Í minningu Eiríks Líndals | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Í minningu Eiríks Líndals

Fyrsta ljóðlína:Einn er hniginn húnvetningur.
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1977

Skýringar

Í minningu Eiríks Líndals Steinholti á Dalvík, sem var fæddur 1. jan 1906 í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu, en var búsettur á Dalvík frá 1920 til dauðdags 25. júní 1977.
Einstaklega hlýleg eftirmæli um mætan vin.
Einn er hniginn húnvetningur.
Hópur vina þynnist æ.
Öðlingsmanni á öllum sviðum
einum færra í þessum bæ.
Hreinskiptinn í háttum öllum.
Hlotnaðist virðing sérhvers manns.
Mátti í engu vamm sitt vita.
Verður seinfyllt skarðið hans.

Fór ei að tíðar fyrirmælum.
Fjöldans slóðir tróð ei þrátt.
Var í sínu sinnisfari
sérfræðingur á margan hátt.
Gekk á snið við gervimennsku,
glysi og tildri ei hændist að.
Greindi fljótur rétt frá röngu,
reynsla og hyggni sáu um það.

Mannréttindi meiri vildi,
mannlífs nýjan yrkja brag.
Fyrir heitu brjósti bar´ann
bættan lands og þjóðar hag.
Feginshugar færar götur
fyrir lítilmagnann tróð.
Létti glaður þreytuþunga
þess, er höllum fæti stóð.

Þessi látni dáðadrengur
dýravinur mikill var.
Ásauð hann um áraraðir
átti - og sér á höndum bar.
Ljúfur, sterkur leyniþráður
lá á milli skepnu og manns.
Gælustað sér góðan átti
gamli kisi í fangi hans.

Glaðsinna og gamansamur.
Glettni ríkri yfir bjó.
Funi lá í fjörgum orðum,
fyndni létt í máli hló.
Aldrei neinn með orðum særði
eða hjó til nokkurs manns.
Gerði öllum gott í skapi
græskulausa kímnin hans.

Öllu sem til heilla horfði
hann af alhug fylgja vann.
Framfarir í félagsmálum
fyrr og síðar studdi hann.
Atkvæði við endi mála
aldrei réði hending nein,
en íhygli og íturhyggja
úrslitum í hverri grein.

Mundi lengi greiða götu
giftuöflun þessa lands,
ef íslensk þjóð um alla framtíð
ætti marga líka hans.
Meðan grær á grænum túnum
grasa, rósa og lilju safn,
eða daggir glærar glitra,
gleymast mun ei Eiríks nafn.