Bróðurkveðja | Kvæðasafn Borgfirðinga
Kvæðasafn Borgfirðinga

Innskráning ritstjóra

Bróðurkveðja

Fyrsta ljóðlína:Ó bróðir, mér finst það svo ömurlegt alt
bls.1917
Viðm.ártal:≈ 1917
Tímasetning:1917

Skýringar

Páll Jónsson fæddur 1. apríl 1895, dáinn 31. janúar 1917. Sonur Jóns Pálssonar og Guðrúnar Pétursdóttur, hjóna í Fljótstungu í Hvítársíðu. Páll var nemandi i Hvítárbakkaskóla er hann andaðist þar úr mislingum. Bergþór Jónsson orti eftirfarandi tregaljóð eftir bróður sinn. 
Ó bróðir, mér finst það svo ömurlegt alt.
Óttalega er mannlífið hverfult og valt.

Hví varstu látinn flytja svo bráðlega á braut,
og bíða svo harða og skelfilega þraut.

Hefði ég aðeins getað grátið fyrir þig,
er gekstu þenna bratta og grýtta heljarstig.

Hefði ´ann pabbi verið að vaka þér hjá.
Vaka yfir drengnum, er raunirnar þjá.

Hefði ´ún mamma fengið að faðma drenginn sinn.
Fengið að strjúka um brjóst þér og kinn.

Mér finst ég, í anda, þig einmana sjá.
Einmana í dauðanum, nei, guð var þér hjá.

II.

Ýmsir munu unna
yngstum bróður,
svo var og
um systkini þín.
Minningar ljúfar
frá lífi þínu
eigum við öll
ærið margar.

Man ég þig barn
brosa í vöggu
og vaxinn karlmann
til verks ganga.
Man ég þig kveðja
kossi hinstum.
Heilsaði ég þér næst
í helfjötrum.

Fáir, og engir
utan frændur nánustu
skildu og þektu
þig, til hlítar.
Fátt var þér fjær
en framgirni.
Vildirðu heldur
vera en sýnast.

Störum við og stöndum
sem steini lostin.
Skynjum við fátt
og skiljum þó minna.
Mun ei svöðusár
síðla gróa?
En hvort er, sem mér heyrist
hjalar þú bróðir:

III.

„Grátið þið ei, ég brosi bak við tjaldið.
Bætt er ei raun með þungum harmatölum.
Munið það æ, þið hingað bráðum haldið.
Hittumst þá glöð í morgunroðans sölum.
Hér er svo rótt, í ljóssins veldi og vorsins.
Vaggandi, að gleyma, þrautum hinsta sporsins.“