Afmæliskveðja frá Kristjáni Jónssyni Snorrastöðum til Júlíusar Jónssonar, Hítarnesi, 85 ára | Kvæðasafn Borgfirðinga
Kvæðasafn Borgfirðinga

Innskráning ritstjóra

Afmæliskveðja frá Kristjáni Jónssyni Snorrastöðum til Júlíusar Jónssonar, Hítarnesi, 85 ára

Fyrsta ljóðlína:Fyrir fimm og áttatíu árum
Viðm.ártal:≈ 1970
Tímasetning:1970

Skýringar

Erindin voru lokaorð Kristjáns er hann ávarpaði Júlíus í hófi sem afkomendur Júlíusar héldu honum til heiðurs á 85 ára afmælinu að Laugargerðisskóla 23. júlí 1970. 
Fyrir fimm og áttatíu árum
við ungbarnsvöggu heilladísin stóð
og spáði fyrir byr á lífsins bárum,
brosi morguns, aftansólarglóð.
Þetta barn varð manndómsdrengur merkur
og marga stöku listilega kvað.
Í öllu starfi ötull bæði og sterkur.
Við erum nú í dag að hylla það.

Hann Júlíus var aldrei efans maður
og enginn veifilskati á lífsins braut.
Leysti oft vanda einn og orkuhraður,
sem yrði mörgum tveimur mönnum þraut.
En fjótt ég lýk hér fátæklegum orðum,
þó frásögn mætti þylja endalaust.
Hann stígur enn í ístað líkt og forðum
og upp í hnakkinn svífur létt og traust.