelagið Harpa gaf út. Rvík. 1875 bls. 43–45.“
Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
ymur Íslands lag.